Íslamska ríkinu hefur tekist það sem öðrum herskáum hryðjuverkasamtökum hefur aðeins dreymt um á vorum tímum, að ná undir sig landsvæði og borgum og gera þær að sínum. Nú berast aftur á móti fréttir þess efnis að Íslamska ríkið sé að hörfa en það hefur misst í kringum 45.000 vígamenn í Írak og Sýrlandi. Talið er að eftir standi einungis 15 til 20.000 manns og séu þeir menn illa til þess búnir að berjast. Flæði erlendra vígamanna hefur minnkað og þeir sem berjast fyrir samtökin nú þegar gera það að miklu leyti gegn sínum vilja.
Hryðjuverkasamtökin hafa misst mikilvægar borgir eins og Manbij og Kobani í Sýrlandi. Íbúar á svæðinu eru þannig frelsaðir undan kúgun þeirra en þrátt fyrir ósigra Íslamska ríkisins stendur fólki áfram ógn af samtökunum. Viðbrögð samtakanna við þessum ósigrum er að fjölga árásum og að reyna að viðhalda ógninni og hræðslunni. En eru þetta allt teikn um að Íslamska ríkið sé að líða undir lok?
Hlaðvarpið The Inquiry á BBC fjallaði nýlega um hnignun Íslamska ríkisins og velti fyrir sér framtíð hryðjuverkasamtakanna í ljósi ósigra þeirra á árinu. Hver bærinn á fætur öðrum hefur verið leystur undan oki þeirra en fyrir aðeins tveimur árum réðu þeir yfir tíu milljón manns. Nú er áætlað að þeir hafi einungis um helming þess. Í hlaðvarpinu er talað við ýmsa sérfræðinga sem hafa kynnt sér Íslamska ríkið og aðstæður í Mið-Austurlöndum.
Misstu mikið af landi
Íslamska ríkið hefur misst um helming þess landsvæðis sem það hafði yfir að ráða fyrir tveimur árum, sé eyðimörkin talin með. Ástæðan er sú að herjað hefur verið að hryðjuverkasamtökunum úr öllum áttum. Rússar, Tyrkir, Írakar, Sýrlendingar, Kúrdar og Bandaríkjamenn hafa sótt að þeim á landi sem og úr lofti.
En þeir hafa ekki einungis misst landið sjálft, heldur einnig mikilvægar borgir. Borgin Manbij í Sýrlandi er gott dæmi þess. Hún var hertekin af Íslamska ríkinu í janúar 2014 en endurheimt í ágúst á þessu ári. Hún er á landamærum Tyrklands og þess svæðis sem Íslamska ríkið ræður yfir. Þannig hefur það misst mikilvæga lífæð sína inn í Evrópu. Þetta hefur meðal annars þær afleiðingar í för með sér að peningaflæði minnkar og erlendum sjálfboðaliðum fækkar.
Firas Abi-Ali er greinandi hjá samtökunum IHS sem sjá um að kortleggja svæðið sem Íslamska ríkið ræður yfir, sérstaklega í Írak og Sýrlandi. Þau fylgjast með samfélagsmiðlum og fréttum og meta hversu áreiðanleg gögnin eru. Hann segir að með því að stjórna landsvæði og mannfjölda þá opnist á ákveðnar tekjulindir. Það sé hægt að skattleggja fólkið og auðgast á ýmsa vegu í gegnum fjöldann. Það sé hægt að kúga fólkið á mismunandi máta, til dæmis með því að ráða yfir helstu matvælaframleiðslu og stjórna matargjöfum.
Eftir því sem Íslamska ríkið missir landráðasvæði þá minnkar peningaflæðið. IHS hefur reiknað út að hryðjuverkasamtökin hafi misst þriðjung tekna sinna á síðustu tveimur árum. Stór ástæða þess eru loftárásir á samgöngukerfi þeirra og orkugjafa.
Íraski herinn hefur verið öflugur að ná svæðum aftur með hjálp bandamanna. En hvað hefur breyst frá því hermenn þeirra köstuðu frá sér vopnunum og hlupu í burtu skelfingu lostnir fyrir tveimur árum? Abi-Ali telur að lofthernaður Bandaríkjamanna spili þar stórt hlutverk. Í því liggi veikleiki hryðjuverkasamtakanna; þeir ráða ekki við landhernað með lofthernaði. Gott dæmi þess sé borgin Kobani í Sýrlandi. Kúrdar höfðu verið að reyna að ná henni til baka en það gekk ekki fyrr en þeir fengu hjálp úr lofti. Þeir endurheimtu borgina í janúar 2015.
Talið er að ekki líði á löngu þangað til Íslamska ríkið missi tvær mikilvægustu borgir sínar, Mosul í Írak og Al-Raqqah í Sýrlandi. Þannig eru samtökin stutt frá hernaðarlegum ósigri, að mati Abi-Ali. Hann telur að það muni gerast við lok ársins 2017.
