H.P. Lovecraft er almennt talinn einn af fremstu höfundum hryllingssagna frá upphafi og er yfirleitt nefndur í sömu andrá og Edgar Allan Poe og Stephen King. Þessi einkennilegi maður naut þó aldrei þeirrar hylli meðan hann lifði og hans fremstu verk birtust einungis í ódýrum áhugamannatímaritum sem fengu takmarkaða dreifingu og lestur. Lovecraft barðist við ytri og innri djöfla alla sína ævi en kom þeim þó öllum á prent. Áhrif hans í dag ná langt út fyrir heim bókmenntanna.
Barnæskan og geðveikin
Howard Phillips Lovecraft fæddist árið 1890 í borginni Providence í Rhode Island fylki Bandaríkjanna. Rhode Island er eitt af sex fylkjum sem mynda hið svokallaða Nýja England í norð-austurhluta landsins. Nýja England er sérstakt menningarsvæði, hámenntað, með mikil tengsl við hafið og Bretlandseyjar þaðan sem flestir innflytjendurnir komu. Lovecraft gat rakið ættir sínar langt aftur bæði til fyrstu landnema svæðisins og einnig til Bretlandseyja. Þetta mótaði heimssýn hans að miklu leyti og braust jafnvel fram í andúð á þeim sem voru ekki af engilsaxnesku bergi brotnir.
Howard, betur þekktur sem H.P., var eina barn hjónanna Winfield og Söru Lovecraft. Æska hans var plöguð af geðrænum vandamálum, bæði hjá honum sjálfum og foreldrum hans. Faðir hans missti vitið þegar H.P. var einungis þriggja ára gamall. Hann sá ofsjónir og var haldinn miklu ofsóknarbrjálæði sem orsakaði það að hann var lagður inn á geðsjúkrahús þar sem hann lést fimm árum síðar. Móðir hans varð eftir það mjög þunglynd og fékk móðursýkisköst. Lovecraft lýsti uppeldi móður sinnar sem kæfandi og taldi það hvorki heilbrigt fyrir hann né hana. Hún varði öllum stundum með honum svo hann gat hvorki sinnt skólagöngu né félagslífi líkt og jafnaldrar hans. Það mætti segja að félagsleg einangrun hans hafi byrjað í barnæsku. Lovecraft var veiklað barn, bæði á líkama og sál.
Hann var oft lasinn og átti mjög erfitt með svefn. Stanslausar martraðir þar sem skrýmsli ásóttu hann orsökuðu það að hann varð snemma mjög taugaveiklaður og hlédrægur. Eftir að faðir hans féll frá bjó Lovecraft með móður sinni, tveimur móðursystrum og afa. Það sem bjargaði barnæskunni var sambandið við afa hans, Whipple Van Buren Philips. Whipple var iðnjöfur sem var einnig mjög menningarlega sinnaður og ákaflega bókelskur. Hann kynnti Lovecraft fyrir mörgum af helstu bókmenntaverkum sögunnar. Hann sagði honum einnig drauga-og hryllingssögur. Lovecraft elskaði þessar stundir en varði einnig miklum tíma einn í bókasafni afa síns. Hann náði snemma góðum tökum á enskri tungu og þá sérstaklega ljóðlist. Það var þó ekki í heim bókmenntanna sem Lovecraft stefndi á þessum tíma. Á táningsaldri fékk hann mikinn áhuga á stjörnufræði og takmark hans var að komast í stjörnufræðinám í Brown háskóla í heimaborg sinni. En Lovecraft náði ekki einu sinni að útskrifast úr menntaskóla. Námið, félagslegar aðstæður og andlegir kvillar orsökuðu það að hann fékk taugaáfall og hrökklaðist úr skóla. Á seinni árum skammaðist hann sín mikið fyrir að hafa ekki komist í háskóla.
