„„Í dag er Framsóknarflokkurinn búinn að vera meira og minna í kringum tíu prósentin. Munum það að þegar Sigmundur vék frá og fór í sitt leyfi datt það niður í sex eða sjö prósent en er komið aftur upp.“
Er það þá ekki Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sem hefur byggt það upp aftur?
„Eða að Sigmundur er kominn aftur.““
Þetta hér að ofan voru orðaskipti í föstudagsviðtali Fréttablaðsins síðastliðinn föstudag, á milli Gunnars Braga Sveinssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og blaðamanns. Kjarninn ákvað að kanna hvort sú fullyrðing Gunnars Braga, að fylgi Framsóknarflokksins hafi aukist við endurkomu Sigmundar Davíðs, á við rök að styðjast.
Atburðarásin sem varð til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra náði hámarki í byrjun apríl. Sunnudagskvöldið 3. apríl var sýndur sérstakur Kastljóssþáttur um Panamaskjölin, þar sem greint var frá eignarhaldi Sigmundar Davíðs og Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur á félaginu Wintris. Stærstu mótmæli Íslandssögunnar fylgdu í kjölfar þáttarins og 5. apríl var tilkynnt að Sigmundur Davíð hefði ákveðið að segja af sér forsætisráðherraembættinu. 7. apríl tók síðan ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar við af ríkisstjórn Sigmundar Davíðs. Degi síðar, föstudaginn 8. apríl hélt Sigmundur Davíð sína síðustu ræðu í þinginu.
Það var svo þann 25. júlí sem Sigmundur Davíð sendi bréf á flokksmenn í Framsóknarflokknum og tilkynnti um væntanlega endurkomu sína í stjórnmálin. „Á næstunni mun ég því aftur hefja fulla þáttöku í stjórnmálabaráttunni. Það mun vekja viðbrögð. Látið það ekki slá ykkur út af laginu.“
Fylgi Framsóknar frá uppljóstrunum
MMR og Gallup gera flestar skoðanakannanir á fylgi flokka. Bæði fyrirtæki gerðu kannanir strax fyrstu dagana eftir Panamauppljóstranirnar. Samkvæmt könnunum MMR fór fylgi Framsóknarflokksins úr 12,4% um miðjan mars niður í 8,7% 6.apríl. Fylgið hafði hins vegar strax farið upp í 11,5% í lok apríl og var á milli 9,2 og 11,4 prósent fram í byrjun júlí. Þá tók fylgið dýfu niður í 6,4 prósent, og fór svo upp í 8,3 prósent þann 22. júlí. Það var nokkrum dögum áður en Sigmundur Davíð tilkynnti um endurkomu sína. Eina könnunin sem gerð hefur verið hjá MMR eftir að Sigmundur Davíð steig aftur inn í stjórnmálin var í lok ágúst, og sýndi 10,6% stuðning við Framsóknarflokksins.
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar
Sjá má af þessum fylgiskönnunum að fylgi Framsóknarflokksins minnkaði strax í kjölfar Wintris-málsins en jókst aðeins á nýjan leik eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson tók við. Það hefur svo verið upp og niður, en hvergi er að finna neinar óvenjulegar sveiflur eftir að Sigmundur Davíð snéri aftur í stjórnmálin. Þaðan af síður að fylgið hafi verið fast í 6-7 prósentum en hafi farið upp í 10 prósent stöðug eftir að hann kom aftur.
Það er því niðurstaða Staðreyndavaktarinnar að Gunnar Bragi fari með fleipur.
Ertu með ábendingu fyrir Staðreyndavakt Kjarnans? Sendu hana á stadreyndavaktin@kjarninn.is.