Stundum er haft á orði að margt sé líkt með Íslendingum og Finnum. Fremur þumbaralegir og þögulir við fyrstu kynni, muldri eitthvað lítt skiljanlegt þegar þeir eru ávarpaðir og engu líkara en að neðri kjálkinn sé frosinn fastur. Að þessu leyti séu þjóðirnar tvær ólíkar frændþjóðunum, Dönum, Norðmönnum og Svíum, að ekki sé minnst á þær þjóðir sem sunnar búa í álfunni. Þetta er þó huglægt mat enda hafa ekki verið gerðar margar samanburðarrannsóknir á þessu sviði. Fas og framkoma þjóða heims eru nú orðin viðfangs- og rannsóknarefni sérfræðinga.
Fyrir mörgum árum var pistlahöfundur á samkundu þar sem tveir menn fluttu ræður um tilgang lífsins. Annar þeirra stóð nánast grafkyrr í pontunni meðan hann flutti mál sitt, hélt fast um ræðupúltið og leit annað veifið yfir áheyrendahópinn. Hinn ræðumaðurinn hélt sig sjaldnast við pontuna, gekk fram og aftur á sviði samkomuhússins meðan hann talaði og notaði hendur og búk til að leggja áherslu á mál sitt. Þegar leið á ræðuna gekk hann svo niður af sviðinu og gekk meðfram áheyrendasætunum og áður en ræðunni var lokið hafði hann farið nokkra hringi í salnum og endaði svo á sviðinu. Þetta var Þórbergur Þórðarson rithöfundur. Ekki man pistlahöfundur, sem var kornungur, margt af því sem sagt var en þeim mun betur eftir látbragði og áhersluhreyfingum rithöfundarins frá Hala í Suðursveit. Man líka að fullorðna fólkið talaði um að Þórbergur væri „bara eins og leikari“.
Mikilvægi tjáningarinnar
Í dag þykir það sjálfsagður hluti almennrar skólagöngu að nemendur fái þjálfun í að tjá sig fyrir framan aðra, nokkuð sem mjög fáir skólar, að minnsta kosti á Íslandi, lögðu rækt við fyrir tiltölulega fáum árum. Að tala ekki tilbreytingarlaust í belg og biðu er mikilvægt og sömuleiðis að nota líkamstjáningu til að leggja áherslu á orð sín og halda athygli viðstaddra.
Fasráðstefnan
Í liðinni viku var haldin í Kaupmannahöfn tveggja daga ráðstefna um líkamstjáningu og fas. Þátttakendur frá fjölmörgum Evrópulöndum sóttu ráðstefnuna sem Hafnarháskóli skipulagði. Við skólann starfa fjórir málvísindasérfræðingar sem rannsaka líkamstjáningu. Að sögn þeirra eru rannsóknir af þessu tagi nýjar af nálinni, ekki séu nema tveir til þrír áratugir síðan þær hófust þótt Grikkir og Rómverjar til forna hafi verið mjög meðvitaðir um gildi handahreyfinga og líkamstjáningar.
Ráðstefnunni í Kaupmannahöfn var ekki ætlað að komast að einhverri tiltekinni niðurstöðu, tilgangurinn var að „bera saman bækur“.
Ólíkar venjur

Líkami og rödd eru verkfæri kennarans og stjórnmálamannsins

Sumt alþjóðlegt, annað ekki
Flestir vita hvað það merkir þegar hnefa er lyft og þumalfingur vísar upp og eins þegar þumallinn vísar niður. Þessi tákn segja dönsku sérfræðingarnir upphaflega komin frá Bandaríkjunum en séu nánast orðin alþjóðleg. Mörg fleiri handatákn má segja að séu alþjóðleg. Bros, undrun og angistarsvipur sömuleiðis.
Danirnir nefna líka dæmi um ýmislegt sem er öðruvísi en við eigum að venjast. Þegar íbúar Laos benda nota þeir ekki hendurnar heldur setja stút á varirnar sem þeir beina svo í áttina. Og þegar Búlgarar hrista höfuðið þýðir það já en kinki þeir kolli merkir það nei. Til er gömul saga af hjónum sem fóru til Búlgaríu og skyldu ekkert í því fyrsta daginn að þjónn á veitingastað, og ekki talaði annað en sitt móðurmál, hristi höfuðið þegar þau bentu á eitthvað á matseðlinum. Þegar þau höfðu bent á hvern réttinn á fætur öðrum setti þjónninn upp (alþjóðlegan) undrunarsvip en áttaði sig svo og gat komið hjónunum í skilning um að allt á seðlinum væri í boði.