15. júní 1923 átti ungur blaðamaður, Svend Carstensen, að kynna tónleika sem Danski útvarpsklúbburinn ætlaði að senda út frá klúbbhúsinu í Lyngby. Blaðamaðurinn hafði á leiðinni í klúbbinn fengið svokallaðan fregnmiða frá dagblaðinu Politiken, þar var sagt frá réttarhöldum vegna danska Búnaðarbankans. Blaðamanninum þótti upplagt að lesa fregnmiðann fyrir áheyrendur, áður en tónleikarnir hæfust en vissi ekki hvernig hann ætti að byrja lesturinn. Honum þótti nauðsynlegt að kynna þetta frávik frá tónlistarkynningunni og sagði „Hallo, hallo, hér er Lyngby Radio, hermed begynder oplæsninger af Politikens förste radioavis.“ Radioavis, útvarpsblað. Síðar sagði Svend Carstensen að sér hefði einfaldlega ekki dottið neitt betra orð í hug, „ég var jú blaðamaður.“
Þessi stutti fréttaupplestur, ein frétt, mæltist vel fyrir og hlustendur, sem voru á þessum tíma ekki mjög margir skrifuðu til klúbbsins og Politiken og hvöttu til þess að fréttalestur yrði framvegis fastur liður í útsendingum Danska útvarpsklúbbsins. Klúbburinn og Politiken ákváðu að verða við þessum áskorunum og sendu út stuttar fréttir einu sinni á dag.
Statsradiofonien
Danmarks Radio, danska ríkisútvarpið var stofnað 1925, undir nafninu Statsradiofonien. Danska þingið, Folketinget, hafði þá samþykkt að ríkið hefði einkaleyfi á útvarpssendingum en einnig skuldbundið sig til að búa svo um að allir landsmenn gætu náð útvarpsendingunum. Jafnframt var stofnuð sérstök útvarpshljómsveit, Radioorkestret. Í upphafi setti sígild tónlist ásamt fyrirlestrum af ýmsu tagi og guðsþjónustum sterkan svip á útsendingarnar. Og Radioavisen. Þótt ríkisútvarpið sendi út fréttirnar (kl. 19.00 og 22.00 daglega) sáu samtök blaðamanna um fréttirnar, fréttastofan var einskonar sérstofnun innan útvarpsins.
Fast skipulag komst á þessar fréttaútsendingar í byrjun ágúst 1926, fyrir réttum 90 árum. Hádegisfréttirnar bættust við snemma árs 1939, sendar út klukkan tólf á hádegi. Árið 1940, þegar Þjóðverjar höfðu hernumið Danmörku, byrjuðu einnig fréttaútsendingar á morgnana, klukkan 8.30. Þeim útsendingum var hætt þegar stríðinu lauk, meginástæðan var sú að ritstjórar blaðanna töldu að fólk myndi ekki kaupa blöðin eftir að hafa heyrt fréttir í útvarpinu. Fréttaútsendingar á morgnana byrjuðu aftur árið 1947, fyrsti fréttatími dagsins klukkan 6.15 og svo annar klukkan 8.00. Á sjötta áratugnum bættist svo við fréttatími á miðnætti, þar var farið yfir helstu fréttamál dagsins.
Fyrsti kvenfréttaþulurinn árið 1962
Þeir sem hlustuðu á fréttirnar á miðnætti 3. nóvember 1962 heyrðu, sér til nokkurrar undrunar, kvenrödd kynna og lesa fréttirnar. Lesarinn var Alice Vestergaard, þrautreyndur fréttamaður. Það að kona skyldi lesa fréttirnar var aldeilis óheyrt og þessi „djarfa ákvörðun“ eins og eitt blaðanna orðaði það vakti mikla athygli og umtal. Lesendur blaðanna voru mjög ósammála um ákvörðun fréttastjórans, mörgum fannst þetta svo sjálfsagt að ekki þyrfti að ræða það frekar, öðrum fannst ekki viðeigandi að kona væri að lesa um allt það sem yfir dyndi í henni veröld. „Það er bara ekki trúverðugt að heyra konu lesa um Kúbudeiluna, ég verð að segja það“ skrifaði karl einn í bréfi til Politiken.
