Oft er haft á orði að vika sé langur tími í pólitík. Þetta orðatiltæki á sannarlega við um allt það fjaðrafok sem þyrlast hefur upp í kringum Danska Þjóðarflokkinn að undanförnu. Þótt lengri tími en ein vika sé liðin síðan fyrstu blikur sáust á lofti varðandi málefni tengd flokknum eru einungis nokkrir dagar síðan moldviðrið skall á, ef svo má að orði komast. Moldviðrið tengist fjármálum, einkum meðferð Evrópuþingmanna flokksins á fjármunum sem þeir hafa sótt í sjóði Evrópusambandsins.
Árið 1995 sögðu fjórir þingmenn Framfaraflokksins (sem kenndur var við Mogens Glistrup) sig úr flokknum, þar sem allt logaði í illdeilum, og stofnuðu nýjan flokk, Danska Þjóðarflokkinn. Meðal þessara þingmanna voru Pia Kjærsgaard, sem varð formaður hins nýja flokks, og Kristian Thulesen Dahl sem tók sæti í flokksstjórninni. Danski þjóðarflokkurinn bauð fyrst fram til þings árið 1998 og fékk þá 13 þingmenn af þeim 179 sem sæti eiga á danska þinginu, Folketinget. Pia Kjærsgaard, sem nú er forseti þingsins, gegndi formennsku í flokknum til ársins 2012 en þá tók áðurnefndur Kristian Thulesen Dahl við formennskunni. Fylgi flokksins jókst mjög í kjölfar formannsskiptanna og í þingkosningum 2015 fékk Danski Þjóðarflokkurinn 37 þingmenn og er næst fjölmennasti flokkurinn á danska þinginu. Sósíaldemókratar eru fjölmennastir, hafa 46 þingmenn, stjórnarflokkurinn Venstre er með 34 þingmenn. Danski Þjóðarflokkurinn hefur fram til þessa ekki viljað taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi en styður núverandi stjórn, ásamt tveimur öðrum flokkum. Flokkurinn er fylgjandi ströngum reglum um innflytjendur, lætur sig miklu varða málefni aldraðra og þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu og er mjög gagnrýninn á Evrópusambandssamstarfið.
Morten Messerschmidt
Í kosningunum til Evrópuþingsins árið 2014 fékk fulltrúi Danska Þjóðarflokksins Morten Messerschmidt tæplega fimm hundruð þúsund atkvæði. Enginn þingmaður hafði áður fengið svo mörg atkvæði í slíkum kosningum en hann hafði setið á Evrópuþinginu síðan árið 2004. Morten Messerschmit hefur af mörgum verið talinn ein skærasta stjarna Danska Þjóðarflokksins, og iðulega nefndur sem næsti formaður flokksins. Það hefur stundum gustað um Morten Messerschmith og árið 2007 sló dagblaðið BT því upp á forsíðu að hann hefði, ölvaður á veitingastað í Tívolí, hyllt Adolf Hitler og sungið nasistasöngva. Morten Messerschmidt sagði að hann hefði vissulega verið við skál og hann hefði sungið fyrsta erindið af „Lied der Deutchen“ (þriðja erindið er þjóðsöngur Þjóðverja) en neitaði að hafa hyllt Hitler. Morten Messerschmidt stefndi blaðinu og vann málið.
ESB sjóðirnir og Morten Messerschmidt
Í október 2015 tilkynnti Evrópuþingmaðurinn Rikke Karlsson úrsögn sína úr Danska Þjóðarflokknum. Ástæðuna sagði hún vera þá að hún hefði ekki, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, fengið að sjá bókhald sjóðs, sem nefndist FELD og félags að nafni MELD. Hún hefði þó verið skráð sem stjórnarmaður í báðum, reyndar án þess að hún hefði nokkru sinni verið spurð hvort hún vildi sitja í þessum tveim stjórnum. Rikke Karlsson sagði að fjármunir sem bæði FELD og MELD hefðu fengið frá Evrópusambandinu hefðu eingöngu verið notaðir í þágu Danska þjóðarflokksins. MELD er skammstöfun samtaka félaga úr ólíkum flokkum og Evrópuþingmönnum ESB landa. Slík samtök geta fengið styrki til starfseminnar frá ESB. FELD er sjóður sem tengist tilteknum flokki eða samtökum (í þessu tilviki MELD) og úthlutar fjármunum til að rannsaka, skilgreina og taka þátt í stjórnmálaumræðu og halda námskeið og ráðstefnur.
