Árið 2011 birtist sjónvarpsviðtal á brasilísku stöðinni Globo við fyrrum knattspyrnumann sem flestir höfðu gleymt. Ástæðan fyrir viðtalinu var sú að allur hans ferill hafði verið eitt stórt plat. Hann hafði á ákaflega útsmoginn en jafnframt nokkuð aðdáunarverðan hátt náð að koma sér undan því að spila knattspyrnu allan sinn feril en þó fengið að njóta ávaxtanna af því að vera atvinnu knattspyrnumaður. Þetta er sagan af Carlos Kaiser.
Ungur og efnilegur
Carlos Henrique Raposo er fæddur 2. apríl árið 1963 í bænum Rio Pardo í suðurhluta Brasilíu. Hann ólst upp í fátækt og eins og margir ungir piltar ákvað hann að reyna fyrir sér í knattspyrnunni. Brasilíumenn urðu heimsmeistarar í knattspyrnu árið 1970, lið sem af mörgum er talið eitt það allra besta í sögunni, og það hafði mikil áhrif unga drengi eins og Carlos. Fyrir þá var knattspyrnan leiðin út úr fátækrahverfunum. Um 10 ára aldurinn flutti Carlos norður til stórborgarinnar Río de Janeiro og æfði með unglingaliði Botafogo sem var stórveldi á þeim tíma, liðið sem bæði Garrincha og Jairzinho höfðu spilað með. Hann þótti efnilegur og fór snemma yfir í annað stórveldi frá Ríó-borg, Flamengo, lið hins mikla Zico. Á þessum tíma fékk hann viðurnefnið sitt Kaiser eða keisarinn. Sagan segir að það hafi verið vegna þess að hann hafi minnt á hinn þýska Franz Beckenbauer á velli en mögulegt er að hann hafi einfaldlega búið þetta viðurnefni til sjálfur.
Carlos Kaiser var í góðu líkamlegu formi, mjög snöggur og spilaði sem framherji. Önnur lið fóru að sína honum áhuga, jafnvel lið utan landsteinanna. Árið 1979, þegar hann var 16 ára, hitti hann útsendara mexíkóska 1. deildar liðsins Puebla F.C.. Hann fékk reynslusamning um að spila með aðalliði félagsins og flaug til Mexíkó. En þegar þangað var komið tók hins vegar alvara lífsins við. Kaiser æfði með liðinu um stund og þá tóku þjálfarar liðsins eftir nokkru – Hann var einfaldlega mjög lélegur knattspyrnumaður! Hann hafði enga boltatækni og engan leikskilning. Eftir nokkurra mánaða dvöl í Mexíkó var Carlos Kaiser sendur heim án þess að hafa spilað svo mikið sem einn leik. Eftir þessa sneypuför voru tveir kostir í boði fyrir hinn unga Kaiser. Annars vegar að hætta knattspyrnuiðkun og snúa sér að öðru. Hins vegar að æfa meira, bæta sig og reyna að komast að hjá öðru liði. Kaiser ákvað þó að gera bæði, hann vildi vera atvinnuknattspyrnumaður sem ekki spilaði knattspyrnu.
Eins og allir aðrir knattspyrnumenn þá kom ég úr fátækri fjölskyldu, en ég vildi verða stór, eiga mikið af peningum svo ég gæti gefið fjölskyldu minni betri lífsafkomu....ég vissi að besta leiðin til þess að láta það gerast var í gegnum knattspyrnu. Ég vildi verða knattspyrnumaður án þess að þurfa að raunverulega spila.
