Ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu býr nú í miklu meiri mæli heima hjá foreldrum sínum en fyrir tíu árum síðan. Í fyrra voru 42 prósent Íslendinga á aldrinum 20 til 29 ára enn, eða aftur, í foreldrahúsum. Árið 2005 var þetta hlutfall ríflega 30 prósent. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum Félagsvísi Hagstofu Íslands.
Breytingin er minni meðal ungs fólks á landsbyggðinni, en þó hefur orðið aukning í því að ungt fólk búi hjá foreldrum sínum. Tæplega 37 prósent fólks á aldrinum 20 til 29 ára á landsbyggðinni býr í foreldrahúsum, en fyrir tíu árum síðan var það hlutfall 35 prósent. Hlutfallið fór lægst í 31,3 prósent árið 2009, en hefur hækkað síðan þá.
Fleiri karlar en konur búa hjá foreldrum sínum alls staðar á landinu. Hlutfall ungra karla í foreldrahúsum er tæplega 45 prósent á höfuðborgarsvæðinu, en 43 prósent á landsbyggðinni. Hlutfall ungra kvenna í foreldrahúsum er miklu lægra á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu, 29,5 prósent á móti 38,6 prósentum.
Fyrir tíu árum síðan var hlutfall ungs fólks í foreldrahúsum lægra á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Þá voru 30,6 prósent fólks á aldrinum 20 til 29 ára á höfuðborgarsvæðinu búsett heima hjá foreldrum sínum, en 33,7 prósent á landsbyggðinni.
Meira en helmingur enn heima
Þegar hópunum er skipt frekar eftir aldri, annars vegar í 20 til 24 ára og hins vegar 25 til 29 ára, kemur í ljós að nú býr meira en helmingur fólks á aldrinum 20 til 24 ára enn heima hjá foreldrum sínum. Tæplega 57% í þessum hópi búa hjá foreldrum sínum, en hlutfalið var 48,1% árið 2005.
Helsta breytingin er meðal ungra kvenna á þessum aldri. Árið 2005 var hlutfall þeirra í foreldrahúsum 36,7% en er nú 54,7%. Eftir sem áður eru fleiri karlar í foreldrahúsum en konur, þó dregið hafi mjög saman með kynjunum. Tæplega 60 prósent ungra karla á þessum aldri eru í foreldrahúsum.
Þrátt fyrir að Ísland sé með sjötta lægsta hlutfall 20 til 24 ára fólks sem deilir heimili með foreldrum sínum, í samanburði við önnur Evrópulönd, þá er hlutfallið hærra en á öllum hinum Norðurlöndunum. 24,5 prósent þessa hóps í Danmörku býr enn heima og 34,8 prósent í Svíþjóð. Hin Norðurlöndin eru þar á milli, en svo kemur Ísland með 56,9 prósent í heimahúsum.
Í eldri hluta þessa hóps er Ísland líka með hærra hlutfall en öll hin Norðurlöndin, en 21,4 prósent fólks á aldrinum 25 til 29 ára býr enn heima hjá foreldrum sínum á Íslandi. Árið 2009 var þetta hlutfall 15,5%, og hefur því hækkað um 5,9 prósentustig á þessum árum. Þróunin er ekki eins skýr og í yngri hópnum, en karlar í þessum hópi eru líka miklu líklegri til að búa hjá foreldrum sínum en konur. 27,4 prósent karla á þessum aldri eru heima en aðeins 15 prósent kvenna.
Seinkum sambúðum og barneignum
Á undanförnum árum hafa sést vísbendingar um að vaxandi fjöldi fólks seinki skrefum eins og að hefja sambúð og eignast börn, segir Hagstofan í Félagsvísinum. Í töflum á vef Hagstofunnar sé hægt að sjá að meðalaldur ógiftra karla og kvenna við stofnun sambúðar hefur hækkað um nokkur ár og barneignum hefur almennt seinkað. Meðalaldur kvenna við fæðingu fyrsta barns var 24,4 ár árið 1991, en árið 2015 var meðalaldurinn orðinn 27,4 ár. Svipuð þróun hefur átt sér stað víða í samanburðarlöndum Íslands, og eru uppi ýmsar kenningar um að það hafi orðið grundvallarbreyting á því hvernig og hvenær fólk fullorðnast.
Líkt og Kjarninn hefur greint frá hefur frjósemi aldrei verið minni á Íslandi en hún var í fyrra. Þá fæddur 4,129 börn hér á landi, 246 færri en árið á undan. Helsti mælikvarðinn á frjósemi,samkvæmt alþjóðlegum stöðlum, er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið.
Samkvæmt frétt frá Hagstofu Íslands í maí var frjósemi íslenskra kvenna árið 2015 1,81 barn á ævi hverrar konu og hefur hún aldrei farið lægra frá því að mælingar hófust árið 1853. Árin 2013 og 2014 var frjósemi 1,93 en það er næst lægsta frjósemi sem hefur mælst hér á landi. Undanfarinn áratug hefur frjósemi á Íslandi verið rétt um tvö börn á ævi hverrar konu.
Hafa dregist aftur úr öðrum
Líkt og Hagstofan bendir á, þá má ætla að aðgengi að tryggum og nægilega vel launuðum störfum og íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði skipti miklu máli þegar kemur að því hvenær ungt fólk getur flutt að heiman. Húsnæðisverð og leiguverð hefur hækkað verulega, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, á undanförnum árum, og bent hefur verið á að störfum fyrir menntað fólk hafi ekki fjölgað með sama hætti og störfum sem krefjast ekki framhaldsmenntunar. Þannig hefur mesta fjölgun starfa hér á landi verið í ferðaþjónustu og byggingariðnaði, en hlutfall háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá er nú tæplega þriðjungur.
Í sumar birti Hagstofan aðrar tölur úr lífskjararannsókn sinni, um dreifingu ráðstöfunartekna. Helstu tíðindi hennar eru þau að ungt fólk, á aldrinum 25-34 ára, hefur dregist aftur úr öðrum hópum á undanförnum áratug og hlutfall tekna þeirra af miðgildi ráðstöfunartekna er nú 95,3 prósent. Það þýðir á einföldu máli að ungt fólk hefur lægri laun en það hafði áður.
Þetta var enn ein fréttin um hagtölur eða rannsóknir sem bendir til verri stöðu ungs fólks á Íslandi. Á undanförnum árum hafa verið lagðar fram tölur um færri atvinnutækifæri, minni eignarmyndun, lægri laun, skerta þjónustu og síðast en ekki síst stórtækan húsnæðisvanda þessa hóps.
Þá greindi Kjarninn einnig frá því nýverið að 380 fleiri Íslendingar á aldrinum 20 til 29 ára hafa flutt úr landi en aftur til Íslands það sem af er ári. Frá árinu 2010 hafa tæplega þrjú þúsund fleiri Íslendingar á þessum aldri flutt burt en heim. 7.770 hafa flutt burt á meðan 4.840 hafa komið heim. Öll árin frá 2010 er þessi hópur stærstur bæði meðal brottfluttra og aðfluttra.