Um 80 ár eru síðan landslið Íslands í sundknattleik keppti á ólympíuleikunum í Berlín í Þýskalandi nasismans. Þátttaka liðsins orsakaðist af áhuga þýskra stjórnvalda á hinum norræna kynþætti en aðstæður hérlendis til sundknattleiks voru lítið betri en þær þegar Jamaíkumenn kepptu í bobbsleðakeppninni á vetrarólympíuleikunum í Calgary 1988. Þetta er saga af tíma þegar Íslendingar voru fyrst að kynnast stóra sviði íþróttanna.
Handbolti í vatni
Sundknattleikur á rætur sínar að rekja til Bretlands á 19. öld og þar voru fyrst skrifaðar samræmdar reglur fyrir leikinn árið 1877. Átta árum síðar var leikurinn viðurkenndur af breska sundsambandinu. Leikurinn náði strax mikilli útbreiðslu og var tekinn inn á aðra sumarólympíuleikana, árið 1900 í París. Síðan þá hefur verið keppt í greinni á hverjum einustu ólympíuleikum í karlaflokki og árið 2000 var kvennaflokknum bætt við. Íþróttin er Íslendingum nokkuð framandi í dag og flestir sjá hana aldrei nema rétt bregða fyrir í sjónvarpsyfirliti á ólympíuleikunum. Fæstir þekkja reglurnar utan þess að liðin eiga að reyna að koma knettinum í mark andstæðingsins.
Sumir hafa sagt sundknattleik vera nokkurs konar „handknattleik í vatni“. Sjö leikmenn eru inná hjá hvoru liði, þar af einn markvörður, og bæði sóknarleikur og varnarleikur spilast svipað í báðum íþróttum. Líkt og í handknattleik er mikið návígi í sundknattleik og leikirnir geta orðið mjög grófir og jafnvel ofbeldisfullir. Leikmenn klæðast sérstökum sundhettum sem vernda eyrun því sársaukafullt getur verið að fá knöttinn í höfuðið. Dæmi eru um að menn takist á, sparki, klípi, gefi olnbogaskot, togi í og kaffæri hvorum öðrum í leiknum. Sundknattleikur er ákaflega líkamlega krefjandi íþrótt. Hún útheimtir bæði að keppendur séu færir sundmenn og leiknir með knöttinn. Leikmenn eru alltaf annað hvort á sundi eða að troða marvaða. Auk þess má aldrei taka boltann með báðum höndum og aldrei dýfa honum undir vatnsyfirborðið.
Þó að Bretar hafi skapað leikinn og haft yfirburði fyrstu áratugina þá helltust þeir fljótt úr lestinni. Seinustu gullverðlaun þeirra komu árið 1924 og frá árinu 1956 hafa þeir einungis einu sinni komist á leikana. Þjóðir suður og austur Evrópu tóku við keflinu og eru þær langsterkustu í dag. Ungverjar eru sigursælasta liðið á ólympíuleikunum með 9 gullverðlaun, þeir voru samfleytt á verðlaunapalli á árunum 1928-1980. Júgóslavnesku ríkin hafa svo unnið flest verðlaun á heimsmeistaramótum. Auk þeirra hafa Sovétmenn, Spánverjar og Ítalir verið sigursælir í gegnum tíðina.
Áhugi nasistanna á Íslandi
Sú hópíþrótt sem Íslendingar hafa náð bestum árangri í er vitaskuld handknattleikur. Sjö sinnum hefur karlalandsliðið komist á ólympíuleikana og meira að segja unnið silfurverðlaun á leikunum í Peking 2008. Fjöldi einstaklinga hafa komist á leikana í hinum ýmsu greinum en ekkert annað keppnislið hefur keppt, hvorki á sumar né vetrarleikum, nema íslenska sundknattleiksliðið árið 1936. Sumarleikarnir árið 1936 voru eins og frægt er orðið haldnir í Berlín í Þýskalandi nasismans og því mjög umdeildir í ljósi kynþátta og hernaðarstefnu Hitlers. En Berlín var valin árið 1931, tveimur árum áður en nasistarnir komust til valda. Einhverjar þjóðir sniðgengu leikana en Íslendingar ákváðu að taka þátt þrátt fyrir deilur hér á landi og nokkurar tregðu ríkisstjórnarinnar, t.d. við að útvega gjaldeyrisleyfi. Leikarnir voru ákaflega þýðingarmiklir fyrir Íslendinga þar sem þetta var í fyrsta skipti sem þeir kepptu sem fullvalda þjóð undir eigin fána. Íslendingar höfðu áður keppt á ólympíuleikum, en þá undir fána Danmerkur og enginn hafði keppt frá árinu 1912.
