Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það væri rangt að hann eða flokkur hans hefði lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna að Evrópusambandinu í aðdraganda alþingiskosninga 2013. Þetta kom fram í leiðtogaumræðuþætti á RÚV í gærkvöldi.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði þar að sá sem stæði vinstra megin við hann í umræðunum, Bjarni Benediktsson, hafi lofað „rétt fyrir kosningar að Sjálfstæðisflokkurinn muni berjast fyrir því að verði kosið um Evrópusambandsaðild á fyrri hluta kjörtímabilsins. Þetta var svo heilagt loforð að það var sérstaklega tekið fram: Og við það munum við standa.“
Bjarni svaraði: „Þetta er bara rangt að þetta hafi verið helsta loforð okkar. Okkar loforð hefur staðið til þess að halda Íslandi utan Evrópusambandsins[...] Í kjarnann vorum við að segja það að við vorum viljug til að beita þjóðaratkvæðagreiðslum til að höggva á hnúta.“
Kjarninn ákvað að kanna hvort sú fullyrðing Bjarna, að það sé rangt að Sjálfstæðisflokkurinn og hann hafi lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður að Evrópusambandinu - heldur hafi loforðið staðið um að halda Íslandi utan Evrópusambandsins - í aðdraganda síðustu kosninga, eigi við rök að styðjast.
Oddvitar lofa þjóðaratkvæðagreiðslu
Þann 10. mars 2013 mætti Illugi Gunnarsson, annar leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í umræðuþáttinn Silfur Egils. Þar sagðist hann vilja stöðva viðræður um aðild að Evrópusambandinu, en ekki hægja á eða gera hlé á þeim. „Og síðan verði þjóðaratkvæðagreiðsla og þjóðin fái að segja sig hug hvort hún vilji klára þetta eða ekki. Ef það er þannig að þjóðin segir já við því, þá eru allir menn og allir flokkar bundnir af þeirri niðurstöðu.“
17. mars mætti hinn oddviti flokksins í Reykjavík, Hanna Birna Kristjánsdóttir, í Silfur Egils og sagði að sá tímapunktur sem þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræður að Evrópusambandinu ætti að fara fram væri á næsta kjörtímabili. „Að sjálfsögðu mun Sjálfstæðisflokkurinn standa við það að þjóðin fái að ráða hvort það verði gengið lengra í þessu máli. Það er þjóðarinnar en ekki einstakra stjórnmálamanna.“
Í apríl var Ragnheiður Elín Árnadóttir, þáverandi oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, mætt í kosningasjónvarp RÚV og fékk þar spurningu um áframhaldandi viðræður. Þar sagði hún að það sem henni þætti mestu máli skipta „er að þjóðin fái að greiða um það atkvæði hvort að þessu verði haldið áfram eða ekki. Ég treysti þjóðinni til þess að taka upplýsta ákvörðun vegna þess hversu mikið ágreiningsmál þetta er milli flokka, milli þjóðarinnar, milli landsbyggðar og höfuðborgar. Þetta fer í gegnum fjölskyldur. Eina leiðin til þess að komast að niðurstöðu um hvert skuli halda núna er að spyrja þjóðina“.
Enn einn oddvitinn, Kristján Þór Júlíusson úr Norðausturkjördæmi, mætti í kosningasjónvarp Stöðvar 2 18. apríl 2013 og sagði að, líkt og formaður Sjálfstæðisflokksins hefði lýst yfir, „að hann telur að við eigum að bera það undir þjóðina á fyrri hluta kjörtímabilsins hvort við eigum ekki að halda þessu ferli áfram eða ekki.“
23. apríl, í kosningasjónvarpi Stöðvar 2, sagði Illugi síðan að á stórum fundi á Nordica hóteli einhverjum vikum áður, sem 500-600 manns hefðu verið á, þá hafi Bjarni Benediktsson sagt nákvæmlega hvað loforð Sjálfstæðismanna í málinu þýddi. „Það þýddi það að þessum viðræðum verður hætt, það er að segja að við munum ekki halda áfram þessu aðlögunarferli, en síðan, og hann nefndi sérstaklega fyrri hluta kjörtímabilsins, myndi fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Það væri hans skoðun, þannig hef ég alltaf skilið þetta og mér finnst þetta vera býsna skýrt.“
Bjarni lofar þjóðaratkvæðagreiðslu
Bjarni Benediktsson lét ekki sitt eftir liggja við að tjá sig um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Í fréttum Stöðvar 2 í aðdraganda kosninga 2013 sagði Bjarni: „Í Evrópusambandsmálinu þá munum við standa við það sem við höfum ályktað um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla. Hún gæti farið fram á fyrri hluta þessa kjörtímabils til dæmis í tengslum við sveitarstjórnarkosningarnar, en við munum standa við það að hlusta eftir því sem fólkið í landinu vill.“
Þann 23. mars 2013 sagði Bjarni í viðtali við RÚV: „Ég tel að að sé vel raunhæft að gera þetta á fyrri hluta kjörtímabilsins næsta[...]Sjálfstæðisflokkurinn styður að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál.“
Þann 24 apríl 2013, þremur dögum fyrir kosningar, var Bjarni í viðtali við Fréttablaðið. Þar sagði hann: „Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið og greiddi atkvæði gegn umsókn, en við höfum haft það sem hluta af okkar stefnu að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál og við munum standa við það“.
