Sé mið tekið af ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði, þá má búast við töluverðum vaxtalækkunum á óverðtryggðum og verðtryggðum húsnæðislánum á næstunni, það er þeim sem eru með breytilega vexti. Í kjölfar lækkunar á meginvöxtum Seðlabanka Íslands, úr 5,75 prósent í 5,25 prósent, og síðan hækkun á lánshæfiseinkunn, þá hefur vaxtaálag lækkað á markaði.
Mikil vaxtalækkun og lægri greiðslubyrði
Sé mið tekið af algengu viðmiði lífeyrissjóða, þegar kemur að húsnæðislánum með breytilega vexti á óverðtryggðum lánum, þá gætu vextir farið niður í 5,75 prósent en þeir eru nú 6,75 prósent, sé miðað við stöðu mála og viðmið hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna.
Sama má segja um breytilega vexti verðtryggðra lána, en þeir gætu lækkað niður fyrir þrjú prósent, ef miðað er við stöðu mála á skuldabréfamarkaði nú. Breytilegir vextir á verðtryggðum lánum eru víðast hvar svipaðir, á bilinu 3,65 til 3,9 prósent. Sé miðað við Lífeyrissóð verzlunarmanna, þá eru breytilegir vextir nú 3,86 prósent, samkvæmt vef sjóðsins, en eins og áður segir þá gætu vextirnir lækkað töluvert á næstunni.
Þetta skiptir almenning miklu máli, en þýða betri vaxtakjör lægri greiðslubyrði á lánum, sem þýðir að meira verður eftir í vasa landsmanna um hver mánaðarmót.
Góðar verðbólguhorfur
Verðbólguhorfur eru góðar í augnablikinu, en verðbólga mælist nú 0,9 prósent. Í meira en tvö ár hefur verðbólga verið undir 2,5 prósent og hefur kaupmáttur launa aukist verulega, einkum á undanförnu ári. Samtals nemur aukningin yfir 11 prósentum, sem er með hröðustu aukningu kaupmáttar frá því mælingar hófust.
Hvað gera bankarnir?
Bankarnir, sem eru með langsamlega mestu markaðshlutdeild á íbúðalánamarkaði, hafa ekki ennþá lækkað vexti á íbúðalánum. Landsbankinn og Íslandsbanki eru í eigu ríkisins, og eru með sambærilega vexti á húsnæðislánum, og það sama má segja um Arion banka. Vextir bankanna eru þó umtalsvert hærri en lífeyrissjóðirnir bjóða.
Landsbankinn býður 3,65 prósent breytilega vexti á verðtryggðum lánum, en 6,75 prósent á breytilegum óverðtryggðum lánum.
Íslandsbanki býður 6,75 prósent breytilega vexti á óverðtryggðum lánum, en bestu vextir á verðtryggðum lánum eru 3,85 prósent. Arion banki býður svo lægst 7,05 prósent vexti á óverðtryggðum lánum, og 3,65 prósent á verðtryggðum lánum.
Lífeyrissjóðirnir hafa að undanförnu aukið markaðshlutdeild sína á íbúðalánamarkaði, enda virðast nýir lántakar horfa meira til þeirra vegna hagstæðra vaxtakjara.
Lífeyrissjóðirnir lánuðu rúmlega 38 milljarða króna til íslenskra heimila á fyrri helmingi ársins, samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands sem birtust í fyrri hluta ágústmánaðar. Lífeyrissjóðirnir hafa aukið hlutdeild sína á íbúðalánamarkaði verulega undanfarin misseri, eftir að nokkrir stórir lífeyrissjóðir hófu að bjóða allt að 75% íbúðalán og óverðtryggð lán.
Til samanburðar námu lán lífeyrissjóðanna til heimila rétt tæplega fimm milljörðum króna á sama tímabili í fyrra, áður en lífeyrissjóðirnir hófu í raun þessa innreið sína á íbúðalánamarkaðinn. Á seinni helmingi ársins 2015 voru veitt lán fyrir 16,7 milljarða króna, og útlánin hafa hækkað jafnt og þétt.