Björt framtíð er eini stjórnmálaflokkurinn með fulltrúa á Alþingi sem hefur tekið sérstaka ákvörðun um að taka ekki við styrkjum frá fyrirtækjum, samkvæmt upplýsingum Kjarnans.
Í síðustu viku voru upplýsingar úr ársreikningum flokkanna birtar, og í ljós kom að þrír af þeim sex stjórnmálaflokkum sem hafa átt sæti á Alþingi fengu engin framlög frá fyrirtækjum í fyrra. Það voru Píratar, Vinstri-græn og Björt framtíð. Kjarninn leitaði upplýsinga um það hvernig þessir flokkar hafa hagað þessum málum í ár, á kosningarári. Aðrir flokkar sem munu líklega ná inn á þing hafa tekið við framlögum frá fyrirtækjum.
Björt framtíð tók meðvitaða ákvörðun um að sækjast ekki eftir styrkjum frá lögaðilum árið 2015, segir Unnsteinn Jóhannsson, upplýsingafulltrúi flokksins. „Stjórn Bjartrar framtíðar kaus svo um málið í ár, að frumkvæði stjórnar og tekin var endanleg ákvörðun um það á Ársfundi Bjartrar framtíðar að halda þeirri stefnu til streitu. Björt framtíð hefur hafnað þeim styrkjum sem boðist hafa að frumkvæði fyrirtækja í ár,“ segir hann í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Fyrirtækjum beint á Karolina Fund
Píratar hafa farið óhefðbundna leið til að fjármagna sína kosningabaráttu, og leituðu á náðir hópfjármögnunarsíðunnar Karolina Fund. Þar hefur ríflega 4 milljónum verið safnað. Tólf lögaðilar hafa styrkt flokkinn í gegnum Karolina Fund. Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, segir að lögð hafi verið áhersla á það að sækja ekki styrki til fyrirtæki, og þau fyrirtæki sem vilji styrkja flokkinn geri það í gegnum hópfjármögnunina. „Með því að forðast beina styrki frá fyrirtækjum er hægt að koma í veg fyrir að óeðlilegt hagsmunasamband, eða vinatengsl, myndist á milli flokksins og fyrirtækisins,“ segir hún í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Fjáröflun mikilvæg á kosningaári
Vinstri-græn eru þriðji flokkurinn sem ekki fékk nein framlög frá fyrirtækjum í fyrra, en Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri flokksins, segir að á þessu ári hafi flokkurinn óskað eftir styrkjum frá fyrirtækjum og víða verið vel tekið. „Meiri áhersla er lögð á fjáröflun á kosningaári, en í annan tíma og það kann að skýra hversvegna ekki bárust nein framlög frá lögaðilum í fyrra.“
Hún segir að Vinstri-græn hafi líka nýtt ýmsar óhefðbundnar aðferðir í fjáröflun. „Við erum með listaverkauppboð og happdrætti. Í bæði listaverkin og vinningarnir í happdrættinu, byggjast á framlögum listamanna og þeirra sem gefa vinningana. En vinningarnir fela oftast í sér kynningu á fólki og stöðum sem tengjast VG á einhvern hátt, t.d. er einn vinningur vika í Þistilfirði í sumarbústað fjölskyldu Steingríms,“ segir Björg Eva meðal annars í svari við fyrirspurn Kjarnans. Listaverk eftir Ragnar Kjartansson er stærsti vinningurinn í kosningahappdrætti VG, „en verðmæti þess vinnings er aðeins of hátt, því það fer yfir 400 þúsund króna markið og því mun VG þurfa að borga Ragnari til baka 20 þúsund, svo hann sé ekki kominn yfir það hámark sem flokkarnir mega taka við frá sama aðila,“ segir Björg Eva. Langflestir styrkirnir til flokksins séu þó komnir frá einstaklingum, auk þess sem allir kjörnir fulltrúar og starfsmenn leggja mánaðarlega til flokksins hluta af launum sínum samkvæmt tíundarkerfi.