Tvennt einkennir íslenskan leigubílamarkað:
1) Á höfuðborgarsvæðinu hafa 560 atvinnubílstjórar leyfi til að keyra leigubíl. Það eru jafn margir bílstjórar og árið 2003, fyrir 13 árum síðan. Á sama tímabili hefur íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgað um 30 þúsund og erlendum ferðamönnum hefur á ársgrundvelli fjölgað frá því að vera 320 þúsund í nærri 1,3 milljónir árið 2015. Miklar olíuverðslækkanir undanfarin ár hafa engin áhrif haft á leigubílafargjöld á Íslandi, þrátt fyrir að vera stór útgjaldaliður í rekstri ökutækja. Fargjöldin hafa staðið í stað eða hækkað. Startgjald er nú 660 krónur, tímagjaldið fyrir hverja klukkustund er 8132 krónur (390 krónum hærra en um síðustu áramót) og kílómetragjald er 248 krónur.
2) Reykjavík er eina höfuðborg Norðurlandanna þar sem þjónusta fyrirtækisins Uber er ekki aðgengileg. Þótt sagðar hafi verið fréttir af líklegri komu Uber til Íslands í desember 2014, eftir að nægilega margar undirskriftir söfnuðust, og yfirmaður alþjóðastarfsemi félagsins hafi lofað því að Uber myndi koma til Íslands, þá hefur hvorki heyrst né spurst af frekari áformum um langt skeið. Uber stendur fremst þeirra fyrirtækja sem gerbreytt hafa leigubílaþjónustu með tækninýjungum.
Þörfustu þjónar þjóðarinnar?
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hélt í mars síðastliðnum eina áhugaverðustu ræðu yfirstandandi þings. Undir liðnum „störf þingsins“ sagði Ásmundur í pontu að leigubílstjórar séu þörfustu þjónar þjóðarinnar, en nú sé sótt að þeim með ólöglegri starfsemi. Á Facebook megi finna hópinn „Skutlarar“ þar sem ökumenn bjóðist til að skutla öðrum gegn greiðslu. „Nú er sótt að þeim [leigubílstjórum, innsk. blm.] með ólöglegri, svartri starfsemi,“ sagði Ásmundur. Og ekki nóg með að þarna sé kominn svartur markaður með skutl, þá sé auglýstur bjór til sölu, beint úr skottinu.
Þingmaðurinn skoraði á lögregluna að gera eitthvað í málinu. Í sömu ræðu talaði hann einnig um Uber. „Eftir því sem ég hef best kynnt mér er mjög lágskýjað yfir þeirri starfsemi allri hvar sem á hana er litið, svo ekki sé meira sagt. Virðulegi forseti. Eigum við að horfa upp á slíka svarta starfsemi fyrir framan nefið á okkur? Er ekki nóg að við ætlum að fylla hér allar verslanir af brennivíni heldur er boðið upp á heimsendingarþjónustu allar helgar fyrir fólk? Er það ekki orðið of mikið af því góða? Það vantar þá alla vega klakann og kókið ef þetta á að ganga upp,“ sagði hann.
Þótt Ásmundur hafi slegið á létta strengi í lok ræðu sinnar, þá var honum fúlasta alvara með inntak hennar. Einkaframtakinu eru settar skorður í eins litlu samfélagi og Íslandi, sagði Ásmundur, og talaði fyrir því að standa vörð um núverandi leigubílamarkað.
Ásmundur horfir á vandamál hagsmunaaðila en lítur framhjá öllum mögulegum lausnum, öðrum en boðum og bönnum. En tækni eins aðgengileg og Facebook hefur gerbreytt grundvelli boða og banna. Ætli þingheimur sér ekki að setja á fót meiriháttar netlögreglu og eftirlitskerfi, þá er útilokað fyrir hann að berjast gegn skutlinu. Facebook-grúppan Skutlarar hefur verið til lengi og henni tilheyra ríflega 27 þúsund manns. Hún tengir ökumenn og farþega saman í gegnum netið, alveg eins og Uber nema á óskilvirkari hátt og án nokkurar aðkomu atvinnubílstjóra. Á meðan Uber eða sambærileg þjónusta er ekki aðgengileg á Íslandi þá mun hópurinn Skutlarar áfram vera til, í einu formi eða öðru.
Leigubílstjórar og stjórnvöld á móti
Aðrir sem talað hafa gegn auknu frjálsræði á íslenskum leigubílamarkaði eru forsvarsmenn leigubílstjóra. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins um leigubílamarkaðinn í október 2014 sagði Sæmundur Kristján Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri Hreyfils, að enginn skortur væri á leigubílum á Íslandi og að aukið frjálsræði myndi ekki aðeins hækka verð og draga úr gæðum þjónustu, heldur skapa kjörinn vettvang til að stunda eiturlyfjasölu og aðra glæpi.
Þeir sem staðið hafa í leigubílaröð í miðbæ Reykjavíkur að vetri til vita vel að skortur getur auðveldlega myndast á íslenskum leigubílamarkaði. Um önnur ummæli framkvæmdastjóra Hreyfils, þess fyrirtækis sem mest á undir óbreyttu kerfi, er óþarfi að ræða frekar. Þau eru tóm þvæla og aðrir áhugaverðri vinklar mikilvægari.
