Niðurstöður kosninganna í dag verða mjög í takt við þær átakalínur sem hafa verið við lýði allt þetta ár. Sitjandi stjórnarflokkar munu fá um 35 prósent fylgi en stjórnarandstaðan, Viðreisn og nokkrir smáflokkar það sem eftir stendur. Þeir fjórir flokkar sem rætt hafa myndun ríkisstjórnar á Lækjarbrekku undanfarnar vikur munu að öllum líkindum ná mjög tæpum meirihluta þingmanna með og fá rétt undir helmingi greiddra atkvæða. Fjórflokkurinn er ekki lengur allt um lykjandi í íslenskum stjórnmálum og fjórða hvert atkvæði fer til flokka sem stofnaðir á síðustu fimm árum.
Sjálfstæðisflokkurinn vinnur varnarsigur með því að ná að hífa sig upp úr mikilli lægð sem skall á í upphafi október og í það fylgi sem hann hefur verið að mælast með bróðurpart ársins 2016. Taparar kosninganna eru án efa tveir rótgrónir flokkar: Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn. Báðir standa frammi fyrir því að fá verstu niðurstöðu sína í þingkosningum í sögu sinni.
Þetta kemur fram í loka Kosningaspá Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar, sem byggir á öllum þeim könnunum sem gerðar voru í síðustu vikunni fyrir kosningarnar.
Öruggt að það verður mynduð ný ríkisstjórn
Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er kolfallin. Samanlagt munu flokkarnir tveir fá 34,9 prósent atkvæða. Það er aðeins minna fylgi en flokkarnir mældust með í byrjun apríl síðastliðins, tveimur dögum áður en Wintris-málið var að fullu opinberað í Kastljósþætti sem setti íslenskt samfélag á hliðina og er ástæða þess að kosið er í dag. Fyrir þáttinn mældist fylgi stjórnarflokkanna samanlagt 36,5 prósent. Eftir hann náði það lágpunkti og mældist 31,1 prósent.
Þeir náðu þó fljótt viðspyrnu og voru að mælast á svipuðu slóðum í Kosningaspá sem birtist 8. september síðastliðinn og þeir voru að mælast fyrir Wintris-málið, en þá mældist fylgi þeirra 36,3 prósent. Þann 5. október, fyrir 24 dögum, mældist fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 35,9 prósent.
Kannanir sem hafa sýnt hvert atkvæði þeirra sem ætla að kjósa annað nú en þeir gerðu síðast sýna að Sjálfstæðisflokkurinn tekur helst kjósendur af Framsóknarflokknum. Þess vegna eru stjórnarflokkarnir að fiska í sömu tjörn, ef annar bætir við sig hefur það neikvæð áhrif á fylgi hins.
Það er því ljóst að þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi bætt skarpt við sig fylgi í könnunum undanfarna daga þá virðast stjórnarflokkarnir einfaldlega stefna í þá sameiginlegu niðurstöðu og blasað hefur við allt þetta ár, að þeir fái í kringum 35 prósent atkvæða, sem verður ansi langt frá því að duga til að halda stjórnarsamstarfinu áfram.
Nýr pólitískur veruleiki blasir við
Fjórflokkurinn svokallaði samanstendur af Sjálfstæðisflokki, Framsókn, Vinstri grænum og Samfylkingu. Fylgi við þessar grunnstoðir íslenskra stjórnmála hefur gjörbreyst á örfáum árum og farið úr því að vera nær alltaf í kringum 90 prósent, í um 75 prósent í síðustu kosningum og niður í að mælast rétt rúmlega 50 prósent í aðdraganda kosninganna sem fara nú fram.
Flokkarnir hafa sameiginlega aðeins braggast samkvæmt könnunum á lokametrum baráttunnar. Fyrir tveimur vikum síðan sagðist einungis 54 prósent kjósenda ætla að kjósa fjórflokkinn. Í loka Kosningaspá Kjarnans ná þeir samanlagt að næla sér í 57,9 prósent atkvæða, sem er bæting um fjögur prósentustig á tveimur vikum en verður samt sem áður langversta sameiginlega niðurstaða þessara flokka í kosningum frá upphafi tilveru þeirra.