Úthugsað svindl
Þegar Carlos Kaiser sneri aftur til Ríó var hann duglegur að stunda hið villta næturlíf borgarinnar. Hann hafði hafði tengslanet eftir veru sína hjá Flamengo og nýtti sér það til að kynnast mörgum af þekktustu knattspyrnumönnum landsins. Einhverjir voru eldri kempur, svo sem Carlos Alberto Torres, heimsmeistari frá 1970 og einn af bestu varnarmönnum allra tíma. En flestir voru upprennandi stjörnur, s.s. Romario, Bebeto, Ricardo Rocha og Branco, sem áttu eftir að tryggja Brasilíu heimsmeistaratitilinn árið 1994. Kaiser var á heimavelli á næturklúbbunum. Hann var einstaklega sjarmerandi og laðaði bæði menn og konur að sér. Hann vingaðist einnig við fjölmarga blaðamenn og það átti eftir að skipta miklu máli fyrir feril hans á komandi árum.
En hvernig ætlaði hann að fara að þessu, þ.e. að vera knattspyrnumaður sem ekki spilaði? Jú, hann nýtti sér tengslin á tvenns konar hátt til þess að fá samninga hjá félagsliðum. Þegar leikmenn sem hann þekkti fengu samninga reyndu þeir að koma honum að á reynslusamning á sama tíma. Blaðamennirnir skálduðu svo upp lofrullu um hann þannig að ímynd hans væri sterk. Í einni grein sem birtist skömmu eftir að Kaiser sneri aftur frá Mexíkó var því haldið fram að stjórnvöld þar í landi hafi reynt að fá hann til að skipta um ríkisfang til að spila fyrir landsliðið. Á móti gaf hann blaðamönnunum áritaðar treyjur og ýmsa aðra muni. Leikmennirnir héldu einnig þessari ímynd á lofti þó að fæstir hefðu nokkurn tímann séð hann spila. Forsvarsmenn liðanna sáu ekki ástæðu til að draga þetta í efa.
Þegar að Kaiser var kominn með fótinn inn hjá einhverju liði og hafði skrifað undir reynslusamning þá sagðist hann ávallt ekki vera í nægilegu leikformi. Þetta þýddi að hann fékk nokkrar vikur eða jafnvel mánuði þar sem hann stundaði einungis þrekæfingar og þurfti því ekki að sýna fram á neina getu með knöttinn. Hann fékk samt góð laun og gat stundað næturlífið að vild. Sem atvinnuknattspyrnumaður fékk hann mikla athygli og kvenhygli. Þegar hann þurfti loks að sparka í bolta á æfingum þá tók við þriðji fasi svindlsins. Sem framherji þá vildi hann fá langar sendingar fram sem hann myndi hlaupa á eftir en þá lét hann sig falla í jörðina og greip um lærið. Þá laug hann því að vöðvi aftan í læri hefði rifnað og kveinkaði sér ógurlega. Á níunda áratugnum höfðu íþróttalæknar ekki yfir nægilegri tækni að ráða til að sjá þetta. Segulómunartæki voru ekki til og því urðu þeir einfaldlega að taka hann trúanlegan. Ef þeir vildu rannsaka Kaiser enn frekar hafði hann samband við tannlækninn sinn sem sagði liðslæknunum að leikmaðurinn væri með mikla rótarsýkingu og gæti ekki spilað. Yfirleitt dugði „rifni vöðvinn“ samt til. Hann gat því setið út samninginn á meiðslalistanum og ekki gert handtak. Svo hófst leitin að næsta liði, eða þ.e.a.s. fórnarlambi.
Litríkur ferill
Fyrsta félagið sem Carlos Kaiser komst á samning hjá eftir komuna frá Mexíkó var hans gamla félag Botafogo. Þar gekk áætlun hans fullkomlega eftir þar til læknir félagsins, Ronaldo Torres að nafni, komst í spilið. Kaiser gekk oft um með farsíma, tæki sem mjög fáir áttu á þessum tíma, og talaði stöðugt á ensku í hann. Hann sagðist vera að ræða við útsendara liða frá Englandi um áhuga þeirra á sér og möguleg félagaskipti. Þetta vakti mikla aðdáun hjá öllum leikmönnum og starfsfólki Botafogo.....nema Torres lækni.