Í kosningasjónvarpi Stöðvar 2 nokkrum dögum fyrir kosningar sagði Bjarni að Sjálfstæðisflokkurinn hefði opnað fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. „Ég tel rétt að stefna að henni á fyrri hluta kjörtímabilsins. Ég er opinn fyrir því að nýta þjóðaratkvæði til þess að leiða fram þjóðarviljann í þessu máli.“
Á fundi VÍB í aðdraganda kosninga 2013 þar sem leiðtogar allra stjórnmálaflokka voru spurði stjórnandi fundarins, fréttamaðurinn Þorbjörn Þórðarson, bæði Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Bjarna hvort að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna yrði haldin, kæmust þeir til valda. Sigmundur Davíð sagði: „Það held ég að hljóti að vera.“
Bjarni sagði að hann hefði margoft tekið það fram að sér þætti „það mjög gott og æskilegt ef hægt yrði að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu á fyrri hluta kjörtímabilsins.“
Þorbjörn sagði þá: „Gott og æskilegt, en ekki að þetta verður gert?“ Sigmundur Davíð svaraði þá til: „en með sveitarstjórnarkosningum, hvernig líst þér á það?“
Þegar Sigmundur Davíð og Bjarni kynntu ríkisstjórnarsamstarf sitt á Laugarvatni að loknum kosningum spurði fréttamaður á staðnum: „Getum við treyst því að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi viðræður?“
Sigmundur Davíð svaraði: „Að sjálfsögðu kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Hægt er að sjá myndband af ofangreindum ummælum hér að neðan:
Niðurstaða Staðreyndarvaktarinnar
Fjórir af þeim sex þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem leiddu kjördæmi flokksins fyrir síðustu kosningar lofuðu því að áframhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu sem nú er að líða. Allir fjórir urðu síðar ráðherrar í þeirri ríkisstjórn sem tók við völdum vorið 2013. Engir fyrirvarar um meirihluta á Alþingi, meirihluta innan ríkisstjórnar eða sýnilegan þjóðarvilja í skoðanakönnunum voru settir fram. Bjarni Benediktsson sagði það oftar en nokkur annar Sjálfstæðismaður að þjóðaratkvæðið myndi fara fram og að flokkur hans myndi standa við það.
Bjarni sagði reyndar líka að Sjálfstæðisflokkurinn myndi hlusta eftir því sem fólkið í landinu vildi.
Fréttablaðið framkvæmdi skoðanakönnun nokkrum dögum fyrir kosningarnar 2013 þar sem spurt var: Hvernig vilt þú að framhaldi aðildarviðræðna við Evrópusambandið verði háttað?
Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 34 prósent vilja draga umsóknina til baka en 55 prósent vildu klára viðræðurnar og leggja samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í janúar 2014 framkvæmdi Maskína skoðanakönnun fyrir samtökin Já Ísland. Niðurstaða hennar var sú að 67,5 prósent þeirra sem tóku afstöðu vildu að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið en 32,5 prósent ekki. Fréttablaðið birti niðurstöðu annarrar slíkrar könnunar í byrjun mars 2014. Samkvæmt henni vildi rúmlega 64 prósent Íslendinga klára viðræðurnar en 36 prósent vildu slíta þeim.
Það er því niðurstaða Staðreyndarvaktarinnar að fullyrðing Bjarna um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu, heldur hafi loforð flokksins verið að standa utan Evrópusambandsins, sé haugalygi.
Ertu með ábendingu fyrir Staðreyndavakt Kjarnans? Sendu hana á stadreyndavaktin@kjarninn.is.
*Þessi staðreyndavakt hefur verið uppfærð þar sem skerpt var á orðalagi í fjórðu málsgrein.