Rikke Karlsson fullyrti að fjármunum sem MELD og FELD hefðu fengið frá ESB um árabil hefði öllum verið varið í sumarþing og fleiri samkomur og ráðstefnur á vegum Danska Þjóðarflokksins án þess að nokkrir aðrir tækju þar þátt. Að nota fjármuni frá Evrópusambandinu með þessum hætti er algjörlega bannað. Morten Messerschmidt hafnaði þessum ásökunum en neitaði jafnframt að leggja fram nokkur gögn vegna málsins. Málið hafði hins vegar þegar þarna var komið ratað inn á borð rannsóknarstofnunar Evrópusambandsins (OLAF) og niðurstaða þeirrar rannsóknar var sú að reglum hefði ekki verið fylgt og þess krafist að styrkirnir yrðu endurgreiddir. Morten Messerschmidt neitaði sem fyrr að nokkuð ólöglegt hefði átt sér stað en 9. maí á þessu ári krafðist ESB að MELD og FELD myndu endurgreiða tæplega þrjár milljónir danskra króna. 18. ágúst sl. birti Ekstra blaðið gögn sem sýndu fram á að Rikke Karlsson hefði verið kjörin í stjórn MELD og FELD án þess að hún hefði vitað af því og án hennar samþykkis. Rikke Karlsson kærði í framhaldinu Morten Messerschmidt sem í lok ágúst lét af formennsku í Evrópuþingflokki Danska Þjóðarflokksins.
Fleira kemur í ljós
Fyrir viku síðan greindi fréttastofa danska sjónvarpsins, DR, frá því að fjárstyrkur frá Evrópusambandinu hefði verið notaður til að fjármagna sumarferðalag og fundi Danska Þjóðarflokksins. Upphæðin var 200 þúsund krónur danskar. Fréttastofan komst yfir gögn sem sýndu að styrkumsóknin stangaðist á við raunveruleikann og styrkurinn því veittur á fölskum forsendum. Daginn eftir að fréttastofa DR greindi frá þessu endurgreiddi Danski þjóðarflokkurinn 300 þúsund krónur til ESB, hærri upphæð en DR hafði nefnt. Skýringin kom hins vegar fljótlega í ljós. Danski þjóðarflokkurinn hafði nefnilega fengið 100 þúsund króna styrk til kynningarferðar í höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel. Ekki tókst þó betur til með skipulag ferðarinnar en svo að þegar til Brussel var komið var svokölluð fríhelgi hjá starfsfólki ESB og allt lokað og læst. Hópurinn frá Danmörku varð því láta sér nægja að skoða húsakost Evrópusambandsins, að utan. Danskir fjölmiðlar gerðu óspart grín að þessu ferðalagi.
Formaðurinn þögull
Dönskum fjölmiðlum hefur gengið illa að fá Kristian Thulesen Dahl formann Danska þjóðarflokksins til að tjá sig um allt þetta mál. Hann er þó ekki vanur að láta ganga á eftir sér þegar fjölmiðlar leita viðbragða hans en miðlarnir túlka tjáningarstíflu hans (eins og Politiken orðaði það) sem merki um að formaðurinn eigi í mestu vandræðum vegna málsins og viti ekki alveg hvernig við skuli brugðist. Fyrir nokkrum dögum var tilkynnt að Morten Messerschmidt hefði verið vikið úr flokksstjórninni, sú ákvörðun segir kannski meira en mörg orð. Framtíð hans er, þessa stundina, mjög óljós en danskir fréttaskýrendur segja hann hafa eyðilagt möguleika sína sem framtíðarleiðtoga flokksins. Forsíðufyrirsögn Ekstrablaðsins sl. föstudag var: MESSERSKIDT.
Endurgreiðir milljónir
Síðastliðinn föstudag (21.október) sendi Danski þjóðarflokkurinn frá sér tilkynningu þar sem fram kom að flokkurinn myndi endurgreiða Evrópusambandinu tæplega eina milljón danskra króna og þar með hefði flokkurinn endurgreitt alla fjármuni sem hann hefði fengið frá ESB á liðnum árum. Þessi endurgreiðsla kæmi til viðbótar þeim peningum sem flokkurinn hafði þegar borgað til baka. Ekki reyndist þetta þó öll upphæðin því í gær (laugardag) tilkynnti flokksstjórnin að alls myndi flokkurinn endurgreiða 2.6 milljónir króna (44 milljónir íslenskar). Rannsóknarstofnun ESB (OLAF) heldur hinsvegar áfram sinni rannsókn sem búist er við að taki nokkra mánuði.
Skaðar Danska þjóðarflokkinn
Danski þjóðarflokkurinn hefur til skamms tíma komið vel út úr skoðanakönnunum. Ný könnun sýnir að allt umrótið í kringum Morten Messerschmidt mælist ekki vel fyrir meðal kjósenda, að minnsta kosti þessa dagana og fylgið hefur dalað. Talsmenn flokksins hafa lengi látið að því liggja að flokkurinn myndi ekki leggjast gegn kosningum á næstu mánuðum ef mál æxluðust með þeim hætti en Frjálsræðisbandalagið, Liberal Alliance, hefur ítrekað hótað að fella stjórnina vegna ágreinings um skattamál. Líklegt verður að telja að Danski þjóðarflokkurinn hafi, eins og málum er nú háttað, takmarkaðar áhyggjur af því þótt ekki verði kosið í bráð.