Viðvera Íslendinga var kærkomin fyrir þýsku nasistastjórnina. Það var ekkert laumungarmál að Hitler hugðist nota leikana til að sýna fram á yfirburði hins germanska aríska kynstofns og þeir litu svo á að Íslendingar féllu vel inn í það mengi. Vandamálið var hins vegar að á Íslandi bjuggu einungis um 115.000 sálir og lítið um íþróttafólk á heimsmælikvarða. Aðstaða til íþróttaiðkunar var einnig bágborin hér sem og skortur á vel menntuðum þjálfurum. Því var brugðið á það ráð að bjóða Íslendingum að taka þátt í sundknattleik til að stækka íslenska hópinn til muna því það myndi líta vel út á setningarathöfninni. Þetta stækkaði íslenska hópinn úr 4 upp í 15 auk þjálfara og fararstjóra. Alls buðu Þjóðverjar um 50 Íslendingum að koma á leikana, 30 af þeim íþróttakennarar og nemar sem boðið var í námsferð af „hinni arísku íþróttaþjóð í Mið-Evrópu“. Við fyrstu sýn hefði það legið beinast við að bjóða handknattleikslandsliðinu á leikana. Leikarnir 1936 voru þeir fyrstu þar sem keppt var í handknattleik, okkar þjóðarhópíþrótt. En sundknattleiksmótið var mun stærra og rótgrónara á ólympíuleikunum og því í raun meiri heiður að vera boðið á það. En Íslendingum beið þá það verkefni að koma saman liði sem ekki yrði hlegið að.
Strákarnir okkar
Náttúrulegar aðstæður eru ákaflega hagstæðar fyrir sundiðkun á Íslandi, vegna vatnsmagns og jarðvarma. Tilbúnar sundlaugar og náttúrulegar eru samanlagt yfir 150 talsins í dag. En á fjórða áratug seinustu aldar var aðstaða keppenda í sundi og sundknattleik ákaflega bágborin. Mesta gróskan var í Mosfellssveit við Álafoss í í Varmá. Þar stóð ullarkóngurinn Sigurjón Pétursson (í Álafossi) að íþróttaskóla frá árinu 1928 og keppnum sem voru kallaðar fánadagar ár hvert. Sigurjón, sem var mikill áhugamaður um íþróttir, hafði sjálfur keppt á ólympíuleikunum í Stokkhólmi árið 1912 í grísk-rómverskri glímu. Í heitu stíflulóninu var keppt í sundi, dýfingum og sundknattleik. Þar kepptu íslenskir sundknattleiksmenn m.a. við enska skipverja af póstskipinu Rosemary árið 1930. Sundknattleikur var æfður í nokkrum sundfélögum hér á landi en augljós skortur á innisundlaug hamlaði iðkun. Vandræði með byggingu og fjármögnun Sundhallar Reykjavíkur hjálpaði ekki, en það tók tæplega áratug að reisa húsið. Fyrir utan Álafoss voru laugarnar við Sundlaugaveg í Laugardal einn helsti æfingastaður fyrir sundknattleiksmenn.
Þegar Íslendingar fengu boð um að senda sundknattleikslið til Berlínar um ári fyrir leikana blasti annað vandamál við, reynsluleysið. Íslendingar höfðu aldrei keppt erlendis áður þannig að stökkva út í djúpu laugina með bestu sundknattleiksþjóðum heims á stærsta sviði heims var hálf óraunverulegt. Á seinustu mánuðum fyrir leikana fékk liðið þó að æfa sig inni í ókláraðri Sundhöllinni (hún var opnuð árið 1937). Þrír bræður, Jón, Ólafur og Erlingur Pálssynir, voru fengnir til að þjálfa og sjá um fararstjórn fyrir íslenska liðið. Allir voru þeir miklir sundmenn og Jón einn helsti sundfrömuður landsins sem stofnaði m.a. sundfélagið Ægir árið 1927. Erlingur, sem var fyrsti yfirlögregluþjónn Íslands, sá um fararstjórn og fréttaflutning fyrir liðið.
