Fyrir 40 árum síðan olli transkonan Renée Richards miklu fjaðrafoki þegar hún sigraði tennismót í kvennaflokki. Tennissamböndin, aðrir keppendur og áhorfendur brugðust illa við og reyndu að útiloka hana frá þáttöku. Richards hélt þó ferli sínum til streitu og er í dag talin brautryðjandi í málefnum transfólks og samkynhneigðra. Richards stendur nú á vissum tímamótum og því vert að renna yfir ótrúlegt lífshlaup hennar.
Fyrirmyndardrengur
Renée Richards fæddist sem Richard Raskin, þann 19. ágúst árið 1934 Í New York, sonur hjónanna David og Sade Muriel Raskind. Raskind hjónin voru gyðingar af rússneskum ættum sem bjuggu í Queens hverfinu og störfuðu bæði sem læknar. David var bæklunarlæknir en Sade geðlæknir og jafnframt prófessor við Columbia háskóla. Richard átti eina eldri systur og Sade sá aðallega um uppeldi barnanna þar sem David var mikið fjarverandi.
Strax á barnsaldri var Richard forvitinn um kyn sitt og hann laumaðist iðulega í fataskáp systur sinnar og klæddi sig upp. Það kom stundum fyrir að hann fór út fyrir húsið í kjól en fáir vissu af þessu engu að síður. Richard gekk vel í skóla og stefndi á að fylgja í fótspor foreldra sinna, þ.e. í læknanám. En á menntaskólaaldri kom í ljós að hann var frábær íþróttamaður einnig. Hann stundaði margar íþróttir s.s. hafnabolta, amerískan ruðning, sund og tennis. Hann þótti einkar góður kastari í hafnabolta og atvinnumannalið úr MLB deildinni tóku eftir honum. Hugur hans var þó við tennisíþróttina sem hann hélt áfram að stunda eftir að hann hóf háskólanám.
Hann fór í hinn virta Yale háskóla og svo Læknaskólann í Rochester í sérnám þar sem barnaaugnlækningar urðu fyrir valinu. Námsferlinum lauk hann svo í New York þar sem hann kláraði verknámið. Allan þennan tíma spilaði hann tennis og þótti með þeim bestu í landinu. Á árunum 1953 til 1960 keppti hann 5 sinnum á Opna ameríska meistaramótinu sem áhugamaður en komst aldrei mjög langt. Eftir námið gekk hann í læknisþjónustu sjóhersins og þar spilaði hann einnig tennis. En þrátt fyrir að vera mjög efnilegur leikmaður var ljóst að ferill hans sem læknir varð að ganga fyrir og því sóttist hann ekki eftir því að gerast atvinnumaður í íþróttinni.
Gervilíf
Á fyrri hluta áttunda áratugarins virtist lífið leika við Richard Raskind. Hann var einn af fremstu augnlæknum landsins og þénaði vel. Hann var ævintýragjarn, tók flugpróf og ferðaðist víða. Árið 1970 giftist hann fyrirsætunni Barböru Mole og þau eignuðust son tveimur árum síðar. En undir niðri kraumaði óánægja sem braust af og til fram þar sem Richard fannst hann lifa eins konar gervi lífi. Gervið fólst í því að þykjast vera karlmaður. Á háskólaárunum hafði hann fiktað við að klæðast kvenmannsfötum en þó yfirleitt innandyra. Bandaríki Eisenhower-tímans höfðu hvorki skilning á né umburðarlyndi fyrir slíku athæfi. Hann taldi sjálfur að hann ætti við geðjúkdóm að stríða og leitaði sér því læknishjálpar. Sú “hjálp” fólst í sálfræði-og hormónameðferð, 5 daga vikunnar um margra ára skeið. Þetta hafði þó engin áhrif á hneigð Richards sem hélt áfram að klæðast kvenfatnaði. Um miðjan sjöunda áratuginn ferðaðist hann til Evrópu þar sem hann þorði að klæðast kvenfatnaði utandyra.
Já, ég held að ég hafi ekki blekkt marga, en ég var sátt við sjálfa mig.
Á þessum tímapunkti var hann hársbreidd frá því að fljúga yfir Miðjarðarhafið og gangast undir kynleiðréttingu í borginni Casablanca í Marokkó. Hann ákvað þó að snúa við til Bandaríkjanna þar sem beið hans gervilífið og djúpt þunglyndi. Hann klæddist þó endrum og eins kvenfatnaði, t.d. á kvöldin þegar hann fór út að ganga með hundinn. Þetta gat þó ekki gengið til lengdar og árið 1975 skildu Richard og Barbara. Þetta sama ár lagðist hann inn á spítala í New York og gekkst undir skurðaðgerð og kynleiðréttingu. Hinn nýi einstaklingur fékk nafnið Renée Richards eða Richard endurfæddur.
