Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf., sem er rekstrarfélag Hörpu, hefur samtals tapað 2.564 milljónum króna frá byrjun árs 2011 og fram að síðustu áramótum. Tapið í fyrra nam 443 milljónum króna. Þá er búið að taka tillit til sérstaks framlags sem ríki og Reykjavíkurborg, eigendur Hörpu greiða annars vegar vegna fjármögnunar á fasteigninni sjálfri og hins vegar vegna framlags til rekstrar Hörpu. Frá árinu 2011 hefur framlag vegna fjármögnunar kostnaðar við byggingu Hörpu numið 4.926 milljónum króna. Þær greiðslur munu standa yfir til ársins 2046 og aukast í krónum talið ár frá ári.
Til viðbótar ákváðu eigendur Hörpu að greiða rekstrarframlag vegna hennar frá byrjun árs 2013 og út þetta ár, 2016. Samtals hefur framlag eigendanna til rekstrar Hörpu numið 510 milljónum króna á þeim þremur árum tímabilsins sem liðin eru.
Samanlagt nemur því tap Hörpu, framlög ríkis og borgar vegna skulda hennar og rekstrarframlag ríkis og borgar því sléttum átta milljörðum króna frá byrjun árs 2011.
Tóku yfir Hörpu 2009
Íslenska ríkið og Reykjavíkurborg samþykktu að taka yfir og klára byggingu Hörpu snemma árs 2009. Þá höfðu framkvæmdir við byggingu hússins, sem Eignarhaldsfélagið Portus stóð fyrir, stöðvast í kjölfar bankahrunsins. Ástæðan var sú Portus og dótturfélög þess, sem voru í eigu Landsbanka Íslands og Nýsis, fóru í þrot.
Eftir yfirtöku ríkis og borgar á verkefninu, sem var gerð þegar Katrín Jakobsdóttir var menntamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri í Reykjavík, var tekið sambankalán hjá íslensku bönkunum til að fjármagna yfirtökuna. Í skriflegu svari Katrínar Jakobsdóttur við fyrirspurn þingmannsins Marðar Árnasonar um Hörpu, sem birt var í mars 2011, kom mjög skýrt fram að ekki ætti að setja meira fé en þar var umsamið í Hörpu.
Þar sagði orðrétt að „forsendur fyrir yfirtöku verkefnisins voru þær að ekki þyrftu að koma til önnur framlög frá ríki og borg en gert var ráð fyrir í samningi Austurhafnar-TR og Portusar frá 9. mars 2006".
Íslenska ríkið á 54 prósent í Hörpu en Reykjavíkurborg 46 prósent hlut.
Umfangsmikil skuldabréfaútgáfa
Í lok árs 2011 leituðu forsvarsmenn Hörpu-samstæðunnar til eigenda sinna eftir brúarláni, þar sem upphaflegt sambankalán dugði ekki fyrir stofnkostnaði. Lánið átti að endurgreiðast þegar Harpa gæfi út skuldabréfaflokk, og í síðasta lagi í desember 2012. Landsbankinn, sem var langstærsti lánveitandinn í sambankaláninu, fékk umsjón með skuldabréfaútboðinu og sölutryggði það.
Skuldabréfaútgáfan var upp á 19,5 milljarða króna og ber 3,55 prósent verðtryggða vexti. Samkvæmt ársreikningi Hörpu voru skuldir vegna útgáfunnar 19,7 milljarðar króna um síðustu áramót. Skuldabréfin eru tryggð með veði í framlagi ríki og borgar, fyrsta veðrétti í Hörpu auk handveðréttar í bankainnstæðum félagsins.
Rekstrartekjur meira en tvöfaldast
Rekstur Hörpu hefur batnað mikið síðustu ár ef horft er til aukningar á rekstrartekjum. Árið 2011 voru þær 482 milljónir króna en í fyrra voru rekstrartekjurnar 1.066 milljónir króna. Þær hafa því meira en tvöfaldast á fimm árum og hækkað ár frá ári.
Rekstrargjöld hafa að sama skapi vaxið. Árið 2012 voru þau um 1.229 milljónir króna. Í fyrra voru þau 1.349 milljónir króna.
Skuldir rekstrarfélags Hörpu voru 20,3 milljarðar króna um síðustu áramót. Þær eru aðallega ofangreindur skuldabréfaflokkur sem byrjað var að greiða af í maí 2013. Síðasti gjalddagi hans er 15. febrúar 2046.
Eigendur Hörpu greiða afborganir vegna skuldabréfaflokksins. Áætluð heildargreiðsla lánsins með vöxtum og verðbótum er 1.067 milljónir króna á árinu 2016. Til viðbótar greiðir ríki og borg framlag til rekstrar Hörpu á árunum 2013 til 2016. Árið 2014 var það framlag 168 milljónir króna en í fyrra var það 170 milljónir króna. Árið 2013 var það 172 milljónir króna.
Eiga inni fasteignagjöld
Einn helsti óvissuþátturinn í rekstri Hörpu undanfarin ár hefur snúist um greiðslu fasteignagjalda. Í maí 2011 var Harpan tekin í notkun. Í sama mánuði tilkynnti Þjóðskrá Íslands rekstrarfélagi Hörpu um að fasteignamat tónlistar- og ráðstefnuhússins væri reiknað 17 milljarðar króna, og var þar miðað við byggingarkostnað þess. Það mat gerði það að verkum að fasteignagjöld sem Harpa þurfti að greiða Reykjavíkurborg voru 355 milljónir króna vegna þess árs. Árið 2012 úrskurðaði yfirfasteignamatsnefnd að rekstrarfélag Hörpu ætti að greiða þá upphæð í slík gjöld vegna þess árs. Síðan hefur félaginu verið gert að greiða sambærilega upphæð á ári í slík gjöld.
Harpa vildi ekki una niðurstöðunni, og skaut henni til dómstóla, enda ljóst að þorri rekstrartekna Hörpu fyrstu árin myndi renna einvörðungu til greiðslu fasteignagjalda. Það sem gerði stöðuna enn sérkennilegri er að fasteignagjöldin greiðast til Reykjavíkurborgar, annars eiganda Hörpu.
Í maí í fyrra hafnaði héraðsdómur Reykjavíkur kröfu Hörpu um að úrskurður yfirfasteignamatsnefndar yrði ógildur. Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, sagði við Kjarnann við það tilefni að álagningin væri mjög óréttlát. „Það er alveg jafn ljóst nú og var áður, þótt veltan hjá Hörpu hafi aukist mikið, að þessi rekstur stendur ekki undir þessum álögum.“
Í febrúar 2016 ógilti Hæstiréttur Íslands síðan matið. Það leiddi til þess að fasteignaskattar Hörpu vegna ársins 2015 lækkuðu umtalsvert á milli ára. Þeir voru 366 milljónir króna árið 2014 en 135 milljónir króna árið 2015. Dómur Hæstaréttar var auk þess afturvirkur og nær aftur til ársins 2011. í ársreikningi Hörpu segir að of snemmt sé að segja til hversu háar þær fjárhæðir sem muni skila sér aftur til Hörpu verði en líklegt sé að heildaráhrifin verði að minnsta kosti 950 milljónir króna án vaxta. „Einungis er búið að færa áhrifin vegna ársins 2015 í efnahagsreikning, en þau nemur 242 milljónum króna. Í ljósi þessarar stöðu er það mat stjórnenda að samstæðan geti staðið við allar sínar skuldbindingar sem falla til næstu 12 mánuði. Ef mat stjórnenda gengur ekki eftir ríkir verulegur vafi um rekstrarhæfi samstæðunnar.“