Liðið var valið úr þremur sundfélögum í Reykjavík, Ægi, K.R. og Ármanni. Margir af landsliðsmönnunum áttu það sameiginlegt að hafa bæði reynslu úr sundi og íslenskri glímu sem þótti einkar hentugt fyrir líkamlega návígið í sundknattleiknum. Margir bestu sundmenn landsins voru valdir í liðið, þar á meðal Jón Ingi Guðmundsson, Jón D. Jónsson og Jónas O. Halldórsson. Meðalaldur liðsins var ekki hár og leikmenn á aldrinum 18-28 ára. Sundmennirnir urðu samrýmdur hópur og færri komust á leikana en vildu. Einungis 11 leikmenn komust í hópinn og því urðu sundkapparnir Haraldur Sæmundsson og Ragnar Þorgrímsson eftir í landi en þeir höfðu æft með liðinu í undirbúningnum. Þegar liðið lagði af stað í ólympíuförina með skipinu Dettifossi þann 16. júlí heiðruðu þeir félagana tvo. „Lifi Halli Sæm og lifi Ragnar Þorgrímsson!“ Þá var hrópað ferfalt húrra fyrir þeim. Svo lagði fyrsta ólympíulið Íslands af stað yfir hafið.
Skömm og hróður í Berlín
Ferðin tók viku með viðkomu í Vestmannaeyjum og enska bænum Hull. Um borð í skipinu var hvergi slegið slöku við og íþróttamennirnir stunduðu kast-, göngu- og hlaupaæfingar á þilfarinu. Þar var einnig heit laug og gufubað sem nýttist vel. Dettifoss kom að höfn í Hamborg þann 22. júlí og þar tók á móti þeim Lutz Koch, trúnaðarmaður Íslands á leikunum. Þá var tekinn lest til Berlínar og í ólympíuþorpið. Setningarathöfn leikanna þann 1. ágúst var notuð sem áróðurstæki fyrir Hitler. Eins og alræmt er orðið heilsaði íslenski hópurinn að nasistasið á athöfninni, með útréttan lófa. Fáar aðrar þjóðir gerðu þetta og t.a.m. engin önnur Norðurlandaþjóð. Menn hafa velt vöngum yfir því af hverju þetta var gert. En það var að undirlagi fararstjóranna. Annars vegar dr. Björns Björnssonar, aðalfararstjóra sem hallur var undir þriðja ríkið, og hins vegar Ásgeirs Einarssonar. Íþróttamönnunum var í raun fyrirskipað að heilsa að nasistasið allan tímann meðan þeir voru í ólympíuþorpinu og voru margir þeirra ósáttir við það. Fregnir af athæfinu voru birtar hér á landi við misjafnar undirtektir.
Fyrir leikana fengu Íslendingar tækifæri til að reyna sig gegn alvöru sundknattleiksliðum. Þeir kepptu við ýmis sundfélög frá Berlín s.s. Spandau, Schöneberg, Hellas og Weissennsee. Mótherjarnir voru sterkir og íslenska liðinu gekk illa í upphafi. Spilamennska þeirra fór þó batnandi með hverjum leiknum og í seinasta leiknum náðu þeir jafntefli. Þetta var góður undirbúningur fyrir keppnina sjálfa sem hófst þann 8. ágúst í Olympiapark Schwimmstadion, glæsilegum sundleikvangi sem hafði verið byggður fyrir leikana.
