Ef nýjar, og að sumra mati byltingarkenndar, hugmyndir um framtíðaruppbyggingu á Eyrarsundi milli Kaupmannahafnar og Malmö ná fram að ganga verða til á sundinu þrjár stórar eyjar, með þéttri byggð. Brýr og göng tengja eyjarnar við borgirnar tvær beggja vegna sundsins.
Þegar hugmyndir um brú yfir Eyrarsund, milli Kaupmannahafnar og Malmö, heyrðust fyrst nefndar fyrir rúmum þrjátíu árum voru fáir sem trúðu að slík brú yrði nokkurn tíma að veruleika. Að vísu hafði dönsk verkfræðistofa hannað brúar- og gangatengingu árið 1936 en það verkefni var af ráðamönnum kallað „stílæfing” og þar við sat, um margra ára skeið.
Árið 1991 ákváðu dönsk og sænsk stjórnvöld að ráðast í það sem nefnt var Eyrarsundstengingin en hlaut síðar nafnið Eyrarsundsbrúin. Bíla- og járnbrautabrú. Nokkrum árum fyrr (1986) hafði danska þingið tekið ákvörðun um byggingu brúar yfir Stórabelti, milli Sjálands og Fjóns. Sú brú var tekin í notkun árið 1998 og gjörbreytti samgöngum milli þessara tveggja eyja. Þar er innheimt brúargjald og miðað við nýjustu útreikninga verður brúin að fullu greidd árið 2029, hugsanlega fyrr.
Danir og Svíar ákváðu að sami háttur yrði hafður á varðandi Eyrarsundsbrúna, innheimt brúargjald. Til að leggja áherslu á að um samvinnuverkefni væri að ræða var framkvæmdinni gefið nafnið Øresundsbron, fyrsti stafurinn danskur en bron endingin sænsk.
Brúin gjörbreytti samgöngunum
Eyrarsundsbrúin var tekin í notkun 1. júlí 2000. Tengingin er tæplega 16 kílómetra löng og er sambland brúar og ganga ásamt vegtengingum við land beggja vegna sundsins. Við enda brúarinnar, Danmerkurmegin, sunnan við eyjuna Salthólmann, var gerð eyja, kölluð Piparhólminn. Hún tengir saman brúna og göngin sem eru næst Kastrup flugvelli. Á landi liggur járnbrautin meðfram veginum en yfir sjálfa brúna undir brúardekkinu. Ekki er ofmælt að tilkoma brúarinnar hafi gjörbreytt samgöngum yfir Eyrarsund, umferðin er miklu meiri en ráð var fyrir gert. Árið 2015 fóru að jafnaði 24 þúsund fólksbílar um brúna á sólarhring og um það bil 35 þúsund manns ferðuðust þessa leið daglega með lestum. Þá eru ótaldir vöruflutningar, um 22 þúsund tonn daglega á árinu 2015 með járnbrautarlestum og um 1100 flutningabílar fóru um brúna á hverjum sólarhring.
Verkfræðingur skrifar grein
Árið 2007, sjö árum eftir að brúin var tekin í notkun skrifaði danskur verkfræðingur grein í dagblaðið Berlingske. Hann birti þar útreikninga og spár sem sýndu að innan tuttugu ára myndi járnbrautarhluti brúarinnar ekki anna þörfinni og bílaumferðin yrði líka orðin mjög mikil. Á sínum tíma brostu margir að þessari grein verkfræðingsins en ekki lengur. Járnbrautin nálgast nefnilega óðum það sem á sérfræðingamáli kallast „þolmörk”. Áðurnefndur sérfræðingur hvatti til þess í greininni í Berlingske að strax yrði hafinn undirbúningur nýrrar brúar yfir sundið. Þótt margir væru vantrúaðir á útreikninga verkfræðingsins voru dönsk og sænsk samgönguyfirvöld byrjuð að „hugsa málið”. Ýmsar hugmyndir um vegasamband milli Danmerkur og Svíþjóðar hafa á síðustu árum komið fram, meðal annars sú að tengja saman, með brú og göngum, Helsingjaeyri og Helsingjaborg þar sem ferjur hafa haldið uppi samgöngum í áratugi.
