Óvæntasta stjarna umbreytinganna í breskum stjórnmálum í síðustu viku var líklega kötturinn Larry. Larry er heimiliskötturinn í Downing-stræti 10, þar sem forsætisráðherra Bretlands hverju sinni heldur til. Mikið var fjallað um blessaðan köttinn og það hvort hann myndi flytja burt með David Cameron og fjölskyldu hans þegar þau yfirgáfu svæðið um miðja viku. Fljótt var tilkynnt að svo yrði ekki, Larry er ekki eign Cameron fjölskyldunnar heldur embættismanna og þurfti því ekki að flytja burt þótt Theresa May og eiginmaður hennar Philip flyttu inn. Sem dæmi um frægð kattarins notaði Cameron meira að segja tíma í síðasta spurningatíma sínum sem forsætisráðherra til að ræða köttinn.
Fenginn sem yfirmúsaveiðari
Kötturinn hefur öðlast frægð frá því að hann kom í Downing-stræti árið 2011. Hann heldur reglulega til fyrir utan húsið við Downing-stræti, þar sem fjölmiðlar eru mjög reglulegir gestir, og hann hefur vakið þar athygli og glatt viðstadda. Eins og sjá má hér að neðan tók hann reglulega á móti og kvaddi meðlimi ríkisstjórnarinnar þegar þeir komu á ríkisstjórnarfundi að heimili hans.
Larry kom til forsætisráðuneytisins árið 2011, sem fyrr segir, og var þá fjögurra ára gamall fyrrum villiköttur. Hann var fenginn þangað eftir að rottur sáust í og við húsið, meðal annars í fréttum. Hann var í dýraathvarfinu Battersea Dogs & Cats Home og athvarfið mælti með honum vegna hæfileika hans við músaveiðar.
Larry fékk opinbera titilinn Chief Mouser, eða yfirmaður músaveiða, og um hann er fjallað sem slíkan á vefsíðu forsætisráðuneytisins. Þar er hann sagður fyrsti kötturinn í Downing-stræti 10 til þess að hljóta þennan titil formlega.
Hins vegar er mjög löng hefð fyrir því að kettir sinni þessu hlutverki fyrir ríkisstjórn eða ráðherra, enda músa- og rottugangur algengur í gömlum og oft lélegum húsum Bretlands. Það er sagt að kettir hafi fylgt stjórnvöldum allt frá tímum Hinriks áttunda. Opinber gögn frá árinu 1929 sýna að þá hafi verið gefið leyfi fyrir því að verja smárri upphæð í uppihald á ketti. Larry er hins vegar ekki á fjárlögum, heldur hafa starfsmenn forsætisráðuneytisins borið ábyrgð á uppihaldi hans. Hann fær hins vegar sendar gjafir og mat upp á nánast hvern dag eftir að hann öðlaðist frægð.
Löng saga músaveiðara
Þrír aðrir kettir munu hafa fengið opinbera titilinn yfirmaður músaveiða í ríkisstjórninni. Þeir hétu og heita Humphrey, Sybil og Freya. Humphrey var í forsætisráðuneytinu frá 1989 til 1997 og starfaði undir forsæti Margrétar Thatcher, John Major og Tony Blair. Sagan segir að Cherie Blair hafi ekki kunnað að meta ketti og því hafi Humphrey verið settur á eftirlaun aðeins hálfu ári eftir að Blair-hjónin fluttu inn í Downing-stræti 10. Þess var meira að segja krafist að stjórnvöld sönnuðu að hann hefði ekki verið svæfður. Og þá var því einnig vísað á bug að Cherie væri illa við ketti.
Sybil var köttur Alistair Darling og fjölskyldu hans, og var fluttur í Downing-stræti 11 þegar Alistair Darling var fjármálaráðherra. Þegar Sybil kom í Downing-stræti árið 2006 hafði enginn köttur verið þar frá því að Blair-hjónin losuðu sig við Humphrey. Sybil festi hins vegar aldrei rætur í London og flutti aftur til Skotlands árið 2009. Freya kom til Downing-strætis með næsta fjármálaráðherra, George Osborne, og fjölskyldu hans. Hún og Larry elduðu víst grátt silfur saman, enda að sinna sama starfinu um tíma. Það voru sagðar fréttir af því árið 2012 að Larry hefði verið rekinn sökum lélegrar frammistöðu, en svo var víst ekki. Freya flutti hins vegar burt árið 2014 og skildi Larry eftir.
Notaði síðasta spurningatímann til að sanna ást á Larry
Cameron mætti í síðasta sinn í spurningatíma forsætisráðherra, sem forsætisráðherra, á miðvikudaginn. Það var hans síðasta verk áður en hann fór á fund drottningar og sagði af sér. Í þessum síðasta spurningatíma ákvað hann að tala um Larry. „Slúðrið er að ég elski ekki Larry. Það geri ég. Og ég hef myndræna sönnun fyrir því,“ sagði hann við þingið og veifaði mynd af sér að klappa kettinum. Hann setti myndina einnig á Twitter, eins og sjá má hér að ofan.