Síðan á fjórða tug seinustu aldar hafa fjögur öfl verið ráðandi í íslenskum stjórnmálum, hinn svokallaði fjórflokkur. Það eru hægri sinnaður borgaraflokkur (Sjálfstæðisflokkurinn), miðjusinnaður bændaflokkur (Framsóknarflokkurinn), vinstrisinnaður krataflokkur (Alþýðuflokkurinn, Samfylkingin) og vinstri/sósíalískur flokkur (Kommúnistaflokkur Íslands, Sósíalistaflokkurinn, Alþýðubandalagið, Vinstri Grænir).
Flokkarnir hafa þó fengið samkeppni frá klofningsframboðum og sjálfsprottnum flokkum í gegnum tíðina og þá sérstaklega oft á seinustu áratugum. Í seinustu þingkosningum fékk fjórflokkurinn aðeins 75% fylgi sem er það lægsta sem hann hefur fengið á lýðveldistímanum. Nú lítur út fyrir að það met verið slegið rækilega. Lítum á þá 10 flokka sem hafa ögrað fjórflokknum hvað mest í gegnum tíðina.
10. Bandalag jafnaðarmanna
Vilmundur Gylfason kom eins og þrumufleygur inn í Alþýðuflokkinn á seinni hluta áttunda áratugarins. Hann var róttækur og gagnrýninn á allt stjórnkerfið, þá sérstaklega stjórnmálaflokkana og spillinguna í kringum þá. Hann undanskildi ekki sinn eigin flokk í þeim efnum. Hann gagnrýndi einnig verkalýðsforystuna, t.d. í gegnum Alþýðublaðið sem hann ritstýrði um stund. Þá lenti hann í hörðum deilum við Kjartan Jóhannsson formann flokksins fyrir opnum tjöldum sem lyktaði með því að Vilmundur sagði sig úr Alþýðuflokknum og stofnaði Bandalag jafnaðarmanna fyrir kosningarnar 1983. Bandalagið beitti sér fyrir ýmsum málum sem þóttu óhefðbundin á þessum tíma, t.d. réttindum samkynhneigðra og tölvuvæðinguréttindum samkynhneigðra og tölvuvæðingu. Flokkurinn fékk 7,3% og 4 þingmenn á meðan Alþýðuflokkurinn missti 4. Vilmundur lést tæpum tveimur mánuðum eftir kosningar og tók aldrei sæti. Þingflokkurinn tvístraðist á kjörtímabilinu þar sem flestir fóru aftur inn í Alþýðuflokkinn.
9. Borgarahreyfingin – þjóðin á þing
Þingkosningarnar 2009 voru þær fyrstu eftir bankahrunið. Það bitnaði þó ekki á fjórflokknum sem bætti við sig hálfu prósentustigi frá 2007 (89,5% í 90%). Eina stjórnmálaaflið sem náði inn utan fjórflokksins var hin nýstofnaða Borgarahreyfing. Frambjóðendurnir komu nýjir inn í stjórnmálin og með nýjar áherslur. Meðal stefnumála voru ný stjórnarskrá, persónukjör, afnám verðtryggingar, virkara lýðræði og fleiri kerfisumbætur. Þá var skipulag Borgarahreyfingarinnar flatt og enginn hafði stöðu formanns. Flokknum gekk mun betur í kosningunum en búist var við, fengu 7,2% og 4 menn kjörna. En strax um haustið klofnaði flokkurinn eftir harðvítugar og opinskáar deilur. Þrír þingmenn mynduðu Hreyfinguna en einn sat utan flokka (og gekk svo í Vinstri Græna). Allir þingmennirnir fóru sína leið eftir kjörtímabilið. Einn þingmaðurinn, Margrét Tryggvadóttir sagði síðar að flokkurinn hefði verið dauðadæmdur frá upphafi. Ekki hafi verið vandað til stofnun hans, tíminn of naumur og allt reiðasta fólk landsins þar samankomið.
8. Þjóðvaki
„Minn tími mun koma!“ er sennilega þekktasta setning úr íslenskum stjórnmálum fyrr og síðar. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir á flokksþingi Alþýðuflokksins árið 1994 eftir að hún hafði lotið í lægra haldi fyrir Jóni Baldvini Hannibalssyni í formannsslag. Jóhanna hafði setið á þingi fyrir Alþýðuflokkinn síðan 1978, verið varaformaður síðan 1984 og ráðherra síðan 1987. Töluvert ósætti hafði ríkt milli hennar og Jóns Baldvins og endaði það með klofningi og stofnun Þjóðvaka árið 1994. Þjóðvaki var ekki róttækur flokkur og ekki málefnalega óskyldur Alþýðuflokknum. Takmark Jóhönnu var að gera Þjóðvaka að breiðfylkingu jafnaðarmanna og horfði hún til R-Listans í Reykjavík í því sambandií því sambandi. Í Þjóðvaka var því fólk úr öllum vinstri flokkunum og Framsóknarflokknum. Þjóðvaki græddi líka á því að mikil illindi höfðu ríkt bæði innan Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins. Flokkurinn flaug hátt í könnunum en lenti harkalega á kjördag árið 1995 og hlaut að lokum 7,2% og 4 þingmenn. Þremur árum seinna gekk Þjóðvaki inn í Samfylkinguna.