Hann var sá eini sem kunni ensku og hann áttaði sig á því að Kaiser var bara að segja eitthvað bull í símann og heyrði líka engan tala til baka í símanum. Þegar Kaiser var í sturtu eitt sinn ákvað læknirinn athuguli að rannsaka farsímann. Þá kom í ljós að síminn var einungis leikfang. Eftir þetta atvik var Kaiser fljótur að forða sér frá Botafogo en hann var alls ekki af baki dottinn í svindlinu og staðráðinn í því að halda „ferlinum“ gangandi.
Carlos Kaiser gekk vel að koma sér á samninga í Ríó de Janeiro. Þar þekkti hann alla og áður en yfir lauk hafði hann verið á samning hjá öllum fjóru stóru liðum borgarinnar, Botafogo, Flamengo, Fluminense og Vasco da Gama. Hjá Vasco da Gama var hans helsta hlutverk reyndar að hjálpa öðrum leikmanni að komast yfir áfengisvandamál. Auk þessarra liða komst hann á samning hjá tveimur minni liðum borgarinnar, Bangu og America. Árið 1986 fór hann yfir Atlantsála til Evrópu. Þá fékk hann samning hjá franska 2. deildar liðinu Gazélec í Ajaccio-borg á eyjunni Korsíku.Eyjaskeggjar voru spenntir fyrir að fá brasilískan framherja til liðsins og fjölmenntu á leikvanginn þegar sjálfur Carlos Kaiser var afhjúpaður á opinni æfingu. Hann hafði ekki haft tíma til að hrinda sinni venjulegu svindl-rútínu í gang og óttaðist nú að valda áhorfendum vonbrigðum með afleitri knatttækni sinni. Hann greip því til þess ráðs að taka alla bolta á æfingasvæðinu og sparka þeim upp í stúku til áhorfandanna. Hann kallaði til þeirra, þakkaði þeim og kyssti Gazélec merkið á treyjunni sinni. Áhorfendurnir trylltust af fögnuði yfir nýju hetjunni sinni en nú voru engir boltar eftir til að sýna listir með. Sýningin fólst því í hlaupa-og þrekæfingum sem hentaði Carlos Kaiser mætavel. Ferill hans í Frakklandi endaði ári seinna líkt og hjá öðrum félögum, hann spilaði lítið sem ekkert og skoraði ekki eitt einasta mark. Engu að síður fékk hann félaga sína hjá brasilísku pressunni til þessa að ljúga því að hann hefði spilað í 8 ár í Frakklandi og verið aðalmarkaskorari Korsíkuliðsins.
Kaiser gerði það að listformi að koma sér undan því að spila knattspyrnu. Þegar að hann sneri heim frá Frakklandi fékk hann samning hjá Bangu í Ríó. Í blöðuðunum birtust fyrirsagnir á borð við: „Bangu hefur fengið sinn kóng: Carlos Kaiser“. Eftirvæntingarnar voru miklar eftir allar hetjusögurnar frá Frakklandi en Kaiser hélt áfram sinni rútínu, þ.e. fyrst að æfa án bolta og síðan að þykjast vera slasaður. Engu að síður var hann valinn í liðið í eitt skipti þó hann væri á meiðslalista. Þjálfarinn fullvissaði hann þó um það að hann yrði ekki látinn spila, þetta væri einungis upp á punt. En Bangu lentu 2-0 undir og sárvantaði mark og því greip þjálfarinn til þess að senda „stjörnuframherjann“ inn á. Þá tók Kaiser eftir því að nokkur ungmenni í áhorfendaskaranum voru að hrópa ókvæðisorð að leikmönnum Bangu. Hann stökk því á grindverkið fyrir framan áhorfendurnar, öskraði og blótaði að þeim þar til dómarinn kom að og sýndi honum rauða spjaldið...áður en hann kom inn á völlinn. Þegar forseti Bangu yfirheyrði Kaiser um hvað honum hefði gengið til sagði Kaiser að ungmennin hefðu beint níðinu að forsetanum sjálfum og Kaiser hefði þurft að verja heiður hans. Í stað samningsriftunar fékk Carlos Kaiser hálfs árs framlengingu á samningi sínum fyrir vikið.
