Baráttan um Alþingi er hafin. Kosningar eru á næsta leiti þó að enginn viti nákvæmlega hvenær þær verða. Um 50 mál bíða afgreiðslu þingsins, sem kemur saman á mánudag. En ljóst er að flokkarnir eru farnir að spýta í lófana og marka sér sérstöðu til að aðgreina sig frá öðrum í hinu óvenjulega pólitíska landslagi sem nú ríkir á landinu.
Velferðarráðherrann Bjarni
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins um miðjan júlí að flokkurinn muni forgangsraða stefnumálum sínum á næsta kjörtímabili, þar sem stóraukin áhersla verði lögð á bætta samfélagsþjónustu, minni greiðsluþátttöku sjúklinga, eflingu Landspítalans og bætta heilbrigðisþjónustu með stórauknum fjárframlögum. Þar sagði Bjarni líka að nota beri „góðærið“ til að bæta út og hjálpa þeim sem minna mega sín. Þarna má segja að kveði við nýjan tón hjá formanni Sjálfstæðisflokksins, sem hingað til hefur lagt hvað mesta áherslu á lækkun skatta, niðurgreiðslu skulda ríkisins og efnahagsstöðugleika.
Slagsmál Eyglóar og Bjarna
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, gagnrýndi Bjarna harðlega í kjölfarið og sagði við RÚV að hún hefði stundum þurft að standa í slagsmálum við hann sem fjármálaráðherra um framlög til velferðarmála. Samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn hafi einkennst af miklum átökum. Þá skaut hún á Bjarna vegna viðtalsins í Morgunblaðinu og sagði að það væri oft betra seint en aldrei að vilja setja aukna fjármuni í heilbrigðiskerfið.
Bjarni svaraði um hæl og sagðist við Kjarnann ekki kannast við þessi átök milli flokkanna sem Eygló lýsti. Það sama sagði Vigdís Hauksdóttir, samflokkskona Eyglóar og formaður fjárlaganefndar.
Endurkoma Sigmundar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, tilkynnti flokksmönnum sínum þann 25. júlí síðastliðinn að hann væri mættur aftur til leiks á velli stjórnmálanna. Sigmundur sagði í bréfi til framsóknarmanna að hann njóti mikils stuðnings innan flokksins og fólk megi ekki láta það slá sig út af laginu þó að endurkoma hans muni vekja ofsafengin viðbrögð í samfélaginu. Hann sagðist ekki sjá neina ástæðu til þess að kjósa í haust.
Útilokunaraðferðin
Í lok júlí stigu forystukonur stærstu stjórnarandstöðuflokkanna, Pírata, Vinstri grænna og Samfylkingar, fram í Kjarnanum og útilokuðu allar samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eftir næstu kosningar. Þær sögðu að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki kerfisbreytingar og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði flokkinn alltaf hafa ítrekað að vilja vinna til vinstri.
Forystumenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, þeir Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé, vildu hins vegar ekki útiloka samstarf við neinn og sögðu við Kjarnann sama dag að samstarf myndi byggja á málefnum, ekki flokkum.
Frekjurnar
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði í vikunni í pistli á Pressunni að forsvarsmenn stjórnarandstöðunnar hafi sýnt af sér „óstjórnlega frekju“ þegar þær útilokuðu samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Þingkonur Samfylkingar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, voru harðorðar í garð Brynjars á Facebook í kjölfarið:
„O boj hvað hann er mikil risaeðla! Eða ætti ég að segja „óstjórnlega risaeðlulegur?“ skrifaði Sigríður Ingibjörg. Ólína skrifaði: „Skyldi það vera tilviljun að karlmaður skuli nota orðið „frekja“ þegar hann ræðir um skoðanir kvenna? Ónei.“
Össur Pírati
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, sagði á X-inu í vikunni að það væri í raun enginn munur á Pírötum og Samfylkingunni.
„Hver er sá munur? Ef þið eruð að tala um afstöðu Birgittu Jónsdóttur um að við skulum hafa örstutt kjörtímabil, níu mánuði, og kjósa þá um stjórnarskrána þá er það þannig að ég tel það óraunhæft. Ég tel að ef menn setja svona dagsetningar þá verða þær að skotspæni og stjórnarandstaðan nýja mun gera sér far um að brjóta hana niður,“ sagði Össur.
Erna Ýr Öldudóttir pírati sagði í kjölfarið að Össur væri að reyna að tryggja framgang vinstri stefnu í landinu með því að eigna sér Pírata og þeirra fylgi.
Niðurgreiðsla „Ólympíuleikar í populisma“
Píratar vilja niðurgreiða allar tannlækningar til landsmanna með sama hætti og aðra heilbrigðisþjónustu. Þetta gáfu þeir út í gær og var greint frá í fréttum Stöðvar 2. Sjúkratryggingar gera ráð fyrir að það gæti kostað um 11 milljarða króna árlega.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gerði grín að hugmyndinni í kjölfarið og spurði hvort Píratar vildu ekki niðurgreiða meðhöndlun líkþorns. Hann kallaði málið „Ólympíuleika í populisma og plebbaskap.“
Dagsetning vopn fyrir stjórnarandstöðuna
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði á Rás 2 í morgun að hann vildi fá Sigmund Davíð af krafti inn í baráttuna á ný til að leiða flokkinn. „Ég er sannfærður um að hann verði formaður, enda sé ég engan annan sem ætlar að taka við eða getur tekið við.“
Varðandi komandi kosningar sagði Gunnar Bragi að það væri glapræði að ákveða kjördag strax. „Um leið og dagsetning kemur verður stjórnarandstaðan komin með ákveðið vopn í hendurnar,“ sagði hann og bætti við að stjórnarandstaðan gæti þá farið að tefja mál með málþófi og koma í veg fyrir að mál kæmust í gegn.