Keppt var í fjórum riðlum og Íslendingar voru í riðli númer 4. Fyrsti leikurinn var gegn Svisslendingum. Íslendingar höfðu lent í því að missa besta leikmann sinn, Jónas O. Halldórsson, í hitasótt þremur dögum fyrir leik. Hann hafði legið rúmfastur en að morgni upphafsleiksins var ákveðið að Jónas skildi spila. Snemma færðist harka í leikinn og menn tókust heiftarlega á. Tveir voru reknir upp úr lauginni og Íslendingum fannst dómarinn mjög vilhallur Svisslendingum. Svisslendingar höfðu yfirhöndina en Íslendingar náðu að skora eitt mark og það var sjálfur Jónas sem náði því. Lokatölur 7-1 fyrir Sviss. Annar leikurinn var daginn eftir gegn Svíþjóð en Jónas spilaði þá ekki með. Nú var allt annað upp á teningnum og leikurinn þótti einstaklega prúðmannlega leikinn af beggja hálfu. En yfirburðir Svíanna voru algjörir og leikurinn endaði 11-0. Lokaleikurinn var þann 10. ágúst gegn Austurríki. Mikill áhugi var fyrir leiknum og leikvangurinn troðfullur. Ekki nóg með það þá var leikurinn kvikmyndaður í heild sinni. Þetta var best spilaði leikurinn af hálfu Íslendinga en munurinn var þó töluverður á liðunum. Lokatölur 6-0 fyrir Austurríki en Íslendingar fengu mikla athygli og hrós fyrir leik sinn.
Þetta reyndist seinasti leikur íslenska sundknattleiksliðið á ólympíuleikunum og þeir enduðu mótið neðstir í riðlinum með markatöluna 1-24. Þeir voru þó ekki slakasta liðið á mótinu því að Maltverjar voru með verri markatölu. Ungverjar unnu keppnina eftir að hafa mætt Þjóðverjum í úrslitaleik en Belgar hlutu bronsverðlaun. Þrátt fyrir léleg úrslit íslenska liðsins vöktu þeir athygli og menn höfðu skilning á stöðu íþróttarinnar hér á landi. Lutz Koch sagði:
„Íslendingar geta og komist langt í sundi. Það sýndi hinn mikið umtalaði sundknattleikur þeirra í Berlín. Þeir hafa til þess góða líkamshæfileika. Með góðri þjálfun gætu þeir jafnast á við sundflokka annara þjóða. Í Berlín tóku menn tillit til að íþrottagrein þessi er aðeins tveggja ára gömul á Íslandi, svo hún er þar á byrjunarstigi.“
Framtíð sundknattsleiks á Íslandi
Áhugi landsmanna á sundknattleik dó ekki alveg strax út eftir leikana 1936. Ólympíufararnir sýndu íþróttina á næstu árum bæði að Álafossi og í nýopnaðri Sundhöll Reykjavíkur. Íslendingar gátu séð „Bestu sundmenn landsins leika listir í vatninu.“ Síðan þá hefur áhugi á sundknattleik minnkað og á köflum legið í algerum dvala. Sundknattleiksfélag Reykjavíkur og Sundfélag Hafnarfjarðar hafa þó haldið uppi einhverri starfsemi á undanförnum árum og stór hluti iðkenda hafa verið útlendingar. Óvíst er hvort að greinin nái nokkurn tímann vinsældum hér á landi aftur en hún á vissulega sinn sess í íþróttasögu Íslands. Hefðbundnar sundgreinar lifa þó mjög góðu lífi hér á landi og það sýnir frábær árangur Hrafnhildar Lúthersdóttur og Eyglóar Gústafsdóttur á ólympíuleikunum í Ríó svo um munar.
Íslenska sundknattleiksliðið 1936
Markverðir
- Jón Ingi Guðmundsson (1909-1989) – Sundkóngur og sundkennari
- Pétur Snæland (1918-2002) – Iðnfrömuður
Útileikmenn
- Jón D. Jónsson (1908-1973) – Sundkennari og málarameistari
- Jónas O. Halldórsson (1914-2005) – Sundkóngur, Sundkennari og eigandi gufubaðsstofu
- Magnús B. Pálsson (1912-1990) – Glerslípunarmeistari
- Úlfar Þórðarson (1911-2002) – Augnlæknir
- Þorsteinn Hjálmarsson (1911-1984) – Sundþjálfari og húsgagnasmíðameistari
- Þórður Guðmundsson (1908-1988) – Skókaupmaður
Varamenn
- Logi Einarsson (1917-2000) – Hæstarréttardómari
- Rögnvaldur K. Sigurjónsson (1918-2004) – Píanóleikari
- Stefán Jónsson (1918-2011) – Sýningarstjóri í Austurbæjarbíói