Meðal þess fyrsta sem kemur upp í huga margra þegar minnst er á Danmörku eru pylsurnar og pylsuvagnarnir. Þótt vögnunum hafi fækkað á síðustu árum á götuhornum og torgum, enda margs konar annar skyndibiti í boði, eru pylsurnar enn mjög vinsælar og í hugum margra Dana ómissandi hluti „danska eldhússins“. Úrvalið í verslunum er mikið, við lauslega talningu í matvöruverslun skammt frá heimili sínu fann pistlahöfundur tuttugu og tvær mismunandi gerðir og „útfærslur“ á þessari kjötvöru.
Kannanir hafa sýnt að þegar Danir ferðast til annarra landa leita þeir gjarna að pylsubar til að geta gert samanburðarrannsóknir á sama tíma og þeir seðja hungrið. Þótt víða séu til prýðilegar pylsur vantar þó eitthvað, að mati Dana, og þeir Danir sem setjast að fjarri heimalandinu leita uppi verslanir sem selja danskar pylsur og beri sú leit ekki árangur bregða þeir gjarna á það ráð að fá þær sendar að heiman.
Á brattann að sækja í hollustuumræðunni
Á undanförnum árum hefur orðið mikil umræða um heilbrigðari lífsstíl og breytt og hollara mataræði. Þessi umræða hefur ekki verið pylsunum hagstæð. Þær eru flestar fremur fituríkar og þar að auki yfirleitt reyktar, falla í þann flokk sem kallast unnin kjötvara. Pylsuframleiðendur hafa reynt að bregðast við með því að bjóða upp á fituminni vörur og alls kyns léttpylsur sem ekki sáust fyrir örfáum árum eru nú í boði. Slíkt þykir sönnum pylsuaðdáendum ekki mannamatur og fýla grön þegar talað er um léttpylsurnar í sömu andránni og „ekta“ vöru. En þrátt fyrir allt hollustutalið, sem ekki skal gert lítið úr, hefur pylsan lifað af.
Pylsurnar ekki bundnar við Danmörku
Þótt hér að framan hafi eingöngu verið minnst á Dani og danskar pylsur fer því þó fjarri að Danmörk sé eina landið þar sem pylsan skipar ríkan sess í daglegu mataræði. Þjóðverjar eru miklir pylsumenn, sama má segja um Ítali, Pólverja, Rússa og margar fleiri þjóðir sem gera pylsurnar hver með sínum hætti. „Ein með öllu“ hefur lengi notið mikilla vinsælda sem skyndibiti á Íslandi og þekktur pylsubar í Reykjavík er líklega það sem flestir Íslendingar tengja við Íslandsheimsókn Bill Clinton árið 2004. Hann hrósaði íslensku pylsunum og lét að sögn þau orð falla að svona góður skyndibiti væri ekki í boði vestan hafs.
Líklega hefur hann ekki grunað að tólf árum síðar yrði kominn danskur pylsubar á aðaljárnbrautarstöðina í New York, Grand Central Terminal. Og kannski enn síður að Dani búsettur í New York hefur ekki undan að framleiða, að dönskum hætti, pylsur sem hann selur vítt og breitt um Bandaríkin.
Claus Meyer á járnbrautarstöðinni í New York
Claus Meyer er einn þekktasti frumkvöðull í danskri matargerð samtímans. Iðulega er talað um hann sem matreiðslumann og það er hann vissulega enda þótt hann hafi ekki hlotið neina formlega menntun á því sviði. Hann er menntaður viðskiptafræðingur og lokaverkefni hans fjallaði um stofnun og uppbyggingu fyrirtækja. Claus Meyer hefur víða komið við, varð fyrst landsþekktur vegna sjónvarpsþátta um matargerð og var einn stofnenda hins þekkta veitingastaðar NOMA og á þar hlut. Fyrirtæki sem hann hleypti af stokkunum undir heitinu Meyers rekur meðal annars bakarí og veitingahús er allstórt og þekkt í Danmörku.
