Það þekkja sjálfsagt flestir, ef ekki allir, (frönsku) barnagæluna um meistara Jakob sem vildi fá að vita hvað klukkan slægi þegar hann rumskaði. Og hún sló, sem kunnugt er, þrjú. Ef þetta hefði verið aðfaranótt síðasta sunnudags í október (síðastliðna nótt) hefði Jakob getað lúrt áfram í klukkutíma og vaknað þegar klukkan slægi aftur þrjú, búinn að „græða“ klukkutíma. Vel að merkja ef Jakob byggi í Evrópu, annars staðar en á Íslandi. Aðfaranótt síðasta sunnudags í október ár hvert er sem sé nóttin þegar flestir Evrópubúar seinka klukkunni og bæta klukkustund við nóttina. Sá hagnaður hverfur svo aðfaranótt síðasta sunnudags í mars árið eftir.
Benjamín Franklín vildi spara kertin
Árið 1784 dvaldi ameríski vísindamaðurinn og fjölfræðingurinn Benjamín Franklín í París. Hann lét sig flesta hluti varða, og á meðan hann var í París skrifaði hann grein (An Econimical Project) þar sem hann lagði til að Parísarbúar færu klukkutíma fyrr á fætur en þeir væru vanir og gengju til náða einni stundu fyrr en venjan væri. Með þessu myndi draga úr notkun sterínkerta (tólgarkerta) sem væru dýr og kæmu hreint ekki í stað dagsbirtunnar.
Í greininni er einnig að finna útreikninga Franklíns á hversu mikill tólgarsparnaðurinn væri og hugmyndir hans um myrkvunartjöld í svefnherbergjum og fleira í þeim dúr. Ekki minntist hann hins vegar á að færa klukkuna til eftir árstíðum. Greinin er hin skemmtilegasta aflestrar eins og margt sem hraut úr penna Benjamíns Franklíns. En eins og það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja reyndust Parísarbúar ekki fúsir til að fylgja þessari efnahagsráðgjöf og höfðu áfram dökkar gardínur fyrir gluggum til að útiloka morgunsólina.
Skordýrafræðingur og byggingameistari
Árið 1895 kom nýsjálenskur skordýrafræðingur, Georg Vernon Hudson, fram með þá hugmynd að færa klukkuna fram um tvær stundir að sumarlagi. Ekki var það tólgarsparnaður sem Hudson hafði í huga heldur sá hann fram á að með því móti gæti hann lengur fram eftir á hverju kvöldi sinnt áhugamáli sínu, skordýrasöfnun. Tíu árum síðar, 1905, kom William Willett, enskur byggingameistari, fram með sömu hugmynd, blöskraði að sögn að fólk steinsvæfi í morgunsólinni. „Morgunstund gefur gull í mund“ sagði Willett. Þessi hugmynd kom til kasta breska þingsins en varð ekki að veruleika.
30. apríl 1916
Það sem seinna fékk heitið sumartími varð til í miðri fyrri heimsstyrjöldinni. Þýskaland og Austurríki ákváðu 30. apríl 1916 að breyta klukkunni, færa hana fram um eina klukkustund til að spara orku, sem mikill skortur var á. Danmörk fylgdi í kjölfarið 21. maí sama ár, Rússland og fleiri lönd ári síðar og Bandaríkin árið 1918. Síðan hafa verið sett óteljandi lög og reglugerðir um sumar- og vetrartíma.
Áratugum áður en sumar- og vetrartíminn voru innleiddir hafði orðið til það sem nefna má alþjóðlega tímabeltakerfið. Með auknum samgöngum í Evrópu, ekki síst járnbrautunum varð tímasamræming nauðsynleg. Árið 1981 náðu aðildarríki ESB samkomulagi um núverandi fyrirkomulag: klukkunni er flýtt um eina klukkustund aðfaranótt síðasta sunnudags í mars og seinkað um eina klukkustund aðfaranótt síðasta sunnudags í október.
Árvisst og endalaust deilumál
Þótt sumar- og vetrartíminn séu staðreynd þýðir það ekki að allir séu á eitt sáttir um fyrirkomulagið. Þeir sem fylgjandi eru breytingum á klukkunni vor og haust nefna fyrst og fremst orkusparnað og að dagurinn nýtist betur. Andstæðingar þess að breyta klukkunni segja því fylgja mikinn kostnað og óþægindi ýmiss konar. Bændur hafa alla tíð verið mjög andsnúnir því að breyta klukkunni, segja morgundöggina sitja lengur og þeir verði því að vinna lengur fram eftir til að ná heyjum og korni í hús, því fylgi aukakostnaður.
Rétt eða rangt
Iðulega hefur verið deilt um hvort sumartíminn sé „réttari“ en vetrartíminn eða öfugt. Við þeirri spurningu er líklega ekki til afdráttarlaust svar. Breskur sérfræðingur birti nýlega grein í British Medical Journal þar sem hann leiðir rök að, og mælir með, að sumartíminn verði látinn gilda allt árið. Birtutíminn verði lengri og það sé gott fyrir heilsuna, bæði líkamlega og andlega. Dönsk rannsókn, sem spannar átján ára tímabil leiðir í ljós að um eins mánaðar skeið eftir að breytt er yfir í vetrartíma fjölgar þeim sem greinast með þunglyndi. Ástæðan er ekki ljós.
Sérfræðingar hafa á síðustu árum í auknum mæli beint sjónum sínum að áhrifum þess að breyta klukkunni tvisvar á ári. Hvort þær rannsóknir verða til þess að núverandi fyrirkomulagi verði breytt leiðir tíminn í ljós.