Forysta Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi segir að flokksþing muni skera út um hvort Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verði áfram formaður flokksins. Oddvitinn á Húsavík efast um að Sigmundur njóti brautargengis og oddvitinn á Akureyri segir flokksþing og miðstjórnarfund munu skera út um niðurstöðuna. Fyrrverandi oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri segist íhuga að segja sig úr flokknum ef Sigmundur heldur áfram og er dapur yfir stöðunni.
Ætlar aftur fram í Norðausturkjördæmi
Sigmundur gaf það út í Morgunblaðinu í morgun að hann hyggist bjóða fram krafta sína í komandi kosningum í sínu kjördæmi, Norðaustur. Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins á Akureyri sendi frá sér harðorða yfirlýsingu í kjölfar Wintris-málsins þar sem Sigmundur var krafinn um að segja af sér sem forsætirsáðherra án tafar „vegna þess trúnaðarbrests“ sem hafði skapast á milli Sigmundar og flokkmanna og landsmanna allra. Þá komu áhrifamenn fram í Kjarnanum og sögðu hann ekki velkominn aftur í kjördæmið.
Efast um að Sigmundur njóti brautargengis
Gunnlaugur Stefánsson, oddviti Framsóknarflokksins á Húsavík og Norðurþingi, segir skiptar skoðanir meðal flokksmanna um framtíð
Sigmundar. „Kjördæmaþing verður haldið í ágúst og þá fær Sigmundur skýr skilaboð um hvort framsóknarmenn í Norðaustur vilji hafa hann áfram í því kjördæmi,“ segir Gunnlaugur í samtali við Kjarnann. Hann bætir við að Sigmundur hafi komið og skýrt málið frá sinni hlið fyrir flokksmönnum. „Ég held að hann hafi gert það ágætlega. En ég er enn á þeirri skoðun að ég á síður von á því að hann njóti brautargengis hér. Það hefur ekki breyst.“
Gunnlaugur segir Sigmund þá kannski eiga möguleika í öðrum kjördæmum. Vissulega séu einhverjir framsóknarmenn á Norðausturlandi sem vilji hafa hann áfram, aðrir vilji að hann víki. En er ekki vont að flokkurinn, sem er að mælast með afar lítið fylgi í skoðanakönnunum, sé svo klofinn í aðdraganda kosninga?
„Vissulega er það vont,“ segir Gunnlaugur. „Ég er þeirrar skoðunar að Sigmundur hafi staðið sig vel í þeim málum sem hann keyrði áfram með. En hann gerði mistök og það eru flokksmenn sem eiga að ráða framhaldinu. Svo er spurning hvenær verður kosið í haust eða vor eða hvað. Þetta eru skrýtnir tímar.“
Útkoman endurspegli vilja flokksmanna
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri, var einn þeirra sem skrifaði undir yfirlýsinguna í apríl. Í samtali við Kjarnann í dag segir hann að það sé ekki hans að dæma um hvort Sigmundur sé vel til þess fallinn að mæta aftur í stjórnmálin í kjördæminu eða halda áfram sem formaður.
„Við erum með kerfi í kring um það hvernig við veljum á lista. Það þarf að boða til miðstjórnarfundar og það þarf endurnýjun umboðs forystunnar,“ segir Guðmundur. „Ég held að þetta sé sá farvegur sem málin hljóti að fara í. Maður getur haft sínar persónulegu skoðanir á þessu, en þetta er lýðræðislegur flokkur og skoðun flokksmanna hlýtur að endurspegla útkomuna.“
Guðmundur segir að þó að Sigmundur komi með yfirlýsingar um hvað hann vilji gera, þá séu það flokksmenn sem hafi lokaorðið um hvert skuli halda.
„Ef menn eru ekki sáttir við þá niðurstöðu verður svo bara tekið á því þegar þar að kemur,“ segir hann. „Menn þurfa að fara í gegn um þetta ritúal til að fá skýran vilja flokksmanna fram, það er rétti farvegurinn. Svo getur maður velt fyrir sér hvort maður sé sáttur við útkomuna eða ekki.“
Flokkurinn muni gjalda þess illilega ef Sigmundur heldur áfram
Jóhannes Bjarnason, fyrrverandi oddviti Framsóknarmanna á Akureyri, segist dapur yfir framvindu mála.
„Það er eiginlega úr mér allur vindur. Ég einfaldlega skil ekki þessi þróun og þetta dómgreindarleysi formannsins. Flokkurinn mun gjalda þess illilega ef [Sigmundur] heldur sínu striki,“ segir Jóhannes við Kjarnann. „Það hefur ekkert breyst frá því í apríl. Hann var, og er, óhæfur til þess að sinna embætti forsætisráðherra og hann hlýtur á endanum að hafa tekið þá ákvörðun sjálfur. Það hefur ekkert breytst í því máli, hann er jafn vanhæfur núna og þegar hann tók þá ákvörðun sjálfur að hætta. Nú hefur hann hins vegar tekið þá ákvörðun að halda flokknum í gíslingu með því að einfaldlega fara ekki.“
Íhugar úrsögn ef þetta verður niðurstaðan
Jóhannes hefur ekki mikla trú á að einhver af þremur komandi samkomum Framsóknarflokksins muni afstýra því að Sigmundur haldi áfram; kjördæmisþing, miðstjórnarfundur og landsfundur.
„Ég er dapur yfir þessu og mér líður illa,“ segir Jóhannes. „Mér þykir vænt um Framsóknarflokkinn og hef stússast lengi í stjórnmálum til að gera samfélagið betra. Ég hef svo sem engin áhrif lengur á framvindu mála, en nú er komin upp eins konar herkvísstaða sem enginn virðist eiga nægilega öflug vopn til að sprengja sig út úr.“
Jóhannes segist ætla að hugsa sinn gang mjög rækilega ef niðurstaðan verði sú að Sigmundur haldi áfram sem formaður og ætli að leiða listann í Norðausturkjördæmi.
„Ef það verður þá held ég að maður gerist bara utangarðsmaður í þessum bransa.“
Ekki hefur náðst í Sigmund Davíð Gunnlaugsson í morgun.