1. Guðni Thorlacius Jóhannesson fæddist í Reykjavík þann 26. júní 1968. Hann varð 48 ára daginn sem ljóst varð að hann yrði sjötti forseti lýðveldisins. Hann er yngsti forseti í sögu landsins og fyrsti nýi forsetinn á þessari öld. Ólafur Ragnar Grímsson var 53 ára gamall þegar hann tók við embætti árið 1996. Hann er nú 73 ára.
2. Nýr forseti tekur við embætti við hátíðlega athöfn sem hefst á Austurvelli klukkan 15 í dag, mánudaginn 1. ágúst. Athöfnin færist síðan í Dómkirkjuna og þaðan í Alþingishúsið. Guðni vildi hafa athöfnina látlausari en hefur tíðkast fram til þessa, en til að mynda er ekki gerð krafa um að karlmenn klæðist kjólfötum, að konur séu í síðkjólum né að fólk beri orður.
3. Guðni er kvæntur Elizu Reid og giftu þau sig árið 2004. Guðni og Eliza eiga saman fjögur börn, þau Duncan Tind, Donald Gunnar, Sæþór Peter og Eddu Margréti. Fjölskyldan býr enn við Tjarnarstíg á Seltjarnarnesi, en þegar framkvæmdum er lokið á Bessastöðum í ágúst, flytjast þau búferlum. Guðni á eina dóttur, Rut, úr fyrra hjónabandi sínu með Elínu Haraldsdóttur. Foreldrar Guðna eru Margrét Thorlacius, kennari og blaðamaður, og Jóhannes Sæmundsson, íþróttakennari og íþróttafulltrúi. Jóhannes lést árið 1983. Guðni á tvo bræður, þá Patrek og Jóhannes. Þeir bræður ólust upp í Garðabæ.
4. Guðni er mikill íþróttamaður og hefur stundað íþróttir af einhverju tagi frá unga aldri. Faðir hans var mikils metinn íþróttakennari og bróðir hans, Patrekur Jóhannesson, er einn af best þekktu handboltaköppum landsins. Guðni gaf það út í kosningabaráttunni, að myndi hann ná kjöri, ætlaði hann að halda áfram að hjóla með börnin sín í skóla og leikskóla eins og hann hefur gert undanfarin ár.
5. Guðni var hvað þekktastur fyrir sagnfræðistörf sín áður en hann gaf kost á sér í forsetaframboð. Hann hefur verið einn helsti álitsgjafi fjölmiðla undanfarin ár þegar kemur að umfjöllun um forsetann, forsetaembættið eða pólitískt samhengi sögunnar. Guðni er með doktorsgráðu í sagnfræði. Hann varð stúdent úr MR árið 1987. Síðan nam hann sagnfræði við Warwick háskóla í Englandi og tók meistaragráðu í sagnfræði í kjölfarið við Háskóla Íslands árið 1997. Síðan fékk hann MSt-gráðu í sögu frá Oxford árið 1999 og varð síðan doktor í sagnfræði árið 2003 frá University of London. Guðni hefur verið kennari við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og University of London. Síðast starfaði hann sem dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands.
6. Guðni hefur skrifað fjölda fræðirita og greina í gegn um tíðina. Hann hefur skrifað sex bækur sem hafa verið gefnar út: Kári í jötunmóð. Saga Íslenskrar erfðagreiningar og Kára Stefánssonar (1999), Völundarhús valdsins. Stjórnarmyndanir, stjórnarslit og staða forseta Íslands í embættistíð Kristjáns Eldjárns, 1968-1980 (2005), Óvinir ríkisins. Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi (2006), Þorskastríðin þrjú. Saga landhelgismálsins 1948-1976 (2006), Hrunið. Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar (2009) og Gunnar Thoroddsen. Ævisaga. (2010).
7. Ein frægasta setning sem látin var falla í kosningabaráttunni í aðdraganda forsetakosninganna var þegar Guðni og Davíð Oddsson mættust í sjónvarpsþættinum Eyjunni í lok maí. Davíð skaut föstum skotum að Guðna og sakaði hann meðal annars um að vilja kollvarpa stjórnarskránni og reyna að hlaupa frá ákveðnum málum.
„Þú segir hérna að þú viljir gera gagngera, róttæka endurnýjum á stjórnarskránni. Þú segir það vera vegna hrunsins. Hvað hafði hrunið með stjórnarskránna að gera?“ sagði Davíð.
Guðni svaraði um hæl: „Hefur þú enga sómakennd?“
Velta má fyrir sér hvort sagnfræðingurinn Guðni hafi fengið þar lánað hin frægu ummæli bandaríska lögfræðingsins Joseph N. Walsh í réttarhöldunum árið 1954 þegar hann svaraði fyrir ásakanir um að hafa unnið fyrir kommúnista: „Have you no sense of decency, sir?“ sagði Walsh við þingmanninn Joseph McCarthy.
8. Fylgi Guðna sem forsetaframbjóðanda var óvenjulega hátt í byrjun kosningabaráttunnar. Hann mældist með tæplega 70 prósenta fylgi í þremur könnunum í röð, en eftir því sem leið á baráttuna jöfnuðust hlutföllin út. Halla Tómasdóttir nálgaðist Guðna óðfluga, en hann sigraði kosninguna með rúmum 39 prósentum atkvæða. Halla fékk um 28 prósent atkvæða. Kjörsókn á landinu öllu var 75,7 prósent. 185.390 greiddu atkvæði. Guðni sótti fylgi nokkuð jafnt yfir alla hópa; karla og kvenna, innan og utan höfuðborgar og til allra aldurshópa.
9. Guðni hefur náð að halda sig utan flokkapólitíkur allan sinn feril. Hann sagði opinberlega í kosningabaráttunni að hann vilji að kosið verði til Alþingis í haust og á 48 ára afmælisdaginn sinn, morguninn eftir forsetakosningarnar, sagði hann að kosningar ráði mestu um hvernig fari með stjórnarskránna. Í viðtali á RÚV sagði hann að forseti tti að liðka fyrir að niðurstaða komist í það mál. „Ég sagði það síðustu vikur að áform um beint lýðræði hugnist mér, áform um þjóðareign á auðlindum, áform um náttúruvernd. Við ættum að geta náð einhverri sátt,“ sagði Guðni við RÚV.
10. Guðni verður fyrsti forseti landsins sem er ekki skráður í þjóðkirkjuna. Guðni stendur utan trúfélaga, en hann var alinn upp í kaþólskri trú. Hann skráði sig úr kirkjunni árið 2013 í kjölfar viðbragða kirkjunnar við kynferðisbrotum innan veggja hennar víða um heim. Einungis tveir í síðustu kosningum voru ekki í þjóðkirkjunni; Guðni og Ástþór Magnússon. Biskup Íslands hefur sagt að henni þyki óeðlilegt að forseti Íslands sé ekki skráður í þjóðkirkjuna, en telur þó að það muni ekki verða vandamál.