Ofangreinda fyrirsögn fréttaskýringarpistils gat að líta í einu dönsku dagblaðanna síðdegis í gær, laugardag. Pistillinn fjallaði um erfiða stöðu danska forsætisráðherrans sem hefur stýrt afar veikri minnihlutastjórn sem tók við völdum eftir þingkosningarnar 2015. Venstre, flokkur forsætisráðherrans, hefur einungis 34 fulltrúa á danska þinginu, Folketinget, en þar sitja 179 þingmenn. Stuðningsflokkar stjórnarinnar, sem eru þrír, í bláu blokkinni svonefndu eiga samanlagt 56 fulltrúa á þingi þannig að samtals ræður bláa blokkin yfir 90 fulltrúum, sem sé einum fleiri en stjórnarandstaðan. Danski þjóðarflokkurinn, einn stuðningsflokkanna hefur 37 þingmenn, er stærri en stjórnarflokkurinn sjálfur. Þetta var það veganesti sem Lars Løkke Rasmussen lagði upp með að loknum kosningum sem fram fóru 18. júní í fyrra.
Róðurinn hefur reynst þungur
Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra sagði í setningarræðu sinni í þinginu haustið 2015 að fram undan væri erfið sjóferð, þar sem leggjast þyrfti fast á árarnar. Þótt ráðherrann hafi tekið svona til orða hefur hann kannski ekki rennt grun í að andbyrinn yrði jafn mikill og komið hefur á daginn. Forystumenn stuðningsflokkanna þriggja hafa lagt mikla áherslu á að ná fram kosningaloforðum sínum, vitandi að Lars Løkke á fárra kosta völ vilji hann sitja áfram í forsætisráðherrastólnum. Bæði Lars Løkke og forystumenn stuðningsflokkanna vita að eins og vindarnir blása um þessar mundir eru sáralitlar líkur á að stjórnin sæti áfram ef kosið yrði á næstunni. Þar kemur margt til. Danski þjóðarflokkurinn myndi, samkvæmt könnunum, missa nær þriðjung fylgis síns, slíkt kallast afhroð. Forystumaður flokksins á Evrópuþinginu, Morten Messerschmidt, varð uppvís að misnotkun á styrkjum Evrópusambandsins til kynningar og fræðslustarfsemi. Þingmaðurinn, sem talinn hefur verið ein helsta vonarstjarna Danska þjóðarflokksins er kominn í ótímabundið veikindaleyfi eftir að hafa margsinnis orðið uppvís að lygum og rangfærslum varðandi styrkina. Styrkjamálið hefur skaðað Danska þjóðarflokkinn og veldur mestu um þetta mikla fylgistap. Danski þjóðarflokkurinn er einnig talinn bera höfuðábyrgð á niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu í desember í fyrra. Sú niðurstaða varð til þess að Danir verða nú að reyna að semja um aðild að Evrópulögreglunni, Europol, einu mikilvægasta vopni ESB í baráttunni við glæpamenn. Danski þjóðarflokkurinn hafði nánast lofað kjósendum að „það yrði ekkert mál“ að semja um áframhaldandi aðild að Europol en nú er komið á daginn að slíkt var fjarri öllum sanni.
Hátekjuskatturinn
Annað sem valdið hefur minnihlutastjórn Lars Løkke miklum erfiðleikum er ófrávíkjanleg krafa Frjálsræðisbandalagsins, Liberal Alliance, um lækkun hátekjuskatts. Þessa kröfu getur Danski þjóðarflokkurinn, frekar en stjórnarflokkurinn Venstre, ekki fallist á og það er nákvæmlega þessi krafa sem hæglega gæti orðið til þess að fella stjórnina. Fyrir tveim dögum (18. nóv.) tókst stjórninni að ganga frá fjárlögum næsta árs en krafan um lækkun hátekjuskattsins hangir enn yfir stjórninni „eins og fallöxi yfir hálsi dauðadæmds afbrotamanns“ eins og eitt dönsku blaðanna komst að orði. Og miðað við síendurteknar yfirlýsingar formanns Frjálsræðisbandalagsins fellur öxin ef stjórnin verður ekki við kröfu flokksins. Nema eitthvað nýtt komi til. Og hvað gæti það nú verið? Ja, til dæmis ráðherrastólar, þeir hafa oft freistað og boð um slíkt iðulega orðið til þess að ágreiningsmál og kröfur víkja. Og það var einmitt slíkt boð sem kom fram á flokksþingi Venstre í Herning.