En fljótlega þótti það sjálfsagt og ekki fréttnæmt að kona læsi fréttirnar. Alice Vestergaard var jafnframt fyrsti fréttaþulur danska sjónvarpsins þegar TVavisen (annað nafn kom ekki til greina) hóf göngu sína árið 1965. Hún er í hópi þekktustu fréttamanna í Danmörku, gift Uffe Ellemann-Jensen fyrrverandi utanríkisráðherra og formanni Venstre flokksins.
Danska útvarpið stofnar eigin fréttastofu
Árið 1964 lauk samstarfi danska útvarpsins og blaðanna um rekstur fréttastofu. Sjónvarpsfréttir fóru að hefja innreið sína í Danmörku (sjónvarpsútsendingar löngu byrjaðar) og stóraukin fjölmiðlasamkeppni framundan. Margir útvarpsmenn óttuðust að sjónvarpsfréttir myndu ganga af útvarpsfréttunum dauðum og bjuggust við hinu versta. Sá ótti reyndist ástæðulaus. Þótt Danir tækju sjónvarpsfréttunum vel héldu útvarpsfréttirnar velli. Styrkleiki útvarpsfréttanna hefur alla tíð verið sá að þar ganga hlutirnir hratt fyrir sig, nánast hægt að segja frá fréttnæmum atburðum um leið og þeir gerast. Þannig er það ekki í sjónvarpinu.
Útvarpið hefur fylgt þróuninni
Síðan danska útvarpið (frá árinu 1996 kallað DR) stofnaði eigin fréttastofu hafa orðið miklar breytingar í allri fjölmiðlun. Ótal útvarpsrásir eru nú í boði, fjölmargar sjónvarpsrásir og óteljandi netmiðlar standa almenningi til boða.
Fréttastofa DR hefur ekki setið með hendur í skauti og látið aðra um nýjungarnar. DR rekur nú átta útvarpsrásir og á fjórum þeirra eru fréttir allan sólarhringinn, á klukkustundar fresti. Fréttatímarnir hafa frá árinu 1975 verið fimm mínútna langir hverju sinni, nema í hádeginu, þá er fréttatíminn fimmtán mínútna langur og iðulega fylgt eftir með umræðum um það sem hæst ber. Hádegisfréttatíminn hefst með slætti ráðhúsklukkunnar í Kaupmannahöfn. Lengi vel var slátturinn, sem tekur tvær mínútur, í beinni útsendingu (hljóðnemi í snúru hékk rétt hjá klukkunni) en klukkan gengur ekki nægilega rétt til að hægt sé að nota hana þar sem fréttir eru nú sendar út stafrænt á mörgum rásum samtímis og er því notast við upptökur af slættinum.
Hart var um það deilt á sínum tíma þegar yfirmaður fréttastofunnar ákvað að framvegis skyldi aðeins spilaður hluti klukkusláttarins og umræðurnar rötuðu alla leið inn í sal danska þingsins. Þessi sami yfirmaður sagði að á tuttugu árum í yfirmannsstarfinu hefðu þetta verið einu afskipti stjórnmálamanna af starfsemi fréttastofunnar.
Helmingur þjóðarinnar hlustar daglega á fréttir DR
Í nýlegri könnun kom í ljós að af dönskum fjölmiðlum njóta fréttastofur DR, bæði útvarps og sjónvarps, langmests trausts dönsku þjóðarinnar. Í þessari könnun kom líka í ljós að helmingur dönsku þjóðarinnar hlustar daglega á fréttir danska útvarpsins. Mest er hlustunin á fréttirnar klukkan tólf á hádegi, þá leggja 800 þúsund Danir eyrun við. Fæstir hlusta á fréttatímana klukkan 3 og 4 á nóttunni, þá eru hlustendur um 9 þúsund. Rétt er að taka fram að tölurnar miðast við þá sem hlusta á fréttirnar í beinni útsendingu, fyrir utan alla þá sem hlusta á fréttatímana á netinu en DR heldur úti öflugri og vandaðri netsíðu sem, hvað notkun varðar, ber höfuð og herðar yfir aðrar danskar netsíður.