Á vetrarmánuðum viðrar oft sérstaklega vel til loftmengunar í Pekíng og upplifðu borgarbúar að loftmengun mældist 24 sinnum hærri en það sem telst skaðlegt fyrir heilsu af Alþjóðheilbrigðismálastofnuninni (WHO) á nýársdag. Ástandið í Pekíng, og víðs vegar í Kína, er áminning um þann mengunarvanda sem blasir enn við þrátt fyrir miklar framfarir í aðgerðum gegn loftmengun á undanförnum árum. Loftmengun í Kína orsakast að miklu leyti af útblæstri frá kolaknúnum stálverksmiðjum og raforkustöðvum í norðurhluta landsins og sú losun gróðurhúsalofttegunda sem fylgir hefur mikil áhrif á loftslagsmál á heimsvísu.
Fylgifiskar örar þróunar
Ör hagvöxtur og þróun í Kína frá lok áttunda áratugarins hefur lyft yfir 800 milljón manns úr fátækt og hefur í kjölfarið gert landið að því landi í heiminum sem stendur fyrir mestri losun gróðurhúsalofttegunda eða rúmlega einn fjórða af heildarlosun.
Meðallosun á íbúa í Kína er þó lægri en meðaltalið fyrir ríki Evrópusambandsins, Japan og Bandaríkin enda er landið það fjölmennasta í heimi. Raforkuframleiðsla stóð fyrir um 78,5% af losun í Kína árið 2012 og kolanotkun stóð fyrir um 66% af orkuneyslu í landinu árið 2014.
Á undanförnum árum hefur Kína miðað að því að auka „gæði hagvaxtar“ úr þeim framleiðslumiðaða hagvexti sem einkenndi þróun landsins frá níunda áratugi síðustu aldar til fyrsta áratugar 21. aldarinnar. Þessi breyting hefur haft í för með sér að hagvöxtur hefur minnkað á síðustu árum og er markmið 13. fimm ára áætlunarinnar (2016-2020) 6,5% árlegur vöxtur. Þjónustugeirinn hefur á undanförnum árum aukið vægi sitt – hann stendur nú fyrir um 57% af hagkerfi landsins – og er markmiðið að gera neyslu innanlands, frekar en útflutning og fjárfestingar, að meginstoð hagkerfisins.
Þessi þróun hefur stuðlað að því að framleiðslugeta landsins á stáli og kolum, hornsteinar hagvaxtar fyrri ára, er talin vera of há sem veldur bæði lofstlagstengdri áhættu en einnig deilum við ESB og Bandaríkin vegna meintra brota á samkeppnislögum í alþjóðaviðskiptum við útflutning á niðurgreiddu stáli. Kínversk stjórnvöld hafa sett markmið um að minnka framleiðslugetu á kolum um 9% og stáli um 13% á næstu fimm árum. Þá kynntu stjórnvöld nú á dögunum að þau ætla sér að draga úr framleiðslugetu á kolum um 300 milljón tonn á ári fram til ársins 2020 en á sama tíma auka framleiðslu úr 3,75 milljörðum tonna í 3,9 milljarða tonna. Ætlunin með því er að færa framleiðslu til skilvirkari verksmiðna.
Stríð gegn mengun
Fjárfestingar í innviðum og hröðun á borgarvæðingu er mikilvægur hlekkur í átt að þróun hagkerfisins í átt að innanlandsneyslu. Sú mikla loftmengun sem er staðreynd í mörgum af stærstu borgum landsins hefur stuðlað að aukinni óánægju meðal almennings á versnandi mengunarástandi. Þessi þrýstingur knúði stjórnvöld til að lýsa yfir „stríði gegn mengun“ vorið 2014 og hefur ákveðin árangur náðst; bæði í mörgum af stærstu borgum landsins þar sem hertar reglugerðir um umhverfisvernd og bætt eftirfylgni þeirra, ásamt betri og nákvæmari mælingum hafa leitt til minnkunnar á loftmengun, en líka á alþjóðavettvangi þar sem stjórnvöld hafa stigið stór skref á undanförnum árum.
Xi Jinping, forseti Kína, og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, komust að samkomulagi í nóvember 2014 þar sem Kína skuldbatt sig til að ná hámarki losunar gróðurhúsalofttegunda í síðasta lagið árið 2030 og til að auka vægi endurnýjanlegra orkugjafa í orkuneyslu landsins til 20%. Í september 2015 tilkynnti Xi Jinping að landið myndi koma á svokölluðu „cap-and-trade“-kerfi fyrir losun kolefna árið 2017. Í september síðastliðnum undirrituðu svo Xi og Obama Parísarsáttmálann en Kína gegndi lykilhlutverki í að leiða sáttmálaviðræðurnar að farsælum enda.
Þá hefur Kína stóraukið nýjar fjárfestingar til endurnýjanlegra orkuauðlinda og varði meira en 100 milljörðum Bandaríkjadala til þeirra árið 2015. Landið hefur mestu framleiðslugetu í heiminum innan vind- og sólarorku. Samhliða markmiði um að auka vægi endurnýjanlegra orkuauðlinda miðar Kína einnig að því að lækka koltvísýringsstig í orkuframleiðslu um 60-65% fyrir árið 2030.
Væntingar millistéttarinnar
Í landi þar sem lífskjör hafa aukist hratt hafa væntingar hinnar nýju, og gríðarlega stóru, millistéttar aukist að sama skapi. Stjórnvöld í Kína hafa á síðustu áratugum reitt sig á að geta skilað háum hagvexti og skilvirkri upprætingu á fátækt sem meginaðferð til að koma til móts við almenning. Eftir því sem um helmingur borgarbúa í Kína er undir 35 ára aldri, og hefur ekki upplifað fátækt og hallæri áttunda og sjöunda áratugarins, eru væntingar þeirra til stjórnvalda um að draga úr mengun háar og eru þau líklegri til að láta heyra í óánægju sinni á samfélagsmiðlum eða í gegnum mótmælisaðgerðir. Aðgerðir Kína til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og nútímavæða hagkerfið eru því ekki einungis gerðar til að styrkja efnahag landsins eða taka leiðtogahlutverk á alþjóðavettvangi heldur eru þær bráðnauðsynlegar fyrir samfélagssáttmála stjórnvalda og nýrrar millistéttar.