Það var þrúgandi þögn í hópnum sem stóð fyrir utan kosningavöku Hillary Clinton þann 8. nóvember síðastliðinn og góndi upp á risavaxinn skjáinn sem færði okkur fréttir af sigri Trumps í hverju ríkinu á fætur öðru. Aðeins fáeinum mínútum áður hafði gleðibylgja færst yfir hópinn þegar fyrstu tölurnar birtust, en nú var Trump ofan á. ,,It is early yet, these numbers will change” útskýrði maðurinn við hliðina á mér. Sjálf ýtti ég aftur á reload takkann á New York Times appinu mínu. Hitamælirinn sýndi aukinn hita með rauðu, en áður en fyrstu tölur birtust sýndi hann Hillary með um 85% líkur á að vinna kosningarnar nú var hún komin í 54%. Líkurnar á því að Trump myndi vinna 46%. Rauða liðið í Ameríku eru repúblikanar, bláa liðið eru demókratar. Það var eins og annað þetta kvöld, allt öfugsnúið.
Sonur minn 10 ára var enn hundfúll yfir því að við hefðum ekki fengið sæti inn í höllina og hann fengi því ekki að bera fyrsta kvenkyns forseta Bandaríkjanna augum þegar hún myndi lýsa yfir sigri, heldur hafði okkur verið skóflað út á planið fyrir utan Jacob Javits Center. Hér skyldi vera götupartý fyrir þá sem væru minna mikilvægir og hefðu ekki tryggt sér sæti inn í höllinna með viðeigandi fjárstuðningi við framboðið. Mér var hætt að lítast á blikuna, enda var þetta götupartý orðið frekar súrt, svo við fórum heim til vina og skelltum í kosningavöku. ,,Ekki gott ef Hillary ætlar að stjórna landinu svona, leyfa bara sumum að vera inní í partýinu, á meðan aðrir standa úti” ályktaði sonurinn yfir óréttlæti kvöldsins.
En kvöldið var rétt að byrja og svo fór að Hillary mætti aldrei í eigið partý, heldur var það gulhærði maðurinn sem hélt sigurræðuna nokkur hundruð metrum frá, fyrir framan æstan múginn sem hrópaði í sigurvímu ,,lock her up”.
Daginn eftir var þögnin í borginni ærandi, fólk sat og starði tómlega út í loftið í lestinni. Afgreiðslukonan í búðinni bað Guð um að blessa mig og Ameríku í óspurðum fréttum. Sonurinn spurði hvert vini hans sem væru múslimar yrðu sendir. Rithöfundinum í næstu íbúð, sem er kona á níræðisaldri af gyðingaættum var svo skellkuð að henni var orða vant.
Í New York borg höfðu aðeins 10 prósent kjósenda kosið einn þekktasta íbúa borgarinnar, Donald Trump. Og þrátt fyrir að Hillary Clinton hafi hlotið um 2 milljónum fleiri atkvæði á landsvísu, vann Trump fleiri ríki og þar með kosningarnar. Allar kannanir bentu til þess að Hillary myndi vinna allra síðustu dagana fyrir kosningarnar og sama mátti segja um útgönguspár á kjördag.
Hvað nú?
Hefðin er að þegar nýr forseti er kjörinn tekur við tímabil þar sem svokallaður verðandi forseti (e. President elect) undirbýr sig. Sá sem er að hætta er kallaður óhæf önd eða Lame Duck. Það nafn kom fyrst fram í tengslum við breskan verðbréfasala sem gat ekki greitt skuldir sínar en hefur einhverra hluta vegna þótt gott heiti yfir fráfarandi forseta. Sá gefur þeim nýja rými til undirbúningsins og tekur engar afdrifaríkar ákvarðanir lengur. Nú er því Barack Obama orðinn Lame Duck og Donald Trump verðandi forseti í undirbúningsferli.
