Hrekkjavaka er á næsta leiti og hafa Íslendingar tekið hátíðina upp á sína arma. Nú fara börn í búninga og á ýmsum stöðum á landinu er gengið á milli húsa og spurt um „grikk eða gott“, svo ekki sé talað um þau fjölmörgu teiti þar sem fullorðið fólk klæðir sig upp og heldur upp á hátíðina. Í tilefni þess er upplagt að skoða og líta betur til einnar áhugaverðustu, dularfyllstu og vinsælustu goðsagnarpersónunnar í heimi hryllingsins: Drakúla.
Vinsældir vampíra hafa sjaldan eða aldrei verið meiri. Þættir á borð við Buffy the Vampire Slayer og True Blood hafa ýtt undir menningarfyrirbærið og myndir eins og Interview with the Vampire og Blade. En hvað er það sem heillar svo við vampírurnar og hvaðan kemur goðsögnin?
Atburðir áttu sér „sannarlega“ stað
Frægasta vampíran er án efa fyrrnefndur Drakúla frá Transylvaníu en sögu hans þekkja flestir. Hann sprettur úr hugarkimum írska rithöfundarins Bram Stoker en skáldsagan Drakúla kom út árið 1897. Bókin var nýlega gefin út í heild sinni á Íslandi en Gerður Sif Yngvarsdóttir tók að sér þýðingu sem kom út árið 2013. Makt myrkranna er önnur íslensk þýðing bókarinnar sem mætti beinlínis útlista sem Djöfullinn. Sú bók er töluvert eldri en hún kom út á Íslandi árið 1901 í þýðingu Valdimars Ásmundssonar.
Í tímaritinu Fjallkonan árið 1900 var formáli Stoker þýddur og birtur. Höfundur hélt því sjálfur fram að hér væri um sanna atburði að ræða. „Samkvæmt minni sannfæringu er það ekkert efamál, að þeir viðburðir, sem hér er lýst, hafi sannarlega átt sér stað, hversu ótrúlegir og óskiljanlegir sem þeir kunna að sýnast, skoðaðir eftir almennri reynslu,“ lýsir Stoker í textanum. Hann fléttaði saman frásögnum, blaðaúrklippum og dagbókarbrotum til þess að gefa frásögninni trúverðugan blæ.
Samkvæmt minni sannfæringu er það ekkert efamál, að þeir viðburðir, sem hér er lýst, hafi sannarlega átt sér stað, hversu ótrúlegir og óskiljanlegir sem þeir kunna að sýnast, skoðaðir eftir almennri reynslu
Einkennilegur gestgjafi
Sögusviðið er að mestu England og Transylvanía en aburðirnir eiga að hafa átt sér stað á síðasta hluta 19. aldar. Ungur lögfræðingur, Jonathan Harker, fær það verkefni að afhenda greifanum í Transylvaníu afsal á húsi í London. Hann verður þannig gestur Drakúla í kastala hans en gerir sér þó fljótt grein fyrir því að hann sé frekar fangi hans. Og þrátt fyrir kurteisislegt yfirbragð greifans áttar Harker sig á því að eitthvað stórundarlegt sé við hann. Hann er einnig afar einkennilegur í útliti, grannur og beinaber, og viðkoma handabands hans er kalt eða eins og að koma við dauðan mann.
„Greifinn tók greinilega eftir því og hörfaði. Hann glotti fremur grimmilega og sýndi meira af framstæðum tönnunum en hann hafði áður sýnt. Hann settist aftur niður sín megin við eldstæðið. Við þögðum báðir um stund og þegar ég leit í átt að glugganum sá ég fyrstu ljósglætu komandi dags. Yfir öllu var undarleg kyrrð. Þrátt fyrir það varð ég var við marga úlfa spangóla neðar í dalnum. Augu greifans blikuðu og hann sagði: „Hlýðið á börn næturinnar. Hve tónlist þeirra er töfrandi!“,“ segir í nýrri þýðingu Gerðar Sifjar.