Baráttuviljinn fer þverrandi
Sumir telja að með því að eiga í samræðum þá sé hægt að gera sér grein fyrir hvaðan meðlimir Íslamska ríkisins koma og hvað þeim gengur til. Hassan Hassan, rithöfundur og blaðamaður, hefur varið miklum tíma í að tala við meðlimi Íslamska ríkisins á netinu en fyrir honum er þetta persónulegt þar sem fæðingarbær hans var hernuminn af hryðjuverkasamtökunum.
Hassan segist hafa tekið eftir breytingum síðustu tvo mánuði. Vígamennirnir virðast vera að missa baráttuviljann sem einkenndi þá fyrir tveimur árum. Nú þegar Íslamska ríkið sé frá að hverfa þá hverfi vígamenn í samræmi við það. Þúsundir hafi snúið aftur til sinna heima, til Frakklands, Bretlands, Sádi-Arabíu og svo framvegis. Hassan telur einnig að helmingur þeirra sem barist hafa fyrir þá séu dánir.
Bandamönnum fer fækkandi, að sögn Hassad. Hann segir að fólk í Írak og Sýrlandi hafi ekki skilið Íslamska ríkið fyrst þegar það kom fram á sjónarsviðið en að nú ríki meiri skilningur fyrir hvað þeir standi. Hann segir að orðræðan hafi einnig breyst. Fyrst hafi samtökin verið kyndilberi vonar fyrir svæðið eftir misheppnað Arabískt vor. Hann segir að fólk tali um samtökin í dag sem sömu einræðisherra og fyrir voru. Þó sé enn tryggur kjarni fólks sem styður hugmyndafræði samtakanna.
En þrátt fyrir að Íslamska ríkið sé að hörfa þá velta sérfræðingar fyrir sér hvort samtökin geti aðlagað sig aðstæðum og lifað af. Hassan telur að um 10.000 vígamenn séu enn í röðum þeirra og að þeir séu ekki tilbúnir að gefast upp. Þeir telji sig þéttari samtök en áður og óbugandi. Nú séu þeir að undirbúa vígamenn sína andlega fyrir brotthvarf inn í eyðimörkina.
Fleiri árásir
Seth Jones, stjórnmálafræðingur og sérfræðingur í hryðjuverkasamtökum, segir að Íslamska ríkið sé að breytast úr því að ráða yfir miklu landsvæði yfir í að verða enn árásargjarnara. Á árinu 2014 voru í kringum 150 árásir á mánuði en þeim fjölgaði yfir í 250 til 300 ári seinna. Nú á dögum eru allt upp í 400 árásir á mánuði.
Það virðist vera fylgni milli þess að samtökin séu að veikjast og aukinna árása. Jones nefnir tvær ástæður fyrir þessu. Í fyrsta lagi séu samtökin að reyna að láta fara meira fyrir sér til að bæta upp fyrir að þau séu að minnka og í öðru lagi séu þau að ráðast á önnur ríki til að fá þau til að hörfa. Stundum hafi það gagnstæðar afleiðingar en þó ekki alltaf.
Þess vegna má leiða líkur að því að Íslamska ríkið sé að skipuleggja árásir á þær þjóðir sem vinna á móti þeim. Jones telur að frekar sé um að ræða árásir á Evrópu, þar sem fjármunir fari þverrandi hjá samtökunum og auðveldara sé að fara yfir land, frá Sýrlandi, yfir til Tyrklands og þaðan til Evrópu.
En Íslamska ríkið á sér leynivopn, að mati Jones. Hann segir að þeir hvetji hryðjuverkamenn til dáða og treysti þannig á utanaðkomandi aðstoð. Þeir þurfi þar af leiðandi ekki að bera þann kostnað sem hlýst af hryðjuverkunum sem framin eru í þeirra nafni.
Hugmyndafræðin lifir
Í hlaðvarpinu er bent á annað vandamál og tengist það útbreiðslu hryðjuverkasamtakanna í öðrum löndum, til að mynda í Líbíu, Nígeríu, Afganistan, Sádi-Arabíu, Alsír, Egyptalandi og í Evrópu. Og alls staðar eru þau ásótt eða á flótta.
En tíma hugmyndafræðarinnar þarf ekki að vera lokið þrátt fyrir ósigrana undanfarið. Þetta segir Fawaz A. Gerges, prófessor í alþjóðasamskiptum við London School of Economics and Political Science. Hann telur að einnig þurfi að líta til Al-Qaeda en samtökin vilja sýnast skynsamari en Íslamska ríkið. Stuðningsmenn þeirra gætu þess vegna farið yfir til Al-Qaeda eða annarra hryðjuverkasamtaka og með þeim hætti gæti hugmyndafræðin lifað áfram.
En svo mikið er víst að Íslamska ríkið hefur náð undir sig landi með ógnunum og hroðaverkum og markmið þess að verða kalífadæmi hefur ræst að einhverju leyti. En nú þegar samtökin eru á flótta og líkur eru á að þau verði að flýja landlaus inn í eyðimörkina þá er ekki ósennilegt að endalok þeirra séu í nánd. En annað er líka víst; að hugmyndafræðin lifir áfram þrátt fyrir endalok Íslamska ríkisins.