Bauð tveimur flokkum stjórnaraðild og ráðherrastóla
Í ræðu sinni við upphaf flokksþingsins í Herning í gærmorgun (laugardag) tilkynnti Lars Løkke að hann hefði rætt við Anders Samuelsen formann Frjálsræðisbandalagsins og Sören Pape Poulsen formann Íhaldsflokksins um að flokkarnir tveir tækju þátt í ríkisstjórnarsamstarfinu. Þeir hefðu báðir tekið vel í það og viðræður hefjast á morgun (mánudag 21. nóv). Þessir tveir flokkar ráða yfir 19 þingmönnum sem bætast við 34 þingmenn Venstre þannig að ef flokkarnir tveir ganga inn í ríkisstjórnarsamstarfið er staðan á þinginu breytt. Danski þjóðarflokkurinn sem mætt hefur, eins og áður sagði, mætt miklum mótbyr, hefur ekki mikinn áhuga á kosningum á næstunni. Þótt Lars Løkke hafi ekki boðið flokknum að ganga inn í ríkisstjórnarsamstarfið styður Danski þjóðarflokkurinn áfram stjórnina.
Undiralda í flokknum
Landsþing Venstre fer fram, eins og áður sagði nú um helgina (19. – 20.nóv). Þótt út á við hafi flokksmenn, ráðherrar þar meðtaldir, staðið þétt að baki forsætisráðherra hafa margir velt fyrir sér framtíð hans sem formanns flokksins. Ef Lars Løkke hefði neyðst til að boða til kosninga á næstunni eru flestir stjórnmálaskýrendur sammála um að formannsferli hans hefði þar með lokið. Á flokksþingi Venstre sumarið 2014 (þá var flokkurinn í stjórnarandstöðu) munaði minnstu að kosið yrði milli Lars Løkke og Kristians Jensen varaformanns og núverandi utanríkisráðherra. Þá hafði Lars Løkke lent í miklum mótbyr vegna óreiðu í peningamálum (nærbuxnamálið svokallaða) og framtíð hans sem flokksformanns í mikilli óvissu. Ekkert varð þó af formannskosningunni, eftir tveggja manna tal í kjallara fundarhússins í Herning, tilkynnti Kristian Jensen að hann byði sig ekki fram til formennsku og lýsti yfir stuðningi við Lars Løkke. Margir úr hópi stuðningsmanna Kristians Jensen voru ósáttir við að hann skyldi ekki láta til skarar skríða. Aldrei hefur gróið um heilt milli þeirra tveggja og sá klofningur sem kom í ljós á flokksþinginu 2014 er enn til staðar.
Skyndilega er allt breytt
Fyrir flokksþingið nú um helgina voru margir af forystumönnum Venstre farnir að „kanna landið“allt eins og það er kallað. Staða Lars Løkke talin afar veik og formannsslagur í uppsiglingu. Formannsslagur þar sem nokkrir væru kallaðir en enginn útvalinn, enginn augljós arftaki. En nú hefur Lars Løkke að líkindum slegið vopnin úr höndum þeirra sem farnir voru að gjóa augum á formannsstólinn.
p.p1 {margin: 0.0px 0.0px 0.0px 0.0px; font: 16.0px 'Trebuchet MS'; -webkit-text-stroke: #000000} span.s1 {font-kerning: none}
Tilboðið um þátttöku í ríkisstjórninni er líklega alltof freistandi til að Anders Samuelsen og Frjálsræðisbandalagið standi fast við kröfuna um lækkun hátekjuskattsins. Íhaldsflokkurinn sem mjög hefur átt í vök að verjast grípur að líkindum tækifærið og vonast til að ríkisstjórnarþátttaka hefji flokkinn til vegs og virðingar á nýjan leik. Lars Lökke Rasmussen fann slökkvitækið.