Flokkarnir sem vilja mynda stjórn samansetta af sömu flokkum og stýra Reykjavíkurborg mælast með samtals með 49,6 prósent fylgi, sem gæti dugað þeim til að mynda mjög nauma meirihlutastjórn eftir kosningar.
Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn stefna í að fá verstu kosningu sína í alþingiskosningum frá því að flokkarnir voru stofnaðir. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkur landsins og fátt virðist geta ógnað þeirri stöðu. Hann mælist hins vegar með fylgi sem er rétt við verstu niðurstöðu hans í sögunni. Þetta er niðurstaða nýjustu Kosningaspár Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar sem hefur nú verið uppfærð eftir birtingu þriggja nýrra kannana frá því í gærkvöldi. Nú á einungis eftir að birta eina skoðanakönnun fyrir kosningarnar sem fram fara á morgun, könnun Gallup sem birt verður í kvöld.
Miðað við stöðuna eins og hún teiknast nú upp eru söguleg tíðindi í kortunum í íslenskum stjórnmálum. Fjórflokkurinn svokallaði, hið hefðbundna bakbein þeirra áratugum saman sem vanalega hafa tekið til sín allt að 90 prósent atkvæða, mælast samanlagt með 57,1 prósent fylgi. Þrír flokkar sem stofnaðir hafa verið frá árinu 2012 mælast á sama tíma með 37,3 prósent samanlagt fylgi. Allt stefnir í að sjö flokkar muni eiga fulltrúa á Alþingi að loknum kosningum og að þrjá til fjóra flokka þurfi hið minnsta til að mynda nýja ríkisstjórn.
Þótt margt sé óljóst um hvað niðurstöður kosninganna munu þýða þá er eitt á hreinu; sitjandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er kolfallinn.
Sjálfstæðisflokkur stærstur en Samfylking berst fyrir tilveru sinni
Sjálfstæðisflokkurinn verður áfram stærsti flokkur landsins samkvæmt Kosningaspánni og sækir lítillega í sig veðrið á lokametrum kosningabaráttunnar. Hann mælist nú með 24,1 prósent fylgi. Fylgið mælist því 0,2 prósent meira en í verstu kosningum flokksins frá upphafi, sem voru haldnar árið 2009. Þá fékk hann 23,7 prósent atkvæða. Munurinn er þó vel innan skekkjumarka.
Flokkurinn er þó töluvert frá því fylgi sem hann fékk í kosningunum 2013 þegar hann fékk 26,7 prósent.
Vandræði Samfylkingarinnar virðast engan endi ætla að taka. Í Kosningaspá sem birt var í gær kom fram að flokkurinn væri að mælast það minnsta í Kosningsspánni frá því að hún hófst í byrjun þessa árs. Þá var fylgið 6,8 prósent. Síðan að sú spá birtist hafa tvær nýjar kannanir birst, önnur gerð af fréttastofu 365 miðla og hin af Félagsvísindastofnun fyrir Morgunblaðið. Þær kannanir voru Samfylkingunni ekki hliðhollar og ný Kosningaspá sýnir fylgi flokksins í 6,2 prósentum, sem er nýr botn. Framan af ári var fylgi flokksins nær alltaf yfir átta prósent samkvæmt mælingum. Haldi sú fylgishnignun sem Samfylkingin er að ganga í gegnum áfram næstu klukkutímanna er raunveruleg hætta á því að flokkurinn nái ekki inn þingmanni í kosningunum á morgun.
Björt framtíð er að festa sig í sessi sem stærri flokkur en Samfylkingin sem stendur flokknum ansi nærri í hinu pólitíska litrofi, þótt ekki megi miklu muna á fylgi þeirra. Björt framtíð mælist nú með sjö prósent fylgi og virðist vera að fiska ágætlega í frjálslyndu jafnaðarmannatjörninni.
Píratar finna stöðugleika
Píratar missa aðeins milli daga og mælast nú með 19,9 prósent. Flokkurinn hefur verið að mælast nokkuð stöðugt með um og yfir 20 prósent fylgi allan októbermánuð og virðist ekki ætla að líða neitt fyrir það útspil sitt að standa fyrir óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum við hina stjórnarandstöðuflokkanna fyrir kosningar.
Það virðast Vinstri grænir heldur ekki ætla að gera. Fylgi flokksins er nú 16,5 prósent, og verður það að teljast mikill sigur fyrir flokk sem mældist næstum utan þings nokkrum vikum fyrir kosningarnar 2013, og vann svokallaðan tilverusigur í þeim kosningum.
Ný könnun sem Stundin greindi frá í gærkvöldi, og Gallup gerði fyrir auglýsingastofu sem vinnur fyrir Vinstri græna, sýndi að 40 prósent landsmanna vilja Katrínu Jakobsdóttur, formann flokksins, sem næsta forsætisráðherra. Hún bar höfuð og herðar yfir aðra sem nefndir voru í könnuninni. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kom næstur með 26,5 prósent.
Viðreisn getur verið sátt en Framsókn horfir fram á afhroð
Samkvæmt Kosningaspánni fá tveir flokkar um tíu prósent atkvæða, verði þetta niðurstaða kosninganna á morgun. Sá stærri verður Viðreisn sem mælist með 10,4 prósent fylgi. Flokkinn mun vanta 0,5 prósent til að ná titlinum um að vera stærsti nýi flokkur sögunnar af Borgaraflokknum, sem fékk 10,9 prósent í kosningunum 1987. Verði þetta niðurstaðan má Viðreisn vel við una og gæti verið í lykilstöðu í myndun næstu ríkisstjórnar nái núverandi stjórnarandstöðuflokkar ekki meirihluta.
Um kosningaspána
Nýjasta kosningaspáin tekur mið af fjórum nýjustu könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi framboða í alþingiskosningunum í haust. Í spálíkaninu eru allar kannanir vegnar eftir fyrir fram ákveðnum atriðum. Þar vega þyngst atriði eins og stærð úrtaks, svarhlutfall, lengd könnunartímabils og sögulegur áreiðanleiki könnunaraðila. Í kosningaspánni 16. september er það næst nýjasta könnunin sem hefur mest vægi. Helgast það aðallega af lengd könnunartímabilsins og fjölda svarenda í könnuninni, miðað við hinar tvær sem vegnar eru. Kannanirnar sem kosningaspáin tekur mið af eru:
Kannanir í nýjustu kosningaspá fyrir alþingiskosningar (28. október):
Skoðanakannanir MMR 19. – 26. og 26. – 28. október (34.0%)
Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 20. – 27. október (37,8%)
Skoðanakönnun Fréttablaðsins 25. – 26. október (28,2%)
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.