7. Þjóðvarnarflokkurinn
Herstöðvarmálið og Atlantshafsbandalagið voru heitustu deilumál eftirstríðsáranna. Þjóðvarnarflokkurinn var stofnaður beinlínis vegna þessa, þ.e. helstu stefnumálin voru Ísland úr NATO og herinn burt! Þetta var þjóðernissinnað og vinstrisinnað afl. Þeir beittu sér t.a.m. fyrir íslenski þjóðmenningu en gegn erlendum áhrifum s.s. Kanasjónvarpinu. Stór hluti flokksins kom úr Þjóðvarnarfélaginu (1946-1951) sem séra Sigurbjörn Einarsson, síðar biskup, var í forsvari fyrir. Flokkurinn bauð fram árið 1953, fékk 6% fylgi og 2 þingmenn kjörna. Í þessum kosningum missti allur fjórflokkurinn fylgi. Margir hafa litið á Þjóðvarnarflokkinn sem klofning úr Sósíalistaflokknum en flokkurinn átti þó marga stuðningsmenn úr röðum Alþýðuflokksmanna og Framsóknarmanna. Þjóðvarnarflokkurinn bauð fram í þrennum þingkosningum til viðbótar en náði þá ekki inn manni. Þá höfðu Sósíalistar skerpt á andstöðunni gegn hernum. Báðir flokkar runnu svo inn í Alþýðubandalagið á sjöunda áratugnum.
6. Borgaraflokkurinn
Í þingkosningunum árið 1987 galt fjórflokkurinn afhroð og fékk samanlagt einungis um 75% fylgi. Stærstan bita tók Borgaraflokkurinn, eða tæp 11% og 7 þingmenn. Borgaraflokkurinn var stofnaður af Alberti Guðmundssyni eftir að hann neyddist til að segja af sér ráðherraembætti vegna Hafskipsmálsins. Flokksmenn tóku sér stöðu á hægri vængnum gegn Sjálfstæðisflokknum og nýfrjálshyggjunni. Borgaraflokkurinn var íhaldsflokkur af gamla skólanum þar sem reynt var að höfða sérstaklega til eldra fólks m.a. með áherslum á kristin gildi. Flokkurinn setti sig t.a.m. upp á móti fóstureyðingum. Albert sjálfur sat ekki nema í tvö ár á þingi fyrir Borgaraflokkinn, þá var hann gerður að sendiherra. Þegar Júlíus Sólnes tók við forystunni gekk flokkurinn inn í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Við það klofnaði flokkurinn og tveir þingmenn, þ.m.t. Ingi Björn sonur Alberts Guðmundssonar, gegnu til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Borgaraflokkurinn bauð ekki fram aftur.
5.Píratar
Í kosningunum árið 2013 fékk fjórflokkurinn tæplega 75% atkvæða, svipað og í afhroðinu árið 1987. En flokkarnir fengu þó 5 fleiri þingmenn þar sem tæplega 12% atkvæða fóru til smáflokka sem náðu ekki 5% markinu. Píratar voru við markið alla kosninganóttina og tryggðu sig ekki inn á þing fyrr en seinustu tölurnar voru ljósar, um 8:30 um morguninn. Flokkurinn var stofnaður árið 2012 að sænskri fyrirmynd og er hluti af alþjóðlegri hreyfingu Pírataflokka. Flokkarnir líta hvorki á sig sem vinstri né hægri flokka og hafa flestir mjög afmörkuð baráttumál, þ.e. frjálslyndi, tjáningarfrelsi, endurskoðun höfundarréttar, beint lýðræði og gagnsæi í stjórnkefinu. Hinir íslensku Píratar fengu 5,1% og 3 þingmenn kjörna sem er langbesti árangur Pírataflokks í heiminum.
Enginn annar hefur náð 3%. Ári síðar náði flokkurinn svo manni inn í stjórn Reykjavíkurborgar og leiðin lá bara uppávið. Flokkurinn fór með himinskautum í skoðanakönnunum og mældist m.a. með 43% fylgi í apríl 2016 eftir að Panamaskjölin komust í deigluna.