Trump gefst því svigrúm í nokkrar vikur til að ráða til sín ráðherra í ríkisstjórn sína og ráða í þær fjölmörgu stöður sem losna við stjórnarskipti. Í heild sinni þarf nýr forseti og hans fólk að ráða til sín um 4.000 manns. Af þessum 4.000 störfum þarf öldungadeildin að samþykkja um 1.000 ráðningar fyrir lok apríl næstkomandi. Þetta tímabil stendur frá kjördegi þar til hann hefur tekið við starfinu og skipað í allar stöðurnar og sett nýja stefnu í fyrir öll þau ríflega 100 stjórnsýslu-apparöt sem heyra undir forsetann. Byrja að undirbúa nýja fjárhagsáætlun fyrir allar stofnanirnar og forgangsraða.
Flestir reyndir stjórnmálamenn sem eiga raunhæfa möguleika á því að taka við valdamesta embætti Bandaríkjanna hafa hingað til verið nokkuð undirbúnir undir þetta ferli þegar þeir sigra forsetakosningar. Allt bendir þó til þess að Donald Trump hafi ekki verið búinn að hugleiða mikið hver myndi taka við hvaða hlutverki, myndi hann sigra. Því hafa síðustu dagar farið í að fjölmiðlar liggja á hurðarhúninum hjá honum í þeirri von að fá einhverja innsýn inn í hvernig ferlið gengur. Hefðin er að ákveðin hópur blaðamanna (e.press pool) fái að fylgja verðandi forseta hvert sem hann fer en Trump hefur lítið gefið út á þá hefð og stundum hafa fjölmiðlar ekki haft hugmynd um hvar næsti forseti Bandaríkjanna er niðurkominn. Þetta hefur valdið mikilli hneysklan hjá sérfræðingum hér og ekki síst fjölmiðlamönnum.
Hurðarhúnninn hjá Trump er hins vegar ekki einn eða tveir, því hann á turna víðs vegar um landið og þó hefðin sé að verðandi forseti haldi sig í Washington DC þegar þetta ferli á sér stað er Trump hins vegar mjög heimakær og hefur sagst ætla að dvelja mikið heima hjá sér í New York á forsetatíð sinni.
Síðustu daga hefur hann því eytt flestum stundum í Trump turninum sínum í hjarta miðborgar Manhattan. Þessari þörf Trump hefur þó reynst þrautinni þyngri að koma í kring, því um leið og menn eru kjörnir forsetar Bandaríkjanna fylgir þeim gífurleg öryggisgæsla. Nú er því búið að afgirða fjölförnustu verslunargötu Manhattan í miðri jóla verslunninni svo hægt sé að tryggja öryggi Trumps. Á milli Gucci og Prada standa nú lögreglumenn með vélbyssur svo rauðvaralitaðar konur í pelsum með smáhunda og þverröndóttir ístrukarlar komast ekki lengur óhindrað að glingrinu. Við þessa öryggisgæslu hafa svo bæst stöðug mótmæli fyrir utan heimili hans sem bæta nú verulega mannlífsflóruna á Fimmtu breiðgötu. Áætlaður kostnaður vegna öryggisgæslunnar fyrir Trump í New York telur nú um 113 milljónir íslenskar krónur á dag.
Ráðningar Trumps
Trump hefur hitt fjölda manns síðustu daga og hafa þær örfáu tilnefningar sem hann hefur tilkynnt valdið miklum ótta og hneyksla meðal fjölda fólks. Einn sá fyrsti til að vera tilnefndur var Stephen K. Bannon sem yfir-strategisti Trump í Hvíta húsinu. Stephen hefur rekið fréttavefinn Breitbart News sem eru þekktur fyrir að vera yst á hægri vængnum. Fjölmiðilinn hefur verið sakaður um að hafa talað máli þeirra sem telja hinn hvíta kynstofn æðri öðrum sem og haldið úti hatursumræðu gegn samkynhneigðum, gyðingum og fleirum. Ráðningin hefur verið harðlega gagnrýnd af meðlimum beggja flokka.
Ekki var ráðning Trumps á Michael Flynn sem hernaðarráðgjafa síður gagnrýnd, en sá gengdi mikilvægu hlutverki í hernaðaríhlutun Bandaríkjanna í Írak og Afganistan. Þar var hann meðal annars yfir Defense Intelligence Agency og þótti hvorki vera mjög nákvæmur í störfum sínum né góður stjórnandi. Eftir að hafa verið látinn fara frá Obama stjórninni fór hann í allskyns ráðgjafaverkefni sem þykja mjög vafasöm. Hann er sérstaklega þekktur fyrir að hafa mjög öfgafullar skoðanir á múslimum og vera hlynntur öfgafullum skoðunum Trumps um skráningu múslima í Bandaríkjunum.