Harker kemst að leyndarmáli greifans sem er að hann nærist á blóði mannfólks og ásetur sér þá að drepa greifann. Sú tilraun fer í vaskinn og Drakúla nær að flýja út á sjó þar sem förinni er haldið til London. Harker verður eftir í kastalanum, veikur og þróttlítill. Drakúla nær til London þar sem ýmsir einkennilegir atburðir eiga sér stað sem viðkoma unnustu Harker, Minu Murray og fleiri sögupersónum. Harker kemst til baka á endanum en í millitíðinni er greifinn búinn að valda miklum usla, morðum og sérkennilegum atburðum. Baráttan við greifann endar í Transylvaníu eftir mikið blóðbað, þar sem Harker afhöfðar hina illu vampíru og ræður þannig niðurlögum hennar.
Ævi og störf rithöfundar
Bram Stoker var fæddur í Dublin á Írlandi árið 1847. Hann starfaði sem blaðamaður, rithöfundur og aðstoðar- og umboðsmaður þekkts leikara á þessum tíma, Henry Irving. Blaðamennskan átti eftir að nýtast honum vel við skrif á Drakúla, þar sem frásögnin er meðal annars sett upp á því frásagnarformi. Hann ferðaðist mikið um ævina en þó aldrei til hinnar dularfullu Austur-Evrópu þar sem sögusvið greifans af Transylvaníu átti að vera.
Hann var með B.A.- gráðu í stærðfræði og var alla tíð framfarasinni. Hann trúði á framfarir í vísindum og gaf lítið fyrir yfirskilvitleg fyrirbæri sem hlýtur að teljast heldur kaldhæðið miðað við skrif hans. Þannig að það má með sanni segja að ímyndunarafl hans og frásagnarstíll hafi ekki verið í samræmi við heimspeki hans, sem gerir hann auðvitað ekki að verri rithöfundi fyrir vikið.
Fornt sagnaminni
Stoker sótti í gamalt rúmenskt sagnaminni um fólk sem drakk blóð úr öðrum. Hugmyndina um Drakúla hefur hann sótt til Vlads stjaksetjara (e. Vlad the Impaler) eða Vlad Drakúla. Sá náungi var prins í Wallachia á 15. öld. Hann var annar sonur Vlads II sem réði ríkjum í Wallachia þar sem nú er Rúmenía. Blóðug stríð geisuðu á svæðinu milli Tyrkja og Ungverja og lenti Vlad stjaksetjari mitt á milli. Hann varð fljótt alræmdur fyrir grimmd og gengu sögur út um alla Evrópu um harðlyndi hans og ómanneskjulegar aðferðir. Hann er sagður hafa stjaksett fólk í hrönnum en þaðan kemur viðurnefni hans.
Vinsældir á hvíta tjaldinu
Ekki verður annað sagt en að saga Drakúla sé vinsæl til kvikmyndagerðar. Sagan hefur verið kvikmynduð margsinnis og sett á svið.
Fyrst ber að nefna þöglu kvikmyndina Nosferatu eftir F. W. Murnau frá 1922. Nöfnum var breytt í myndinni til að komast framhjá höfundarétti en ekkja Stokers, Florence Stoker, fór engu að síður í mál við framleiðandann og vann.
Þó er líklegast frægasta útgáfa sögunnar kvikmyndin Dracula frá árinu 1931. Bela Lugosi fór þar á kostum og er sú mynd löngu orðin költ. Önnur fræg útfærsla er Bram Stoker's Dracula í leikstjórn Francis Ford Coppola frá árinu 1992. Þar leikur Gary Oldman hinn dularfulla Drakúla, og með honum í leikaraliðinu eru Wynona Ryder, Anthony Hopkins og Keanu Reeves. Myndin hlaut þrjú Óskarsverðlaun.