Ný andlit spretta nú fram nær daglega sem vilja bjóða fram krafta sína í komandi Alþingiskosningum. Helmingur sitjandi flokka heldur prófkjör; Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Píratar. Hinir flokkarnir; Framsóknarflokkur, Vinstri græn og Björt framtíð, stilla upp á lista.
Margrét og Sema íhuga framboð fyrir Samfylkingu
Töluverð óvissa ríkir í kring um framboð Samfylkingarfólks, en flokkurinn heldur prófkjör í byrjun september. Hvorki Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður, né Helgi Hjörvar þingflokksformaður hafa gefið upp hvort þeir ætli að gefa kost á sér áfram í næstu kosningum.
Þær Sema Erla Serdar, formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi, og Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar, hafa báðar verið orðaðar við framboð fyrir flokkinn. Margrét segir í samtali við Kjarnann að ekkert sé ákveðið í þeim efnum. „Ég er enn að hugsa málið og get ekkert staðfest eins og staðan er í dag,“ segir hún. Sema segir að vissulega sé verið að skoða framboðsmál.
„Ég er ekki tilbúin að taka neina ákvörðun eins og er, en greini frá henni líklega á næstu dögum.“
Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingmaður og formannsframbjóðandi, ætlar ekki að gefa kost á sér til Alþingis.
Margir vilja vera Píratar
Nú standa yfir prófkjör Pírata á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi. Framboðslisti flokksins er afar langur, nærri 140 manns, þar af eru yfir 100 í höfuðborgarkjördæmi. Meðal þeirra sem bjóða sig fram í prófkjöri Pírata eru Þór Saari, fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar, Gunnar Hrafn Jónsson, fyrrverandi fréttamaður á RÚV, Erna Ýr Öldudóttir, fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs flokksins, Seth Sharp skemmtikraftur, Heimir Örn Hólmarsson forsetaframbjóðandi, og Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður.
Árni Johnsen vill aftur á þing
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins fer fram um mánaðamótin ágúst september. Meðal þeirra sem ætla að gefa kost á sér eru Árni Johnsen, fyrrverandi þingmaður, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, Teitur Björn Einarsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins.
Nokkrir sjálfstæðismenn hverfa af þingi eftir þetta kjörtímabil, meðal annars Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksformaður og Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, var að hugsa málið varðandi þingframboð en hann hefur nú ákveðið að gefa ekki kost á sér.
Uppstillinganefndir að störfum
Eins og áður segir eru uppstillingarnefndir að störfum í flestum kjördæmum fyrir Framsóknarflokkinn, Vinstri græn og Bjarta framtíð. Listar verða kynntir með haustinu, en framboðslisti VG í Norðausturkjördæmi er tilbúinn og leiðir Steingrímur J. Sigfússon þann hóp. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir vinnan við uppstillinguna ganga vel.
„Það gengur ágætlega að manna listana þó að það sé skrýtið að biðja fólk um að taka þátt í kosningum sem maður veit í raun ekki hvenær verða,“ segir hann. „En við göngum út frá því að þær verði í október, eins og aðrir.“