Staða yfirsaksóknara Bandaríkjanna er afar mikilvæg. Trump hefur tilnefnt Jeff Session, öldungadeildaþingmann frá Alabama í það starf. Session hefur verið við hlið Trumps í gegn um alla kosningabaráttuna og er talinn hafa ráðlagt honum að fá Mike Pence sem varaforsetaefni. Hann hefur líkt og margir kollegar hans í Repúblikanaflokknum verið á móti giftingu samkynhneigða, fóstureyðingum, réttindum barna ólöglegra innflytjenda sem hafa alist upp í Bandaríkjunum að fá ríkisborgara rétt og hefur verið sakaður um að vera rasisti. Hann hefur starfað í stjórnmálum í þrjá áratugi, mest allan tímann í Alabama.
Nikki Haley er nýskipaður sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum. Þessi ráðning kom fremur mikið á óvart en hún er ríkisstjóri í Suður Karólínu og er dóttir indverskra innflytjenda. Hún studdi Marco Rubio í forvali repúblikana og var gagnrýnin á Trump á meðan á kosningabaráttunni stóð. Þrátt fyrir að hafa öðlast einhverja reynslu í utanríkismálum á sviði viðskiptasamninga er reynsla hennar á utanríkismálum á borð við þau sem fara fram hjá Sameinuðu þjóðunum nánast engin. Henni er ætlað að hafa nokkuð svipaðar skoðanir á utanríkismálum og flokkurinn hennar. Hún er þó þekkt fyrir að vera ákafur stuðningsmaður Ísraels og að hafa sem ríkisstjóri hert fóstureyðingalöggjöfina.
Þessar ráðningar og fleiri eru svo í bland við ráðningar á borð við ráðningu Reince Priebus sem starfsmannastjóra, sem hefur starfað sem stjórnarmaður landsnefndar repúblikanaflokksins og er því einn helsti kerfiskarl flokksins. Hann var kjörinn í þetta embætti fyrir 5 árum síðan og var afar náinn Trump eftir að hann vann forval flokksins. Priebus er talinn eiga að hafa það hlutverk að brúa á milli forsetans og hans fólks og þingflokks repúblikanaflokksins og koma þannig vilja forsetans í framkvæmd þegar þarf einnig þingið til.
Nýjar ráðningar og vangaveltur forsetans koma nú fram á hverjum degi. Mitt Romney fv. forsetaframbjóðandi er einn þeirra sem forsetinn hefur rætt við of verið orðaður við stöðu utanríkisráðherra. Fyrrverandi borgarstjóri New York borgar og einn ákafasti stuðningsmaður Trumps, Rudy Guiliani er einnig orðaður við stöðuna. Á hverjum degi mætir hópur manna, flestir hvítir miðaldra karlar, á fund Trumps sem mátar þá í lausu stöðurnar og á meðan spá fjölmiðlar í spilin þegar þeir liggja ekki undir reiðilestri Trumps.
Fjölmiðlar teknir á teppið
Í vikunni sem leið mættu útgefendur nokkurra helstu fjölmiðasamsteypna hér vestra, ásamt nokkrum af þekktustu fjölmiðlamönnum landsins á fund Trumps í einn af turnunum hans í New York. Fundurinn var ,,off the record” en fljótlega fóru að berast fréttir af fundinum og ef marka má þær las verðandi forseti fjölmiðlunum pistilinn fyrir að vera að hans mati ósanngjarna við sig og framboð sitt.