Afstaða íslenskra leigubílstjóra er nefnilega ekki sér-íslensk. Uber hefur víða valdið usla, sérstaklega í Evrópu, og mætt mikilli andstöðu hefðbundinna leigubílstjóra. Þeir telja Uber veita ósanngjarna samkeppni og að fyrirtækið sniðgangi lög og reglur. Hefðbundnu leigubílstjórarnir telja að bílstjórar Uber, sem eru verktakar, þurfti ekki að uppfylla sömu skilyrði né greiða sömu skatta og gjöld.
Og leigubílstjórarnir hafa nokkuð til síns máls. Ákveðnar þjónustuleiðir Uber hafa beinlínis brotið gegn lögum í Evrópulöndum. Fyrirtækið býður upp á mismunandi þjónustuleiðir. Þær kallast nöfnum eins og UberPOP, UberX, UberPool og UberBlack (þess má geta að UberX í Bandaríkjunum svipar mjög til UberPOP í Evrópu). UberPOP gerir hvaða ökumanni sem er kleift að finna farþega í gegnum Uber appið, sækja hann og skutla á áfangastað. Greiðsla og leiðarvísun er öll í gegnum appið, eins og þeir þekkja sem notað hafa Uber á ferðum erlendis.
UberPOP þjónustan hefur mælst illa fyrir hjá stjórnvöldum í Evrópu, svo það sé orðað pent, og verið dæmd ólögleg af dómstólum í Þýskalandi, Frakklandi, Belgíu og víðar. Fyrirtækið hefur brugðist við og tekið þessa þjónustuleið úr umferð sums staðar í Evrópu og jafnvel látið sig hverfa úr ákveðnum borgum vegna mikillar andstöðu. Niðurstaða evrópsku dómstólanna er sú að bílstjórar Uber þurfa tilskilin leyfi eins og hefðbundnir leigubílstjórar. Hver sem er getur ekki skutlað hverjum sem er.
Á móti hefur Uber eflt aðrar þjónustuleiðir. UberX þjónustan, þrátt fyrir að vera nokkuð umdeild einnig, er enn víðast hvar aðgengileg í þeim rúmlega 80 borgum Evrópu þar sem Uber er starfrækrækt. UberX gerir enga kröfu um gæði bílanna en ökumenn þurfa tilskilin leyfi til atvinnureksturs og hafa gengið í gegnum skráningarferli hjá Uber. UberBlack er síðan nokkurs konar uppfærsla af UberX. Þá er farþeginn sóttur af snyrtilega klæddum ökumanni á glæsibifreið, og greiðir fyrir það hærra gjald. UberPool er ódýrari útgáfan og leyfir ökumanninum að taka aðra farþega upp í á meðan hann skutlar þeim fyrsta. Þessi þjónusta hefur enn ekki rutt sér til rúms í sama mæli og UberX, enda nýrri og framúrstefnulegri, en gegnir lykilhlutverki í framtíð Uber.
Dóms- og deilumál vegna Uber eru efni í langa grein og þótt staða fyrirtækisins hvað þau varðar sé aðeins reifuð í þessari grein, með áherslu á Evrópu, þá er ætlunin ekki að gera lítið úr stöðunni. Dómsmál sem Uber tengist eru fleiri en 170 talsins, samkvæmt yfirlitssíðu á Wikipedia. Eitt grundvallar-deilumál snýr að því hvað Uber raunverulega er. Fyrirtækið telur sig nefnilega ekki vera leigubílafyrirtæki eða vinnuveitanda ökumanna, heldur tæknifyrirtæki sem býður upp á lausn þar sem ökumenn og farþegar eru tengdir saman.
Breyttar ferðavenjur með Uber
Þrátt fyrir erfiða og kostnaðarsama útrás hins bandaríska fyrirtækis Uber til Evrópu, með tilheyrandi mótmælum og lögsóknum, þá er atlögunni í Evrópu hvergi nærri töpuð. Nýlegt álit Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem gefið var út í júní síðastliðnum, er jákvætt í garð Uber og fleiri fyrirtækja á borð við Uber og Airbnb, þ.e. fyrirtæki sem á síðustu árum hafa snúið rótgrónum atvinnugeirum á hvolf með tækninýjungum og viðskiptamódelum sem lög ná ekki utan um – deilihagkerfið. Er það skoðun Framkvæmdastjórnarinnar að stjórnvöld í Evrópu eigi að forðast það í lengstu lög að banna starfsemi slíkra fyrirtækja eða setja þeim of þröngar skorður. Slíkt gæti skaðað efnahag Evrópuríkja, komið í veg fyrir framþróun og komið í veg fyrir að framsækin fyrirtæki verði stofnuð innan ESB. Fyrirtækin eigi þó ekki að fá að starfa til hliðar við hið hefðbundna hagkerfi, utan laga og reglna, þau verði að lúta reglum um starfsmannahald og skattgreiðslur. Á móti eigi þau heldur ekki endilega að falla undir gamla lagaramma ákveðinna atvinnugeira, eins og t.d. lög um hótelrekstur eða leigubílastarfsemi, nema fyrirtækin eigi eignirnar (t.d. hótel eða leigubíla) eða verðleggi þjónustuna. Taka skal fram að álit Framkvæmdastjórnar ESB er ráðgefandi en ekki bindandi, en var engu að síður kærkomið hjá bæði Uber og Airbnb.