Hún er karlmaður!
Hluti af endurfæðingunni var að flytja sig um set og hefja nýtt líf. Renée Richards flutti því til Suður-Kaliforníu þar sem hún hélt áfram ferlinum sem augnlæknir. Þá tók hún upp gamalt áhugamál, tennisíþróttina, og hóf að spila í litlum klúbbi sem kenndur er við Hollywood leikarann John Wayne. Þá kallaði hún sig reyndar Renée Clark. Aðrir klúbbmeðlimir tóku strax eftir hæfileikum hennar og því var hún hvött til að taka þátt í litlu móti í nágrenninu. Vinir hennar vöruðu hana við því að taka þátt þar sem mótið gæti komið henni í klípu en Renée skráði sig full sjálfstrausts og vann mótið. Þá fékk einn sjónvarpsfréttamaður veður af því að eitthvað væri sérstakt við þetta. Clark var umtalsvert hávaxnari en keppinautar hennar, næstum 190 cm á hæð, og karlmannlegri í vexti og andlitsdráttum. Fréttamaðurinn kafaði í málið og komst að forsögu hennar. Í kjölfarið birtist frétt sem fór eins og eldur í sinu um gjörvöll Bandaríkin. Sigurvegari mótsins var karlmaður!
Þetta var ekki það sem Richards vildi, þ.e. að verða fjölmiðlamatur, og hún hafði engar fyrirætlanir um það að halda keppnisferlinum áfram. Hún var í góðu starfi og þar að auki komin á fimmtugsaldur. Engu að síður voru forsvarsmenn Bandaríska tennissambandisins (USTA) fljótir að senda frá sér yfirlýsingu um að hún væri ekki velkomin á mót á þeirra vegum s.s. Opna ameríska meistaramótið. Þetta þoldi Richards ekki og leit á sem áskorun af hálfu sambandsins. Hún sótti því um að taka þátt á Opna ameríska árið 1976. Til að koma í veg fyrir að hún tæki þátt setti tennissambandið reglur um að keppendur yrðu að gangast undir svokallað Barr-litningapróf. Richards neitaði og fór með málið fyrir dómstóla. Vörn hennar fólst í því að prófið væri gróf mismunun og því um mannréttindamál að ræða, hún væri jú lagalega séð kona. Richards tapaði málinu í héraði og fékk ekki að taka þátt á mótinu en eftir að áfrýjunardómstóll dæmdi henni í vil ári seinna var henni heimilt að taka þátt í öllum mótum á vegum sambandsins í kvennaflokki. Hún ákvað því að hefja feril sem atvinnumaður í greininni.
Hörð viðbrögð
Richards leit ekki á sig sem framherja í baráttu transfólks eða samkynhneigðra. Þetta var persónulegt réttlætismál fyrir hana.
Ég vissi ekkert hvað ég var að gera. Fólk gerir oft hluti sem eru taldir hetjudáðir án þess að átta sig á því hvað það er búið að koma sér út í. Og það á við í mínu tilfelli.
Um fátt annað var talað en Renée Richards fyrir Opna ameríska árið 1977 og skiptist fólk algerlega í tvær fylkingar hvað varðar þáttöku hennar. Vörn tennissambandsins fyrir dómstólum hafði fyrst og fremst verið sú að Richards hefði óeðlilegt forskot á aðra keppendur. Ekki einungis hæðina heldur einnig vöðvamassann, líkamlegan þroska og þjáflun sem karlmaður í mörg ár. Ef henni yrði leyft að taka þátt þá myndi það opna á að aðrir karlmenn myndu jafnvel fara í slíka aðgerð í þeim tilgangi að keppa í kvennaflokki. Undir þetta sjónarmið tóku margar af keppinautum hennar á leirnum.
Á áttunda áratugnum var mikill uppgangur í kvennatennis og fjölmargar stjörnur að koma fram sem náðu frægð til jafns við karla. Tennis var talin ein feminískasta grein íþróttanna. Að hafa keppanda innanborðs sem hafði verið karlmaður einungis tveimur árum áður var því þyrnir í augum margra. Richards fékk því að upplifa mörg óþægileg atvik í upphafi atvinnumannaferils síns. Áhorfendur fylltu keppnisvellina til að fylgjast með henni og margir bentu og hlógu líkt og hún væri sýningardýr í hringleikahúsi. Margir hrópuðu ókvæðisorð í hennar garð úr stúkunni sem er harla óalgengt í þessari fáguðu íþróttagrein.