Í byrjun vikunnar lak svo út að Trump hefði mælt sér mót við eiganda og fjölmiðalmenn frá New York Times. Við heimili hans hafði safnast saman fjöldi fjölmiðlamanna í gyllta andyrinu í Trumpturninum á 5 Avenue, steinsnar frá fræga rúllustiganum sem Trump rúllaði sér niður fyrir ríflega ári síðan, líkt og Simpson sjónvarpsþátturinn hafði spáð fyrir, og tilkynnti um framboð sitt, stóðu blaðamennirnir á afgirtu svæði. Bak við rautt flauelsband sem hékk uppi á gylltum staurum stóðu þeir, undirrituð hnippti í blaðamann sem kyrfilega var merktur spænskum miðli og spurði ,,Veistu nokkuð hvar Trump er? eins og ekkert væri eðlilegra. Blaðamaðurinn baðaði út höndunum, ,,who knows where he is? - at least not the media” sagði hann úrillur. Þá var bara að hrista af sér kjánahrollinn og vona að kauði myndi láta sjá sig fljótlega. Ekki á hverjum degi sem maður drepur tímann með því að skoða ungbarnafatalínu Trumpsfjölskyldunnar sem var einmitt til sýnis glugganum við hliðin á blaðamannahópnum.
En þá kom tilkynning um að Trump hefði hætt við fundinn. Örvingla fjölmiðlamenn ranghvolfdu augunum í andyrinu. Blaðamennirnir endurhlóðu Twitter ört. Fljótlega kom þó í ljós -á Twitter, þar sem alltaf má treysta á að finna verðandi forseta, að hann væri kominn á fund með New York Times og þar fór viðtalið fram fyrir framan heilan her af fjölmiðlamönnum blaðsins. Forsetinn sat við hlið Arthur Sultzberger þriðja ættliðs, stjórnaformanns blaðsins og svaraði spurningum reyndustu blaðamanna blaðsins.
Í viðtalinu dró Trump allverulega úr stórkarlalegum yfirlýsingum sínum sem höfðu fleytt honum í embættið fyrir nokkrum vikum. Hann sagðist m.a. vera hættur við að ákæra Hillary Clinton, honum þætti ákaflega mikilvægt að skoða Parísarsáttmálann vel og hann væri opinn fyrir að breyta afstöðu sinni og svona mætti lengi áfram telja. Hann afneitaði hópi nýnasista sem lýst hafa yfir stuðningi við hann og verið töluvert í fjölmiðlum eftir kjör hans. Mörgum þótti viðtalið bera þess merki að Trump hafi líkt og áður sveigt og beygt málflutning sinn eftir því hverjir voru áheyrendur. Blaðamenn New York Times hafa verið ákaflega gagnrýnir á málflutning Trumps og líkt og áður hefur Trump látið þá heyra það – á Twitter.
Hagsmunaárekstur Trumps
Óljós svör Donalds Trumps í viðtalinu við New York Times um hagsmunatengsl sín vegna viðskipta hans annars vegar og forsetaembættisins hafa vakið töluverða athygli. En samkvæmt lögum hér má forseti ekki hafa persónulega hagsmuni sem gætu haft áhrif á störf hans sem forseti. Viðskiptaveldi Trumps verður því samkvæmt lögum að fara í hendurnar á aðila sem ekki hefur vensla tengsl við Trump. Á það hefur Trump þó ekki sjálfur fallist á og hefur lagt til að börnin sín muni sinna viðskiptunum á meðan hann sinnir starfi sínu sem forseti. Trump á fyrirtæki í að minnsta kosti 18 löndum fyrir utan Bandaríkin samkvæmt samantekt Washington Post, þar á meðal í Kína, Sádí-Arabíu, Sameinuðu furstadæmunum og á Indlandi.
Aðskilnaður hans við viðskipti sín virðast ekki byrja vel, því eftir kjör hans hefur komið fram hjá fjölmiðlum að í samtali við forseta Argentínu sem hringdi í hann til að óska honum til hamingju með kjör hans, hafi hann beðið forsetann um að liðka fyrir leyfisveitingu vegna byggingu hans í landinu. Forseti Argentínu hefur ekki dregið þessar fréttir til baka. Í síðustu viku hafði hann svo dóttur sína með sér á fund forsætisráðherra Japans, sem þótti afar óheppilegt, ekki síst vegna þess að hún hefur ekki formlegt hlutverk í stjórn hans, sem og vegna þess að hún á að taka við viðskiptum hans, sem meðal annars eru í Japan. Þessi tengsl verða án efa til umræðu mikið þegar nær dregur því að hann taki formlega við embættinu en margir hafa bent á að erfitt verður að leysa þetta, nema þingið gefi honum sérstaka heimild þar sem hreinlega er ákveðið að horft sé framhjá þessum hagsmunatengslum. Aðrir telja að þingið verði að ákæra hann vegna tengslanna láti hann ekki af stjórn fyrirtækja sinna sjálfur og setji í hendur óháðra aðila. En fátt bendir til þess að Trump ætli sér að gera það.