Fylgið sem fjórflokkurinn hefur náð að kroppa til baka á síðustu vikum hefur að hluta til komið frá hinum þremur flokkunum sem munu líklegast eiga fulltrúa á Alþingi eftir komandi kosningar, Pírötum, Viðreisn og Bjartri framtíð. Samanlagt mældust þessir þrír flokkar, sem allir eru stofnaðir á síðustu fimm árum, með 38 prósent fylgi um miðjan október en fá nú um 36,2 prósent atkvæða standist Kosningaspáin að fullu. Þegar við bætist að þrír smáflokkar sem orðið hafa til á sama tímabili: Dögun, Flokkur fólksins og Íslenska þjóðfylkingin mælast með samanlagt fjögur prósent fylgi er ljóst að eðlisbreyting hefur átt sér stað í íslenskum stjórnmálum. Sú staða er nú upp, og er til merkis um mestu sviptingar sem íslensk stjórnmál hafa gengið í gegnum, að flokkar sem stofnaðir hafa verið á síðustu árum taki til sín fjórða hvert atkvæði.
Hitt fylgið sem fjórflokkurinn hefur bætt við sig hefur komið frá smáflokkum sem virðast ekki eiga neinn möguleika að ná inn á þing.
Reykjavíkurstjórnin ætti að meirihluta, en það verður tæpt
Fjórir flokkar hafa átt í stjórnarmyndunarviðræður undanfarnar vikur. Þeir eru Píratar, Vinstri græn, Björt framtíð og Samfylking. Samanlagt mælist fylgi í loka Kosningaspánni 49,3 prósent sem ætti að duga flokkunum til að mynda nauman meirihluta þar sem nokkur prósent atkvæða munu falla niður dauð vegna þess að þau fara á smáflokka sem ná ekki inn, eru ógild eða auð.
Mikið hefur verið bollalagt um hvort útspil Pírata um að boða stjórnarandstöðuflokkanna og Viðreisn til viðræðna fyrir kosningar, og ákvörðun þriggja flokka að þiggja boð um slíkar viðræður, hafi verið klókt bragð eða ekki.
Samanlagt hefur fylgi þessara fjögurra flokka lækkað um 1,1 prósentustig frá því að Píratar héldu blaðamannafundinn sinn þann 16. október þar sem þeir boðuðu viðræðurnar og útilokuðu stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Píratar hafa bætt aðeins við sig fylgi (voru með 19,2 prósent en mælast nú 19,4 prósent) en það sem var mikilvægast fyrir þá var að þeim tókst að stöðva niðursveiflu sína sem staðið hafði yfir vikurnar á undan. Það má því segja að útspilið hafi virkað vel fyrir Pírata sem virðast ætla næstum fjórfalda fylgi sitt á milli kosninga.
Vinstri græn er sá flokkur sem virðist hafa grætt mest á þessu útspili. Flokkurinn hefir bætt við sig 1,1 prósentustigi á síðustu tveimur vikunum. Það kemur ugglaust til af því að skoðanakannanir sýna að flestir Íslendingar vilja að Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, verði næsti forsætisráðherra.
Þeir flokkar sem hafa tapað á því að taka þátt í viðræðunum eru Samfylking og Björt framtíð, sem hafa misst samtals 2,4 prósent fylgi. Þegar flokkar eru að mælast með annars vegar 6,5 prósent fylgi og hins vegar 6,9 prósent fylgi á kjördag þá skiptir það fylgistap verulegu máli. Helsta álitamálið sem þessi mögulega vinstri stjórn stendur frammi fyrir, nái hún þeim meirihluta sem til þarf til að mynda ríkisstjórn, verður hvort að Samfylkingin geti tekið sæti í slíkri ríkisstjórn í ljósi þess afhroðs sem flokkurinn er að upplifa aðrar kosningarnar í röð. Komi upp sú staða að formaður flokksins, Oddný Harðardóttir, og aðrir lykiloddvitar á borð við Össur Skarphéðinsson og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, nái ekki þingsæti hlýtur það að vera tekið til mjög alvarlegrar skoðunar hvort Samfylkingin hafi umboð kjósenda til að koma að stjórn landsins.
Stjórnarmyndundarviðræðurnar höfðu líka áhrif á Viðreisn, sem var boðið til þeirra en hafnaði þátttöku. Með því einangraðist Viðreisn á milli tveggja blokka og forsvarsmenn flokksins neyddust til að svara ýmsum erfiðum spurningum um hvert hugur þeirra stefndi varðandi mögulega stjórnarmyndun. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, útilokaði í útvarpsviðtali að Viðreisn myndi gerast þriðja hjólið undir stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Næstu dagar fóru í að útskýra að flokkurinn útilokaði samt ekki samstarf við neinn stjórnmálaflokk. Niðurstaða flestra var sú að Viðreisn væri til í að skoða öll stjórnarmynstur önnur en að mynda þriggja flokka ríkisstjórn með sitjandi stjórnarflokkum.
