Fimmtudaginn 20. október kom kosningaeftirlitsstofnun landsins – sem talin er vera undir beinum áhrifum stjórnvalda – í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um „endurkall“ Nicolas Maduro úr embætti forseta. Það hefur í för með sér að Maduro verði líklega við völdin út þetta kjörtímabil sem endar 2019 nema hann segi af sér því ekki eru til fleiri löglegar leiðir fyrir stjórnarandstöðuna samkvæmt stjórnarskránni til að víkja honum úr embætti.
Eftir því sem þjóðaratkvæðagreiðsluleiðin er nú útilokuð verða stjórnarandstæðingar að fá útrás fyrir óánægju sinni með öðrum hætti sem gerir það að verkum að framtíð landsins er mjög óljós. Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun telja 90% Venesúelubúa landið stefna í ranga átt og 76% vilja sjá Maduro víkja úr embætti. Pólitísk krísa landsins í dag á rætur sínar að rekja til síðustu ára valdatíðar Hugo Chávez og misheppnaðra efnahagsstefna fyrsta áratug stjórnartíð hans.
Chavísmi
Þegar Hugo Chávez lést úr hjartaáfalli í mars 2013 einungis 58 ára gamall hafði hann sem forseti landsins leitt það í gegnum bólivarianska byltingu – kennda við hetju sjálfstæðisbaráttu Venesúela Simón Bolívar – í þeim skilningi að tilkoma Chávez til valda árið 1999 og innleiðing nýrrar stjórnarskrár (sem talin er vera ein af umfangsmestu, metnaðarfyllstu og flóknustu stjórnarskrám í veröldinni) markaði stofnun fimmta lýðveldi Venesúela og samkvæmt því var heiti landsins breytt í República Bolivariana de Venezuela.
Bylting Chávez, sem var að eigin sögn marxisti, einkenndist af umfangsmiklum vinstrisinnuðum umbótastefnum innan heilbrigiðis-, mennta-, og félagsmálakerfisins sem fjármagnaðar voru af stórauknum olíuauð landsins í kjölfar þjóðvæðingar fjölmargra olíusvæða sem höfðu verið í eigu alþjóðafyrirtækja. Um miðbik fyrsta áratugs þessarar aldar var Venesúela á mikilli siglingu enda hafði auðlindastefna Chávez hafði gert efnahag landsins háð háu olíuverði en heimsmarkaðsverð á olíu náði sögulegu hámarki sumarið 2008. Landið skoraði hærra en áður á vísitölum um læsi, jöfnuð og almenn lífsgæði undir lok valdatíðar Chávez og til að sýna umheiminum velgengni byltingarinnar tók Chávez upp á ýmsum almannatengslabrellum á borð við að selja olíu til húskyndingar á niðurgreiddu verði til fátækrahverfa í New York.
Hollenska veikin
Þegar heimsmarkaðsverð á olíu tók að falla á árunum eftir heimskreppuna 2008 kom greinilega í ljós að hagkerfi Venesúela þjáðist af „Hollensku veikinni“ svokölluðu; hagfræðileg klemma þar sem skyndilegri og hraðri aukningu í auði lands vegna útflutnings á einni afurð, sem má rekja til vaxandi heimsmarkaðsverðs eða uppgötvun nýrra auðlinda, er eytt um leið í opinber útgjöld samhliða því að engin áhersla er lögð á að nýta ávinninginn í að styrkja aðra geira atvinnulífsins. Þegar ávinningnum er að mestu leyti eytt vegna pólitísks þrýstings frekar en að vera settur í sjóð, eins og gerðist í Venesúela, verður landið berskjaldað þegar óumflýjanlegar breytingar á heimsmarkaðsverðinu koma til. Árangur byggður á stuttlífu góðæri auðlindaávinningsins á það til að þurrkast út vegna verðbólgu og vöruskorts, en „Hollenska veikin“ hefur farið sérstaklega illa með auðlindarík þróunarríki þar sem pólitískur þrýstingur til að draga úr fátækt í landinu er meiri en í ríkari löndum (eins og t.d. Noregur) þar sem auðveldara er að skipuleggja til lengri tíma.
Þegar Nicolás Maduro, utanríkisráðherra í ríkisstjórn Hugo Chávez á árunum 2006-2013 og varaforseti frá árinu 2012, rétt hafði umdeildan sigur á Enrique Capriles, sem enn er leiðtogi stjórnarandstöðunnar, í forsetakosningum stuttu eftir dauða Chávez var efnahagsástand landsins þegar farið að versna umtalsvert. Gengi Bólivarsins (gjaldmiðill landsins) hafði þá fallið um 32% á skömmum tíma, verðbólga nam um 30%, og fjárlagahalli ríkissjóðs nam um 8.5% af vergri landsframleiðslu þrátt fyrir að heimsmarkaðsverð á olíu lægi á um 100 bandaríkjadali per tunna.
Fátæki olíurisinn
Þrátt fyrir að búa yfir mestu olíuauðlindum í heimi – samkvæmt OPEC er Venesúela talið hafa hátt í þrjú hundruð milljarða tunnur af olíu í jörðinni, rúmum þrjátíu milljörðum fleiri en Sádí-Arabía sem er í öðru sæti – hefur Venesúela sokkið í djúpa kreppu. Verðbólga á þessu ári er um 700% og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) spáir 10% samdrætti í hagkerfi landsins á þessu ári. Olíuverð nemur um 50 Bandaríkjadali per tunna og vegna þess hversu hlutfallslega dýrt það er að nýta stóran hluta olíuauðlinda landsins er ekki hægt að auka framleiðslu til að bæta efnahagsstöðuna.
Vöruskortur er mikill; Venesúelubúar eyða að meðaltali 35 klst. á mánuði í biðröðum eftir mati og nauðsynjavörum, og heilbrigðiskerfi landsins er í molum. Þá hefur höfuðborg landsins, Caracas, hlotið þann vafasama heiður að yfirtaka fyrsta sætið sem ofbeldisfyllsta borg í heimi. Fjöldi og ítök glæpagengja í landinu hefur stóraukist en Maduro hefur kennt samsæri Bandaríkjanna og stjórnarandstöðunnar um ófriðinn.
Stjórnarandstaðan bar stórsigur í þingkosningum sem fram fóru í desember 2015 og hefur „ofurmeirihluta“ í þinginu, þ.e. yfir 2/3 þingmanna, og ljóst virðist vera andstaða við stjórnvöld hefur ekki minnkað síðan þá. Þó er óljóst hvernig stjórnarandstaðan og Maduro geti best umborið hvort annað til þess að komast hjá að ástandið versni í landinu. Einræðistaktar Maduro eru ekki traustvekjandi en hins vegar er heldur ekki uppbyggilegt af stjórnarandstöðu landsins að hamra á afsögn hans og engu öðru – það er langt frá öruggt að eftirmaður Maduro ekki verði annar „Chavísti“.