Fyrir um það bil ári gerði eitt dönsku dagblaðanna könnun þar sem landsmenn voru beðnir að nefna tíu atriði sem einkenna Danmörku, landið og fólkið. Og, hvað það væri sem útlendingar tækju sérstaklega eftir þegar þeir heimsæktu Danmörku. Einsog vænta mátti kenndi í svörunum margra grasa. Næstum allir nefndu þjóðfánann, Dannebrog, en annars var listinn fjölbreyttur. Reiðhjólin og rauðar pylsur, Amalíuborg og lífverðir drottningar, Carlsberg auglýsingarnar, Strikið og Tívolí. Smurbrauðið, rúgbrauð með síld og kjötbollurnar komust líka á blað ásamt mörgu öðru. Fáir nefndu klæðnað og útlit fólks, ef frá eru taldir lífverðir Margrétar Þórhildar og pósturinn. Þetta síðastnefnda, pósturinn eða réttara sagt póstburðarfólkið endaði inná „topp tíu“ listanum og kom ýmsum á óvart. Danski pósturinn, í rauðum jakka og á gulu reiðhjóli skipar mun ríkari sess í hugum Dana en þeir sjálfir höfðu kannski gert sér grein fyrir.
Saga póstsins og rauða litarins, ásamt þeim gula, á sér langa sögu. Kristján IV, sem iðulega er kallaður framkvæmdakóngurinn, stofnaði póstinn árið 1624. Rauði liturinn og sá guli voru, og eru, ríkjandi í skjaldarmerki Aldinborgaranna (konungsættarinnar) og póstmennirnir voru konunglegir embættismenn. Það var þó ekki fyrr en um 1860 sem allt danskt póstburðarfólk klæddist rauða jakkanum sem enn er við lýði. Síðar komu svo gulu reiðhjólin. Þessi tiltekni rauði litur hefur svo sterka ímynd í hugum Dana að hann er kenndur við póstinn, kallast póstkassarauður. Á pósthúsum og póstafgreiðslustöðum hefur rauði liturinn verið mjög áberandi.
Á undanförnum árum hefur danska póstþjónustan gengið í gegnum miklar breytingar. Með tilkomu internetsins hefur bréfasendingum, sem voru helsta tekjulind póstsins, fækkað og eru nú aðeins brot af því sem áður var. Pósturinn hefur reynt að mæta þessum breytingum með margvíslegum hætti: einungis fjögur eiginleg pósthús eru nú í landinu. Víðast hvar er póstafgreiðsluna að finna í verslunum og söluturnum sem þó veita einungis takmarkaða þjónustu. Í Danmörku, eins og víða um heim, hefur netverslun aukist mjög á allra síðustu árum. Fjöldinn allur af fyrirtækjum sem annast dreifingu á vörum, sem keyptar eru á netinu, hefur sprottið upp. Pósturinn hefur náð til sín umtalsverðum hluta þessa markaðar. Það hefur þó ekki hrokkið til og pósturinn átt í rekstrarerfiðleikum. Svipuð staða hefur verið uppi í nágrannalöndunum.
Um mitt ár 2009 voru póstþjónusturnar í Danmörku og Svíþjóð sameinaðar. Danska ríkið á 40% hlut og sænska ríkið 60%. Nýja fyrirtækið fékk nafnið PostNord.
Fyrst í stað voru sjáanlegar breytingar litlar. Sænski pósturinn var áfram með sína gömlu liti, þar sem gult var ríkjandi, og sá danski með sinn póstkassarauða lit og gulu reiðhjólin og bílana.
Fyrir nokkru gerðist svo það að tilkynnt var um breytingar. Sænski pósturinn ætlaði að hætta með sinn gula einkennislit og taka upp nýja PostNord litinn. Sá er blár, milliblár. Danski pósturinn segir líka skilið við rauða og gula litinn og notar framvegis bláa litinn, sama lit og Svíar. Þetta gerist þó ekki á einni nóttu, breytingin er enn sem komið er einkum sjáanleg á bílaflota póstsins en einkennisfatnaður póstburðarfólks og liturinn á reiðhjólunum breytist smátt og smátt. Sama gildi um póstafgreiðslurnar.
Og hvað með það?
Er nokkuð að þessu kynni nú einhver að spyrja. Er ekki eðlilegt að í þessum efnum verði breytingar eins og á flestum öðrum sviðum? Miðað við viðbrögð Dana við fréttum af „litabreytingunni“ eru margir vægast sagt óánægðir með að rauðu og gulu litirnir hverfi. Þetta sé hluti af dönsku þjóðareinkenni segja sumir. Af hverju mega litirnir ekki bara vera áfram þeir sömu og þeir hafa „alltaf“ verið segja aðrir.
Forsvarsmenn póstsins segja þessa breytingu gerða til að sýna að nýtt fyrirtæki sé komið til skjalanna, PostNord. Þeir segjast líka skilja að þetta sé tilfinningamál, þannig sé það ætíð þegar breytingar verði.
Eitt mun þó ekki breytast úr rauðu í blátt. Póstkassarnir verða áfram „póstkassarauðir“.