Viðreisn hafði haft nokkuð mikinn byr í seglunum áður en Píratar komu með útspil sitt og höfðu hægt og rólega verið að rísa í skoðanakönnunum. Það ris hætti þegar tveggja vikna eyðimerkurgangan á milli pólitískra blokka hófst. Fylgi flokksins fór að dala og mælist nú á kjördag 9,9 prósent, eða prósentustigi minna en það gerði fyrir tveimur vikum síðan.
Sjálfstæðisflokkurinn stefnir í sína næst verstu útkomu
Kosningaspáin segir að Sjálfstæðisflokkurinn fái 24,9 prósent atkvæða. Það þýðir að hann fær sína næst verstu kosningu í sögu sinni, verði það niðurstaðan. Einungis niðurstaðan í eftirhrunskosningunum 2009 verður lakari og flokkurinn mun tapa 1,8 prósentustigi frá kosningunum 2013.
Niðurstaðan er í takti við það fylgi sem flokkurinn hefur verið að mælast með það sem af er ári, þar sem fylgi hans hefur verið á bilinu 23-26 prósent. Í október tók fylgið hins vegar að dala nokkuð skarpt og fyrir viku síðan náði það botni sínum á árinu 2016, samkvæmt Kosningaspánni, þegar það mældist einungis 22 prósent. Það hefði þýtt að flokkurinn hefði náð nýjum sögulegum lægðum. Til að setja þá stöðu í samhengi, og varpa ljósi á hversu látt fylgi það er fyrir Sjálfstæðisflokkinn að mælast með, þá var hann að mælast með 22 prósent fylgi 7. apríl síðastliðinn, þremur dögum eftir stærstu mótmæli Íslandssögunnar vegna Wintris-málsins og tveimur dögum eftir afsögn forsætisráðherra þjóðarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn býr þó að því að eiga öflugustu kosningavél landsins og á síðustu metrunum náði hún að koma skilaboðum flokksins mjög skýrt á framfæri: kjósið okkur og stöðugleika, eða kallið yfir ykkur glundroða. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, líkti stjórn þeirra stjórnarandstöðuflokka sem hafa verið að ræða stjórnarmyndun við það að „gripið yrði í stýrið“ á vegferð þjóðarinnar eftir hraðbraut efnahagsvelsældar í formannsumræðum á RÚV í gær.
Framsóknarflokkurinn verður „tapari“ þessara kosninga ásamt Samfylkingunni. Það virðist óumflýjanlegt að flokkurinn fái sína verstu útkomu í kosningum í sögu sinni. Fyrra metið á Framsókn undir formennsku Jóns Sigurðssonar árið 2007, þegar flokkurinn fékk 11,7 prósent atkvæða. Nú mælist fylgi hans á kjördag tíu prósent, eða 14,4 prósentustigum minna en það var í kosningunum 2013.
Wintris-málið snerist um þáverandi formann Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Fylgi flokksins mældist yfir tólf prósentum þegar málið kom upp en fór lægst í 8,6 prósent daganna eftir að málið kom upp og hefur lítið jafnað sig síðan, þrátt fyrir að skipt hafi verið um formann og Sigurður Ingi Jóhannsson stýri nú Framsóknarskútunni. Sigmundur Davíð er þó enn í framboði og leiðir flokkinn í Norðausturkjördæmi, þar sem hann er öruggur um þingsæti.
Um kosningaspána
Nýjasta kosningaspáin tekur mið af fimm nýjustu könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi framboða í alþingiskosningunum í haust. Í spálíkaninu eru allar kannanir vegnar eftir fyrir fram ákveðnum atriðum. Þar vega þyngst atriði eins og stærð úrtaks, svarhlutfall, lengd könnunartímabils og sögulegur áreiðanleiki könnunaraðila.
Kannanir í nýjustu kosningaspá fyrir alþingiskosningar (28. október):
- Þjóðarpúls Gallup 24. – 28. október (28,3%)
- Skoðanakannanir MMR 19. – 26. og 26. – 28. október (24.4%)
- Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 20. – 27. október (27,0%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis 25. – 26. október (20,3%)
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.