Dönsk stjórnvöld hafa lagt fram áætlun sem miðar að því að auka straum ferðamanna til Danmerkur. Þótt ferðamönnum sem koma til landsins hafi fjölgað á undanförnum árum þykir stjórnvöldum að betur megi gera, sérstaklega á svæðum við hafið.
Áætlun stjórnarinnar „Danmark i vækst - Den nationale strategi for dansk turisme“ var birt fyrir nokkrum dögum. Troels Lund Poulsen ráðherra atvinnumála kynnti áætlunina sem nær til ársins 2025. Ráðherrann sagði að ferðaþjónustan hefði sem betur fer náð sér á strik eftir mikið bakslag í kjölfar bankakreppunnar en fjölgun ferðamanna væri minni en í nágrannalöndunum. Við þessu þurfi að bregðast.
2015 var metár í danskri ferðaþjónustu
Engar áreiðanlegar tölur eru til um þann fjölda ferðamanna sem heimsækir Danmörku á hverju ári. Ástæða þess er að engin skráning af neinu tagi fer fram þegar fólk kemur til landsins, enda leiðirnar margar. Allar tölur um fjölda ferðamanna eru byggðar á upplýsingum gististaða. Gistinætur árið 2015 voru 49.1 milljón, fleiri en nokkru sinni fyrr. Inni í þessari tölu eru Danir sem ferðast um og gista í eigin landi. Markmið stjórnvalda er að árið 2025 verði gistinæturnar 17 milljónum fleiri, sem sé 66.1 milljón. Gangi þetta eftir þýðir það að veltan í danskri ferðaþjónustu verður 140 milljarðar króna, 2411 milljarðar íslenskir.
Þjóðverjar langstærsti hópurinn
Af íbúum einstakra landa, utan Danmerkur, eru Þjóðverjar langfjölmennastir þeirra sem sækja Danmörku heim. Í yfirliti danskra ferðamálasamtaka kemur fram að í meira en helmingi allra gistinótta erlendra gesta í landinu, eða 56%, eiga Þjóðverjar í hlut. Samtals 13.8 milljónir. Norðmenn eru í öðru sæti með 2.6 milljónir gistinótta, 11%. Svíar eru þriðju fjölmennustu þegar litið er til gistinótta, 1.8 milljónir, 7%. Svíum sem ferðuðust til Danmerkur fækkaði reyndar lítils háttar í fyrra, lágt gengi sænsku krónunnar er talin helsta ástæðan. Rétt er að geta þess að inni í þessum tölum eru ekki ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum en fjöldi þeirra fer ört vaxandi, einkum Asíubúa.
Atvinna og tekjur
Ferðaþjónustan er mikilvæg atvinnugrein í Danmörku, rétt eins og í mörgum öðrum löndum. Dönsku ferðamálasamtökin telja að talsvert á annað hundrað þúsund Dana hafi atvinnu sína af ferðaþjónustu, með einum eða öðrum hætti og fari fram sem horfir stækkar sá hópur verulega á næstu árum. Tekjur af ferðamönnum eru taldar hafa numið rúmlega 100 milljörðum króna (um 1730 milljörðum íslenskum) á liðnu ári, samkvæmt yfirliti ferðamálasamtakanna. Ýmsir telja reyndar að tekjur af ferðamönnum séu miklu meiri.
Verðlagið helsta umkvörtunarefnið
Dönsku ferðamálasamtökin kanna reglulega hvað ferðamönnum finnst um land og þjóð. Hvað það er sem þeim líkar best og einnig hvað þeim þykir miður gott hjá Dönum. Ferðamenn eiga iðulega erfitt með að nefna eitt ákveðið atriði þegar spurt er um hið jákvæða. Þeir nefna t.d. samgöngurnar, matinn, afslappað mannlíf, Tívolí, mikið vöruúrval, ekki síst hönnunarvörur, og skemmtanalífið. Hvað hið neikvæða varðar nefna langflestir verðlagið. Það gildir um nánast alla hluti: mat, gistingu, fatnað, hönnunarvörur, eldsneyti, aðgang að Tívolí og Bakkanum svo eitthvað sé nefnt. Sumir nefna líka að iðulega sé afgreiðslufólk í verslunum og þjónustufólk á veitingastöðum stutt í spuna og ekki sérlega viðmótsþýtt. Þýskir ferðamenn nefna iðulega að gæði veitinga séu ekki í samræmi við verðlagið. Þjóðverjarnir sem gjarna leigja sumarhús á Jótlandi, gjarna við ströndina segja að víða sé lítil sem engin þjónusta við þá sem vilja sleikja sólina og liggja á ströndinni. Til dæmis fáir veitingastaðir og barir.
Átak á öllum sviðum
Þegar Troels Lund Poulsen atvinnumálaráðherra kynnti áætlun stjórnarinnar sagði hann að til að fjölga ferðamönnum í Danmörku væri í raun allt undir. Það þyrfti að tryggja að ætíð væri nægilegt gistirými, en sú væri ekki raunin nú, einkum í Kaupmannahöfn og öðrum stórum bæjum. Að mati ráðherrans þarf að verja mun meiri peningum í auglýsingar, „það veltur á stjórnvöldum að bæta þar úr“ sagði ráðherrann. Hann nefndi sérstaklega strandsvæði landsins sem þyrfti að kynna miklu betur en nú er gert. Verðlag á gistingu og mat ræddi ráðherrann sérstaklega og sagði að í áætluninni væri gert ráð fyrir að þeir sem leigja út húsnæði til ferðamanna geti dregið frá skatti hærri upphæð en lögin heimila nú. „þannig myndi verð á gistingu lækka“ sagði ráðherrann. Hann nefndi einnig breytingar á lögum um starfsfólk á veitingastöðum og tiltók sérstaklega að ungmenni, milli fimmtán ára og tvítugs, megi vinna á veitingastöðum í eigu fjölskyldunnar þótt þar sé selt áfengi. Slíkt heimila lögin ekki í dag. Ráðherrann sagði að það hefði komið sér nokkuð á óvart að ferðamenn skyldu kvarta undan durtshætti þjónustufólks á veitingastöðum og starfsfólks í verslunum. „Við teljum okkur ágæt og erum það að mörgu leyti, en við þurfum greinilega að taka okkur á í sumu hvað varðar ferðaþjónustuna. Danir hafa gott orð á sér meðal þjóða heims og því þurfum að fylgja eftir og verða enn betri“.