Danir eru fátækastir Norðurlandaþjóða. Fátækum fjölgar ört og nú efna dönsk hjálparsamtök í fyrsta sinn í sögunni til landssöfnunar fyrir fátæka Dani.
Í nýlegri skýrslu Evrópsku hagstofunnar, Eurostat, kom fram að Danir eru fátækastir Norðurlandaþjóða og þar hefur fátækum fjölgað á undanförum árum. Í nágrannalöndunum hefur fátækum hins vegar fækkað. Mörgum Dönum var brugðið þegar fjölmiðlar greindu frá niðurstöðum skýrslunnar. Mælikvarðarnir sem Eurostat notar eru flóknir, meðal annars hvort einstaklingur hafi ráð að eiga þvottavél, síma og litasjónvarp, geti farið í vikulangt sumarfrí og borðað kjötmáltíð annan hvern dag. Tæplega átján prósent Dana eru við fátæktarmörk (samkv. mælikvörðum Eurostat), fyrir átta árum var talan rúmlega sextán prósent.
Danskir þingmenn hafa lengi verið ósammála um hver opinber fátæktarmörk skuli vera og hvort slík mörk séu í raun til. Þau opinberu fátæktarmörk sem ríkisstjórn Helle Thorning - Schmidt skilgreindi árið 2013 hefur núverandi ríkisstjórn afnumið með þeim rökum að þau þjóni engum tilgangi.
1.október síðastliðinn tóku gildi ný lög í Danmörku um hámark fjárhagsaðstoðar. Breytingin varð til þess að hámarksupphæð slíkrar aðstoðar lækkaði talsvert. Áhrifin komu strax í ljós og hjálparstofnanir segja að beiðnum um aðstoð hafi fjölgað nokkuð síðan breytingin tók gildi og telja að þeim muni fjölga verulega á næstunni.
Hefð fyrir landssöfnunum til fátækra í öðrum löndum
Í Danmörku er löng hefð fyrir landssöfnunum. Um þær gilda strangar reglur og margs konar skilyrði sem samtök þurfa að uppfylla til að fá leyfi fyrir söfnunum. Nokkrum sinnum á ári fara slíkar safnanir fram með aðstoð stóru sjónvarpsstöðvanna tveggja, DR og TV2, þá er gjarna lagt heilt kvöld undir söfnunina og afraksturinn milljónatugir. Flestar landssafnanir eru hinsvegar svonefndar götusafnanir, þá er staðið með söfnunarbauka á götum og torgum og auk þess gengið í hús og bankað uppá. Safnararnir þurfa að sýna sérstök skilríki til að sanna að þeir séu starfsmenn viðkomandi samtaka. Eitt hafa þó þessar safnanir átt sameiginlegt: söfnunarféð hefur ætíð runnið til aðstoðar í fjarlægum löndum. Þangað til nú.
Safnað fyrir fátæka Dani
Í byrjun nóvember tilkynnti stjórn danska hjálpræðishersins að samtökin, í samvinnu við nokkur önnur samtök myndu efna til landssöfnunar 25. – 27. nóvember. Gengið yrði í hús og jafnframt staðið á götum og torgum, við verslanir og víðar. Það sem er sérstakt við þessa landssöfnun er að ekki verður safnað fyrir fátækt fólk í öðrum löndum heldur fyrir fátæka Dani. Formaður hjálpræðishersins sagði í viðtali við dagblaðið Berlingske að þar á bæ hefði þess greinilega orðið vart undanfarið að bláfátækum, þeim sem hvorki hefðu til hnífs né skeiðar, hefði fjölgað mjög að undanförnu. Þetta væri sorgleg staðreynd sem nauðsynlegt væri að fyrir dönsku þjóðina að viðurkenna en fátækt hefði fram til þessa verið hálfgert feimnismál. Snemma á níunda áratug síðustu aldar neitaði Poul Schluter, þá nýorðinn forsætisráðherra, því að fátækt fyrirfyndist í Danmörku. Hann sneri þó við blaðinu síðar og í nýársávarpi sínu 1987 sagði hann að fátækt væri vissulega til í Danmörku og það væri skylda stjórnmálamanna að bregðast við, áður en það yrði of seint og yrði þjóðarböl. Ýmsir urðu til að gagnrýna þessi orð forsætisráðherrans en miðað við hina nýju skýrslu evrópsku hagstofunnar hafði hann mikið til síns máls.