Ef eitthvað er hægt að lesa í stöðuna sem upp ier núna, virðist Trump vera jafnóðum að draga mikið í land með yfirlýsingar sínar sem hann lagði alla áherslu á í kosningabaráttu sinni, svo sem að byggja múr við Mexíkó, ákæra Hillary Clinton, fara út úr NATÓ í snatri og Parísarsáttmálanum – sem og að afnema Obamacare með öllu. Á sama tíma virðist hann velja sér liðsmenn með jafnvel ýktari og öfgafyllri skoðanir en sínar eigin, í bland við harðkjarna kerfisfólk.
Hin stöðuga þversögn sem hann býður upp á í samtölum sínum við fjölmiðla gegn því það sem hann hefur áður lofað kjósendum sínum virðist engan enda ætla að taka.
Hvað hann sagði áður, hverju hann lofaði og hvort það sem hann segir eigi sér stoð í raunveruleikanum, sé gerlegt eða ímyndun ein, skiptir ekki máli. Þetta er Trumpland og þú gætir verið rekinn – jafnvel úr landi.
Sú veika von andstæðinga Trumps um að Rússar eða einhverjir aðrir hafi hakkað sig inn í kosningakerfið í þrem ríkjum þar sem Trump vann með mun meiri mun í rafrænu kosningunum en þeim í pappírsformi hefur orðið til þess að farið hefur verið fram á endurtalningu í Wisconsin ríki. Beiðnin kemur ekki frá Clinton heldur forsetaframbjóðandanum og græningjanum Jill Stein. Jafnvel þó eitthvað missjafnt hafi komið fram er mjög ólíklegt að ógilding atkvæða myndi duga til að að breyta niðurstöðu kosninganna. En gera má ráð fyrir að fjölmargir séu tilbúnir að styðja allar leiðir til að koma í veg fyrir að Trump taki formlega við sem forseti enda snertir sú óvissa sem hann skapar fjölda hagsmunaafla, ekki bara íbúa landsins.
Það er því legið er í svokölluðum kjörmönnum sem formlega leggja fram atkvæði fyrir ríkin sín og geta tæknilega kosið annan kandídat en meirihluti kjósendur valdi í þeirra ríki. Ekkert bendir til þess að hægt verið að fá þann fjölda sem þarf til að ,,skipta um skoðun” svo Trump fái ekki formlega afhent embættið. En þó má segja að sú staðreynd að repúblikanar hafi ekki tvo þriðju atkvæða í öldungadeildinni sé það sem margir þakki fyrir nú, því þar með geta demókratar enn stöðvað mál með málþófi eða hótun þess að fara í málþóf, en það vopn hefur reynst repúblikönum dýrmætt í forsetatíð Obama til að stöðva mál.
En þrátt fyrir að margir séu nú að reyna alla mögulegar leiðir til að koma í veg fyrir að Trump verði forseti er líklegast að sú staðreynd verði ekki breytt. Trump er verðandi forseti og enn allt bendir til að því muni áfram fylgja algjör óvissa fyrir íbúa þessa lands, sem og heiminn allann. Fjölmiðlar munu áfram bíða í ofvæni eftir því að segja okkur frá því hvað Trump segir eða gerir næst, getur - eins og í góðum raunveruleikaþætti, enginn misst af næstu senu. Aðalhlutverkið er í mótun á rauntíma og áhorfendurnir sitja allir límdir við viðtækin, því enginn veit hvað er framundan - nema kannski Trump sjálfur – ef marka mætti orð hans.