Hvernig komst hann upp með þetta?
Eitt seinasta liðið sem Carlos Kaiser var samningsbundinn hjá var bandaríska liðið El Paso Sixshooters, lið frá Texas sem spilaði hálfatvinnumannadeild sem nefndist PDL. Það var í upphafi tíunda áratugarins, í þann mund sem veraldarvefurinn var að koma fram á sjónarsviðið. Áá þeim tímapunkti ákvað Kaiser að hann gæti ekki haldið svindlinu gangandi áfram. Hann var búinn að brenna flestar brýr að baki sér í Brasilíu og nú var kominn sá tími að hægt væri að „fletta honum upp“. Svindl Kaisers byggði fyrst og fremst á skorti á upplýsingum. Þegar hann fékk samning var það einungis vegna ummæla annarra leikmanna og blaðamanna, ummæla sem hann stýrði algerlega sjálfur. Á þessum tíma var erfitt að fá góðar og nákvæmar tölfræðiupplýsingar um leikmenn eða vídjóupptökur af þeim. Liðin höfðu einfaldlega ekki nægileg úrræði til að meta gæði leikmanna.
Carlos hikaði heldur ekki við að ljúga til um feril sinn til að fá samninga. Til dæmis sagðist hann hafa spilað fyrir argentínska stórveldið Independiente frá Buenos Aires. Hann sagðist hafa fengið þann samning fyrir tilstilli góðvinar síns Jorge Burruchaga, sem var lykilmaður hjá Independiente og síðar heimsmeistari með argentínska landsliðinu. Ekki nóg með það, þá sagðist Kaiser einnig hafa verið lykilmaður hjá liðinu þegar það vann Cup Libertadores (nokkurs konar meistaradeild Suður Ameríku) árið 1984 og Heimsskjöldinn gegn Liverpool sama ár. Sá sem um er rætt heitir aftur á móti Carlos Enrique, argentínskur miðjumaður og leikmaður Independiente til margra ára. Carlos Kaiser þekkti ekki einu sinni Jorge Burruchaga og óvíst er hvort hann hafi nokkuð tímann komið til Argentínu. Á tímum veraldarvefsins hefði Carlos Kaiser aldrei komist upp með svo ósvífna lygi.
En svindl Kaisers var ekki einungis byggt á lygunum heldur einnig persónutöfrum hans. Hann hafði öflugt tengslanet og var var vinsæll hjá liðsfélögum sínum og samstarfsmönnum alla tíð. Hann gekk meira að segja svo langt að ráða vændiskonur handa þeim á ferðalögum. Flestir liðsfélaga hans hafa þó sjálfsagt vitað hversu lélegur leikmaður hann var. Einn af hans nánustu vinum, varnarmaðurinn og heimsmeistarinn Ricardo Rocha hafði þetta að segja um Kaiser: „Eina vandamál hans var boltinn. Hann var svo fullkominn framherji að hann skoraði aldrei mark og gaf aldrei stoðsendingu. Hann sagðist svo alltaf vera meiddur. Þegar boltinn fór til vinstri fór hann til hægri og öfugt. Hann hafði enga hæfileika en hann var mjög, mjög góður maður. Allir elskuðu hann.“
Það reyndist rétt hjá Rocha. Á ferli sem spannaði 20 ár spilaði Carlos Kaiser einungis um 30 leiki þar sem hann kom yfirleitt inn á á lokamínútunum. Hann skoraði ekki eitt einasta mark. Síðan þá hefur Kaiser unnið sem einkaþjálfari og hann er ekki plagaður af eftirsjá. Þvert á móti þá er hann nokkuð ánægður með sig. „Ég sé ekki eftir neinu. Félögin plata nú þegar svo marga leikmenn upp úr skónum, einhver varð að vera hefndarengillinn,“ sagði Kaiser.