Þegar hún mætti í útvarpsviðtöl hringdu reiðir hlustendur inn með óviðeigandi athugasemdir og jafnvel líflátshótanir. Margir keppinautar hennar skráðu sig úr mótum sem hún tók þátt í. Í einu mótinu voru einungis 7 keppendur eftir af þeim 32 sem áttu að taka þátt. Margar af þeim sem mættu hrópuðu að henni og sýndu henni fingurinn. Búningsklefarnir tæmdust svo þegar hún gekk þar inn. Sumar gengu í bolum þar sem á stóð „Ég er alvöru kona”. Þegar Richards keppti í tvenndarleik með NBA-stjörnunni John Lucas II sögðu sumir að um viðundrasýningu væri að ræða. Hún fékk fjölda boða um að spila gegn körlum, jafnvel þeim bestu í heimi þar sem sjónarmiðið var það að hún væri í raun og veru ekki kona. Hún hafnaði því þó alltaf og hélt ótrauð áfram þrátt fyrir mótlætið. Eins og áður var sagt þá var þetta persónulegt og djúpstætt réttlætismál fyrir hana.
Arfleiðin
Renée Richards lagði spaðann á hillunna árið 1981 þá 47 ára gömul eftir 5 ár í atvinnumennsku. Hún keppti á Opna ameríska í öll þessi ár og hafði því keppt samanlagt 10 sinnum, jafnoft sem kona og karl. Auk þess hafði hún tekið þátt í mótaröð í Bandaríkjunum og í latnesku Ameríku en hafði ekki leyfi til að taka þátt í Evrópu. Hún náði ágætum árangri og var um tíma í 20. sæti á heimslistanum.
Þó að óttinn við að yngri karlar skiptu um kyn og tækju þátt væri til staðar þá ógnaði Richards aldrei þeim allra bestu, enda var hún að keppa við langtum yngri konur. Það var henni máske til happs og olli því að andstaðan var ekki þeim mun meiri. Richards átti líka tvo hauka í horni, þ.e. tvær af bestu tenniskonum heims Billie Jean King og Martinu Navratilovu. Sem samkynhneigðar konur náðu þær að skilja Richards betur en flestir aðrir í greininni og veittu henni stuðning. Þær komu báðar út úr skápnum árið 1981. Eftir að ferli Richards lauk gerðist hún þjálfari Navratilovu og hjálpaði henni að vinna fjöldamörg stórmót og verða óumdeilanlega ein besta tenniskona sögunnar. Navratilova hefur lýst Richards sem miklum áhrifavaldi í lífi sínu. Árið 2000 var Richards tekin inn í Frægðarhöll tennisíþróttarinnar og árið 2013 var hún ein af þeim fyrstu til að vera tekin inn í Frægðarhöll samkynhneigðra íþróttamanna (ásamt vinkonum sínum King og Navratilovu).
Richards iðkaði ekki lækningar á meðan tennisferlinum stóð og steyptist um tíma í skuldir. Eftir ferilinn flutti hún aftur heim til New York og hélt áfram sínum fyrri störfum með miklum glans. Hún hefur síðan gefið út þrjár bækur með æviminningum sínum og gerð hefur verið heimildarmynd um hana. Engu að síður hefur hún að miklu leyti fallið í gleymsku, sem er nokkuð einkennilegt miðað við þann fjölmiðlasirkus sem ferill hennar var. Skýringin á því kann að vera sú hógværð og lítillæti sem hún hefur alla tíð sýnt af sér. Í heimi samkynhneigðra er hún talin brautryðjandi en hún lætur sér fátt um það finnast.
Hún gerði það sem hún gerði fyrst og fremst fyrir sig sjálfa og í raun sé þetta aðeins lítill hluti af ævi hennar. Í seinni tíð hefur hún jafnvel tekið undir þau sjónarmið að aðstaða hennar hafi verið ósanngjörn gagnvart keppinautum hennar. Richards er ennþá starfandi augnlæknir í dag, 82 ára að aldri. Hún býr í litlum bæ norðan við New York borg með aðstoðarkonu sinni og tveimur hundum. Árið 2016 eru viss tímamót í lífi hennar. Hún hefur lifað samanlagt í 41 ár sem karl og 41 ár sem kona.