Greater Copenhagen
Frank Jensen yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar hefur síðan hann tók við embættinu í ársbyrjun 2010 einbeitt sér að framtíðarskipulagi og þróun borgarinnar. Og Eyrarsundssvæðisins. Hann hefur lagt mikla áherslu á samstarf við stjórnvöld á Skáni í Svíþjóðog sagt að Kaupmannhafnarsvæðið, Malmö og Suður-Skánn væru í raun eitt atvinnusvæði og í hinum harða heimi sé samvinna Dana og Svía eina leiðin til að þetta svæði geti þróast og dafnað. Á gömlu hafnarsvæðunum í Kaupmannahöfn, Norðurhöfninni og Suðurhöfninni og raunar víðar í borginni hafa hús með þúsundum íbúða hafa verið byggð á allra síðustu árum og veitir ekki af. Í hverjum mánuði flytja um tólf hundruð manns til Kaupmannahafnar og sérfræðingar spá því að ekki dragi úr þeim straumi á næstu árum. Byggingaland borgarinnar er takmarkað og þess vegna hafa skipulagsyfirvöld og yfirstjórn borgarinnar skoðað allar mögulegar, og kannski ómögulegar, leiðir til að mæta sívaxandi þörf fyrir húsnæði. Handan sundsins, í Malmö, er töluvert atvinnuleysi, öfugt við Kaupmannahöfn og sömuleiðis mikill skortur á húsnæði. Borgaryfirvöld, og sveitarstjórnarmenn á Skáni, hafa þess vegna mikinn áhuga á aukinni samvinnu og nánari atvinnutengslum, eins og það er kallað, við Dani. Þótt Svíarnir taki undir hugmyndir Franks Jensen um eitt atvinnusvæði hugnast þeim ekki hugmyndir hans um að nefna svæðið „Greater Copenhagen”. Svíarnir vilja tengja heitið Eyrarsundi með einhverjum hætti. Frank Jensen segir að heimurinn þekki Kaupmannahöfn en hafi ekki minnstu hugmynd um hvað og hvar þetta Eyrarsund sé. „Greater Copenhagen er rétta heitið,” segir yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar.
Á síðustu tveim áratugum hafa nokkrum sinnum verið haldnar hugmyndasamkeppnir um framtíðaruppbyggingu Eyrarsundssvæðisins. Niðurstöður úr þeirri nýjustu, IMAGINE open Skáne 2030, voru kynntar fyrir viku og þar vakti tillaga SWECA arkitektastofunnar mikla athygli.
Stóra planið
Tillaga SWECO, sem fékk fyrstu verðlaun í samkeppninni, er róttækari en allt sem áður hefur hefur verið nefnt í þessum efnum. Svo róttæk að fullyrt er að dómnefndarmenn hafi vart trúað sínum eigin augum þegar þeir sáu hugmyndir arkitektanna. „Byltingarkennd” sagði einn dómnefndarmanna.
Í stuttu máli ganga hugmyndir SWECO útá að á Eyrarsundi, á móts við Amager, verði gerðar þrjár stórar eyjar og á þeim rísi tugþúsundir húsa. Eyjarnar tengist innbyrðis og við Kaupmannahöfn og Skán með brúm og göngum og til viðbótar Eyrarsundsbrúnni komi þrjár nýjar tengingar yfir sundið. Efninu í eyjarnar, sem samanlagt yrðu svipaðar á stærð og Amager, talsvert stærri en t.d. Þingvallavatn, yrði fengið úr Eyrarsundinu, líkt og gert var með Piparhólmann þegar Eyrarsundsbrúin var byggð.
Skýjaborgir eða raunveruleiki?
Iðulega er það svo þegar nýjar róttækar hugmyndir koma fram að margir telja þær skýjaborgir sem aldrei verði, eða geti orðið, að veruleika. En sagan segir að margt af því sem fáir eða engir töldu gerlegt á sínum tíma er í dag sjálfsagður hlutur. Hvort borgin á eyjunum þremur á Eyrarsundi verður að veruleika verður tíminn að leiða í ljós.