Það er erfitt fyrir stjórnvöld í Evrópu að taka álit Framkvæmdastjórnarinnar ekki alvarlega. Fyrirtækin sem um ræðir skapa gríðarleg verðmæti, tilkomin vegna þess að þjónustan sjálf skapar verðmæti fyrir notendurna og eykur hagkvæmni. Það er ekki að ástæðulausu að Uber er í dag metið á 70 milljarða dollara, hæst allra nýsköpunarfyrirtækja. Uber er ekki eingöngu ódýrara og þægilegra fyrir farþega. Það skapar bílstjórunum tekjur af eigin ökutækjum og leysir úr læðingi efnahagskrafta sem voru áður ekki til staðar.
Virðismat Uber endurspeglar ekki aðeins hvað félagið gerir í dag, heldur miklu fremur hvað það getur boðið upp á framtíðinni og hvað það getur leyst úr læðingi. Fyrirtækið er leiðandi í breyttri samgönguhegðun, þar sem bættur hug- og tæknibúnaður spilar lykilhutverk. Stærstu tæknifyrirtæki heims, þar á meðal Google og Apple, og stærstu bílaframleiðendurnir vinna að og undirbúa sig undir breytt umhverfi, þar sem einkabílaeign verður gerbreytt, samgöngumáti almennings breytist og bílar krefjast ekki lengur mennskra ökumanna. Í þessari byltingu er Uber leiðandi, eins og sjá má í bandarísku borginni Pittsburgh. Frá og með 14. september 2016 eru sjálfkeyrandi Uber leigubílar á götum Pittsburgh. Þrátt fyrir að vera fjarri því fullkomnir, þá eru bílarnir stórt skref í átt að stórfelldri fjölgun sjálfkeyrandi bíla á næstu árum.
Heimur Uber
Tímaritið the Economist fjallaði nýlega um sterka stöðu Uber og breytingarnar framundan. Það er mat tímaritsins að í dag búum við í heimi Uber, eða „Uberworld“. Þótt ekkert sé fast í hendi, þá sé fyrirtækið í lykilstöðu, starfrækt í 425 borgum í 72 löndum. Strax í dag ýtir þjónustan undir breyttar ferðavenjur og minnkandi eignarhald á bílum í stórum borgum. Kostnaður við að nota Uber er talinn vera um 1,5 dollarar á hverja keyrða mílu í Bandaríkjunum. Kostnaður við að reka bíl í New York borg er á sama tíma um 3 dollarar á hverja mílu, eða tvöfalt hærri. Það getur því reynst ódýrara að fara allar sínar leiðir með Uber í stað þess að eiga eigin bíl.
Lækkandi kostnaður við að taka leigubíl, sem helst í hendur við bætta tækni og þjónustu á borð við UberPool samhliða hagkvæmni sjálfkeyrandi bíla, mun að öllum líkindum hafa veruleg áhrif á ferðavenjur fólks. Það má spyrja hvers vegna Ísland ætti að standa utan þessara breytinga, eins og verið hefur til þessa. Þeir sem græða á óbreyttri leigubílaþjónustu eru ekki íbúar höfuðborgarsvæðisins né ferðamenn. Íbúar munu að óbreyttu áfram notast við óhagkvæmasta ferðamátann sem einkabíllinn er og fyrirtæki í ferðaþjónustu munu í enn frekari mæli skutla ferðamönnum upp að hóteldyrum eða hvert sem ferðinni er heitið. Ferðaþjónustfyrirtækin sjá hag sinn ekki í að nýta leigubíla í Reykjavík, þeir eru of dýrir. Almennir borgarar hringja í vini og vandamenn og biðja þá um að skutla sér, áður en þeir hringja á leigubíl. Leigubifreiðaleyfishafarnir 560 græða ekki heldur á slíkri stöðu. Allir tapa á núverandi ástandi.
Rétt eins og Netflix hefur bætt þjónustu hefðbundinna sjónvarpsstöðva, þá hefur Uber bætt þjónustu hefðbundinna leigubílafyrirtækja. Hreyfill er nú með sérstakt app til að panta leigubíl. En það er ekki nóg, appið er tæknilega ófullkomnara en Uber og tekur ekki á afturhaldssamri löggjöf. Stjórnvöld eiga að sjá tækifærin í samgöngumálum en ekki standa í vegi fyrir framförum, sem felast í fleiri leyfum og betri tækni með Uber eða sambærilegum fyrirtækjum. Slíkar breytingar myndu styðja verulega við bætt almenningssamgöngukerfi og hagkvæmari ferðavenjur.