4. Frjálslyndi flokkurinn
Sverrir Hermannsson, stórlax úr Sjálfstæðisflokknum og fyrrum ráðherra, stofnaði Frjálslynda flokkinn árið 1998. Honum fannst Sjálfstæðisflokkurinn hafa brugðist sér eftir að upp komst um hneykslismál vegna laxveiði og ferðahlunninda innan Landsbankans þar sem hann starfaði sem bankastjóri. Helsta stefnumál flokksins var breyting á kvótakerfinu og aukin veiðigjöld. Í kosningunum fékk flokkurinn aðeins 4,2% fylgi sem hefði ekki dugað þeim inn á þing. En vinsældirnar á Vestfjörðum (17,7%) fleyttu Guðjóni Arnari Kristjánssyni skipstjóra og Sverri inn á þing. Sverrir hætti eftir kjörtímabilið og Guðjón leiddi flokkinn til mikils kosningasigurs árið 2003, fengu 7,4% og 4 menn kjörna. Fyrir kosningarnar 2007 voru innflytjendamál komin á dagskrá hjá flokknum. Þeir birtu umdeilda heilsíðuauglýsingu þess efnis og fengu mikla gagnrýni fyrir að ala á rasisma. Engu að síður unnu þeir mikinn varnarsigur og héldu sínum 4 mönnum. Á því kjörtímabili tvístraðist þingflokkurinn og í kosningunum 2009 þurrkaðist flokkurinn út af þingi.
3. Björt framtíð
Þegar Besti flokkurinn vann stórsigur í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum árið 2010 vildu margir yfirfæra það á landsmálin. Þar fóru fremst í flokki Heiða Kristín Helgadóttir varaformaður Besta flokksins og Guðmundur Steingrímsson, áður úr Samfylkingu og Framsóknarflokki. Árið 2012 var Björt framtíð stofnuð með blessun Jóns Gnarr borgarstjóra. Snemma var ljóst að flokkurinn hefði mun mildari ásjónu heldur hinn pönkaði Besti flokkur. Talsmenn Bjartrar framtíðar beittu sér fyrir átakaminni stjórnmálum og að sætta ólík sjónarmið. Flokkurinn var skilgreindur sem miðjuflokkur, frjálslyndur og alþjóðasinnaður og líkt og hjá Besta flokknum var sérstök áhersla lögð á mannréttindi. Í þingkosningunum árið 2013 fékk Björt framtíð 8,2% og 6 þingmenn kjörna. Ári seinna komst flokkurinn í sveitarstjórnir þriggja stærstu sveitarfélaganna (Reykjavíkur, Kópavogs og Hafnarfjarðar) þar sem hann vann bæði til hægri og vinstri. Þegar á leið leit út fyrir að átakaleysið myndi þurrka þau út af þingi. En samkvæmt skoðanakönnunum nú á flokkurinn ágæta möguleika að halda velli.
2. Samtök Frjálslyndra og vinstri manna
Þegar breyta átti Alþýðubandalaginu úr kosningabandalagi í formlegan flokk árið 1968 sagði Hannibal Valdimarsson, forseti Alþýðusambandsins, sig frá samstarfinu. Ári seinna myndaði hann sinn eigin flokk, Samtökin, sem voru í daglegu talið kölluð Hannibalistar. Í flokknum var mikið af ungu og róttæku fólki og þjóðernissinnuðum herstöðvaandstæðingum. Samtökin voru sigurvegarar þingkosninganna árið 1971, hlutu tæp 9% fylgi og 5 menn kjörna. Viðreisnarstjórnin féll eftir 12 ára setu og Samtökin mynduðu ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi. Flokkurinn byrjaði að liðast í sundur á kjörtímabilinu og skiptu þar mestu deilur um fjármögnun Viðlagasjóðs vegna Vestmanneyjagossins. Stjórnin féll og boðað var til kosninga 1974. Þá gekk Möðruvallahreyfingin, róttækir ungir Framsóknarmenn með Ólaf Ragnar Grímsson í broddi fylkingar, til liðs við Samtökin en þau töpuðu samt helming fylgisins.Flokkurinn þurrkaðist svo út af þingi í þriðju kosningunum, árið 1978.
1. Kvennalistinn
Hugmynd um kvennaframboð til alþingiskosninga kom fram eftir tvö vel heppnuð kvennaframboð til sveitarstjórna Reykjavíkur og Akureyrar árið 1982. Árið 1983 bauð Kvennalistinn því fram í þremur kjördæmum og fékk 5,5% fylgi og 3 menn kjörna. Markmiðið var að gera viðhorf og reynslu kvenna að stefnumótandi afli í samfélaginu vegna þess að konur sjái málin frá öðru sjónarhorni en karlar. Flokksstarfið var óhefðbundið og flatt, með engan formann, og grasrótin kom að ákvarðanatöku flokksins. Flokkurinn vann mikinn sigur árið 1987 (10,1 % fylgi og 6 þingmenn) en lenti síðan í vörn í kosningunum 1991 og 1995. Árið 1995 mátti minnstu muna að flokkurinn þurrkaðist út. Mestu skipti að aðrir flokkar voru farnir taka við sér í jafnréttismálunum og fjöldi þingkvenna jókst hratt. Fyrir kosningarnar 1983 voru 3 konur á þingi en þegar Kvennalistinn lognaðist út af árið 1999 voru þær orðnar 22. Takmark Kvennalistans var aldrei að komast í ríkisstjórn heldur að vera aðhald fyrir hina og það tókst þeim sannarlega.