Draumahringurinn
Eftir skólagönguna bjó Lovecraft einn með móður sinni í nokkur ár. Hann vann ekki, var grannur og fölur og lítið á ferli utandyra. Hann eyddi öllum sínum stundum við lestur og skrif og leit á sig sem menntamann og herramann. Það var honum til happs að hann komst í kynni við samtök áhugamannarithöfunda í gegnum bréfaskriftir. Menn sáu strax að hann hafði hæfileika og var hann því hvattur til að birta sögur og ljóð. Hann hafði áður fengið birt ljóð og greinar um stjörnufræði í dagblöðum, en fyrsta hryllingssagan hans The Alchemist var gefin út árið 1916 í tímaritinu United Amateur. Á sama tíma hóf hann að gefa út sitt eigið áhugamannatímarit, The Conservative, sem kom út árlega næstu átta árin. Hann segir:
„Þegar mér var rétt hin vingjarnlega hönd áhugamennskunnar í fyrsta sinn, var ég eins nálægt því að vera grænmeti og nokkurt dýr getur orðið. Með tilkomu United öðlaðist ég tilgang með lífinu… Í fyrsta sinn gat ég ímyndað mér að mínar klaufalegu fálmanir eftir listinni væru aðeins meira en dauft kjökur í afskiptalausum heimi.“
Þó að Lovecraft væri mjög sérstakur maður, jafnvel einkennilegur og félagsfælinn, þá átti hann auðvelt með að tengjast fólki í gegnum bréfaskriftir og í gegnum þær öðlaðist hann gott tengslanet innan geirans. Talið er að Lovecraft hafi skrifað yfir 120.000 bréf á ævi sinni, hvert þeirra nokkrar síður að lengd. Fyrstu ár þriðja áratugarins voru tíðindamikil fyrir Lovecraft. Móðir hans lést eftir dvöl á geðsjúkrahúsi, hann kynntist eiginkonu sinni Soniu Greene, og tímaritið Weird Tales var hóf göngu sína.
Á þessum árum skrifaði Lovecraft mestmegnis smásögur, margar mjög stuttar og flestar inn í heim sem kallaður hefur verið Draumahringurinn. Í þessum sögum eru viðamiklar lýsingar á Draumalöndunum sem staðsett eru í annarri vídd og fólk kemst þangað í draumum sínum. Þetta er mjög furðulegur og framandi heimur þar sem guðlegar verur ráða ríkjum. Flestar sögurnar eru sagðar frá sjónarhóli einnar persónu, Randolph Carter. Draumahringinn mætti frekar flokka sem furðusögur en hrylling en þó má segja að grunnurinn af hrollvekjum hans hafi verið lagður. Annars vegar var stílinn kominn, þ.e. áhersla á andrúmsloft og upplifun fremur en línulegan söguþráð. Hins vegar komu fram sumar af hinum guðlegu verum sem Lovecraft varð þekktastur fyrir. Til dæmis Azathoth, hinn blindi og vitsmunalausilausi guð.
Þegar H.P. Lovecraft skrifaði Draumahringinn var hann undir miklum áhrifum frá samtímamanni sínum, breska rithöfundinum Edward Plunkett barón af Dunsany. Sagt hefur verið að Lovecraft hafi beinlínis reynt að herma eftir Dunsany og það hafi verið mjög hamlandi fyrir hann. Þegar tímaritið Weird Tales kom fyrst út árið 1923 stökk Lovecraft þar um borð og þá vék Draumahringurinn fyrir annars konar hryllingssögum. Lovecraft og Greene, sem var rússneskur gyðingur, giftust árið 1924 og fluttu til New York sem reyndist mikið óheillaspor. Greene þurfti að sjá fyrir honum og hann var óhamingjusamur og einmana. Skrif hans frá þeim tíma bera þess glöggt merki en hann hélt stöðu sinni sem einn af fremstu rithöfundum blaðsins. Á meðal annarra rithöfunda Weird Tales má nefna Robert E. Howard höfund Conan saganna og Robert Bloch sem seinna skrifaði Psycho. Þegar Greene neyddist til að fara til Ohio til að vinna árið 1926 ákvað Lovecraft að flytja aftur til Providence. Það voru mikil vatnaskil fyrir hann, hjónabandið var úr sögunni en hans frjósamasti skriftatími rétt að byrja.