Fyrir nokkru seldi Claus Meyer fyrirtækið og flutti til New York þar sem hann hugðist opna veitingastað, og pylsubar, á aðaljárnbrautarstöð borgarinnar. Þótt fæstar járnbrautarstöðvar þyki tilheyra háborg matargerðarlistarinnar gegnir öðru máli um Grand Central Terminal. Margir Danir ráku upp stór augu þegar þeir fréttu af áformum Claus Meyer og „það á járnbrautarstöðinni” sögðu sumir og varð kannski hugsað til skyndibitastaðanna á Hovedbanegården í Kaupmannahöfn. En þarna er ólíku saman að jafna. Veitingastaðurinn sem heitir Agern (akarnið, aldinið) var opnaður fyrir nokkru og hefur fengið mjög góða dóma, meðal annars í Financial Times og New York Times en matgæðingar þessara blaða eru ekki silkihanskamenn.
Danish dogs
Við hliðina á veitingastaðnum Agern opnaði Claus Meyer pylsubarinn Danish Dogs. Þar eru seldar pylsur, að danskri fyrirmynd. Matgæðingur New York Times segir að Danish Dogs sé einfaldlega lang besti pylsubar New York borgar og það sé hrein unun að læsa tönnunum í hinar kynþokkafullu pylsur (án þess að útskýra það nánar) sem boðið sé uppá á þessum nýja norræna pylsubar. Claus Meyer kvaðst í viðtali í dönsku dagblaði vera himinlifandi yfir viðtökunum í New York, sem séu líka mikil auglýsing fyrir Danmörku.
Martin Høedholt og Revolving Dansk
Árið 2011 flutti ungur maður, Martin Høedholt frá Horsens á Jótlandi, til New York. Nokkrum dögum eftir að hann kom til borgarinnar keypti hann sér pylsu á götuhorni. Mikil voru vonbrigðin þegar hann „beit í þessa vatnsósa og grámyglulegu kjötlufsu sem kölluð var pylsa“. Eftir að hafa rætt málið við eiginkonuna, sem er bandarísk, ákváðu þau hjónin að reyna að búa til pylsur, svipaðar þeim sem Martin þekkti að heiman. Hvorugt þeirra hjóna kunni nokkuð til verka á þessu sviði og þau eyddu miklum tíma, og peningum, í að prófa sig áfram. Þegar þau töldu sig hafa fundið réttu uppskriftina reyndu þau fyrir sér á götumörkuðum og útiskemmtunum. Skemmst er frá því að segja að viðtökurnar fóru fram úr þeirra björtustu vonum og þau ákváðu að stofna fyrirtæki sem fékk heitið Revolving Dansk.
Martin sagði í viðtali við dagblaðið Politiken að ekki hefði verið hlaupið að því að komast í gegnum bandaríska skrifræðið og ekki hefði síður verið erfitt að finna framleiðanda sem hægt væri að treysta. Það tókst á endanum og til að gera langa sögu stutta þá annar fyrirtækið ekki eftirspurn. Pylsurnar, sem eru dýrar á bandarískan mælikvarða eru seldar í sælkeraverslunum og á netinu. Og, sem Martin þykir þó mest um vert er að allmargir þekktir veitingastaðir hafa nú sett pylsurnar á matseðilinn. „Við stefnum ekki að heimsyfirráðum á pylsumarkaðnum“ sagði hann í áðurnefndu viðtali „en fyrir mér er ameríski draumurinn pylsa. Pylsa sem bragðast eins og sú sem pabbi keypti stundum þegar hann sótti mig í skólann. Ég lít líka á þetta sem frumkvöðlastarf“ sagði Martin Høedholt og rétti blaðamanni Politiken nafnspjaldið sitt. Þar stendur Martin Høedholt Pølse Pioneer. Pylsufrumkvöðull.