Cthulhu fæðist
Árið 1926 skrifaði Lovecraft smásögu sem nefndist The Call of Cthulhu. Sagan er hans þekktasta verk og fjallar um guðinn Cthulhu (með höfuð kolkrabba en er vængjaður og með manneskjulegan búk) sem dvelur í neðanjarðarborg sem nefnist R´Lyeh undir Kyrrahafinu. Cthulhu varð svo akkerið í þeim heimi sem Lovecraft skóp á næstu árum, heimi sem kallaður hefur verið Cthulhu goðsögnin. Á þessum árum komu út öll hans bestu verk, s.s. The Dunwich Horror (1929), The Whisperer in Darkness (1931), The Shadow Over Innsmouth (1936) og At the Mountains of Madness (1936). Sögurnar urðu lengri og vandaðri en enn voru þær flestar birtar í Weird Tales og fengu takmarkaða dreifingu og eftirtekt. Hann bætti við guðum eins og Yog-sothoth og Shub-niggurath og fékk aðra að láni eins og Hastur sem Ambrose Bierce hafði skapað á seinni hluta 19. aldar.
Þetta voru guðir sem komu utan úr geimnum eða öðrum víddum, ævafornir og oft formlausir. Þegar Lovecraft lærði stjörnufræði komst hann að því hversu smár maðurinn og jafnvel jörðin sjálf er í alheiminum og það skín í gegn í þessum verkum. Guðirnir, eða “hinir gömlu”, eru afskiptalausir um mennina og taka nánast ekki eftir þeim. Smæð mannsins er kjarni hryllingsins. Nýja England er helsta sögusviðið en staðarnöfn eru yfirleitt skálduð, t.d. Arkham, Innsmouth og Kingsport. Sumar sögurnar gerast þó á afskekktum stöðum víðs vegar um hnöttinn, s.s. á Kyrrahafi, Suðurskautslandinu, Alaska o.fl. Lovecraft fékk innblástur víða að, ekki síst frá 19. aldar bókasafni afa síns. Þetta kemur glöggt fram í stíl hans sem var ákaflega gamaldags og sérstakur. Hans eigin æska, martraðirnar og sú geðveiki sem hann ólst upp við kemur einnig bersýnilega í ljós. Í mörgum sögunum er aðalpersónan smám saman að missa vitið frammi fyrir hinum ásækjandi, ódauðlegu og ógnarstóru öflum.
Kyndlinum haldið á lofti
Veturinn 1936-1937 greindist H.P. Lovecraft með krabbamein í smáþörmum. Eftir stutt en kvalarfullt dauðastríð lést hann 15. mars árið 1937, 46 ára að aldri. Þrátt fyrir að hafa átt mjög frjóan áratug þá dó hann nánast óþekktur og í sárri fátækt. Oft átti hann ekki fyrir mat. Honum gekk alltaf illa að koma sér á framfæri og fékk litlar greiðslur fyrir þær sögur sem hann fékk birtar. Hann var mjög sjálfsgagnrýninn, þoldi illa höfnun og í raun sinn eigin versti óvinur. Margar sögurnar enduðu í skúffunni og komu ekki út fyrr en eftir dauða hans. Lovecraft sá aðeins eina bók útgefna eftir sjálfan sig meðan hann lifði, The Shadow Over Innsmouth, sem fékk mjög litla dreifingu. Verk hans hefðu sennilega fallið í gleymskunnar dá ef ekki hefði verið fyrir félaga hans úr hópi áhugamannarithöfunda.
Lovecraft var nefnilega ekki sá eini sem skrifaði inn í Cthulhu goðsögnina. Fjöldi annarra rithöfunda skrifuðu sögur, bættu við guðum og fengu lánaðar persónur og atburði frá hvorum öðrum. Þessi félagsskapur var kallaður Lovecraft-hringurinn og innihélt rithöfunda á borð við August Derleth, Frank Belknap Long, Clark Ashton Smith og áðurnefnda Robert E. Howard og Robert Bloch. Þessir lærisveinar héldu nafni hans á lofti eftir dauða hans og komu á fót útgáfufyrirtækinu Arkham House árið 1939. Það sama ár kom út fyrsta safnið af verkum Lovecraft, The Outsider and Others. Arkham House er ennþá starfandi bókaútgáfa sem hefur í gegnum áratugina einblínt á hrollvekjur og vísindaskáldskap. Í upphafi voru verk Lovecraft og lærisveina hans áberandi hjá útgáfunni en síðan fóru að tínast inn seinni tíma rithöfundar sem margir hverjir skrifuðu inn í Cthulhu goðsögnina eða voru undir miklum áhrifum frá henni. Á sjöunda og áttunda áratugnum hófst mikil bylgja af Lovecraft bókmenntum í Bretlandi, fyrir tilstilli rithöfunda á borð við Ramsey Campbell og Brian Lumley. Smám saman fór fólk að taka eftir þessum sögum og frægð Lovecraft jókst með hverju árinu. Áður en menn vissu af var Lovecraft orðinn risi í bókmenntaheiminum og Cthulhu orðinn að menningarfyrirbæri.
Áhrifin alls staðar
Í dag er talað um Lovecraft-hrylling sem sérstaka tegund bókmennta. Það á ekki aðeins við þær bækur og sögur sem skrifa beint inn í þennan heim heldur einnig það sem svipar til hans í stíl og lýsingum. Margir af fremstu nútíma rithöfundum hrollvekja og vísindaskáldskapar segja Lovecraft vera mikinn áhrifavald og hafa skrifað sögur í hans stíl. Má þar nefna Neil Gaiman, Terry Pratchett, George R.R. Martin, Alan Moore og Stephen King. Hinn síðastnefndi sagði árið 1995:
„Nú þegar tíminn hefur gefið okkur visst sjónarhorn á verk hans, þá held ég að það sé hafið yfir nokkurn vafa að enginn hefur komist frammúr H.P. Lovecraft á 20. öld sem mesti iðkandi hinnar klassísku hrollvekju.
En áhrif Lovecraft ná lengra. Á áttunda áratugnum birtust þau á hvíta tjaldinu, fyrst og fremst vegna kvikmyndarinnar Alien (1979). Svissneski listamaðurinn H.R. Giger, sem hannaði geimveruna frægu, var undir miklum áhrifum frá Lovecraft. Í kjölfarið fylgdu ótal hryllingsmyndir á borð við The Thing (1982) og Evil Dead þríleikinn (1981-1992). Minna hefur borið á slíkum hryllingi í sjónvarpi, en þó má nefna þáttaröðina vinsælu True Detective, sem fjallaði um sértrúarsöfnuð guðsins Hastur. Bækur Lovecraft hafa veitt tónlistarmönnum innblástur og þá sérstaklega innan þungarokksins.
Má þar nefna hljómsveitir á borð við Black Sabbath, Cradle of Filth, Deicide,
Opeth og Metallica. Mest áhrif hefur Lovecraft þó sennilega haft á
leikjaiðnaðinn. Bæði tölvuleiki (Quake,
Alone in the Dark o.fl). og borðspil
(Arkham Horror, Elder Sign, Call of Cthulhu
RPG o.fl.). En það er ekki einungis í list of afþreyingariðnaðinum sem
Lovecraft skín í gegn. Með tilkomu internetsins og samfélagsmiðla hefur Cthulhu
sjálfur orðið að vinsælli táknmynd. Hann má sjá á stuttermabolum, derhúfum,
kaffibollum, límmiðum, styttum og jafnvel leikföngum. Hinn grimmi og
skeytingarlausi kolkrabbaguð sem Lovecraft skapaði árið 1926 er nú orðinn
nokkurs konar Mikki Mús.