Það hefur ekki farið framhjá neinum knattspyrnuáhugamönnum hversu áberandi Kínverjar hafa verið á leikmannamarkaðinum undanfarið. Nánast daglega berast fregnir af svimandi háum tilboðum í stjörnuleikmenn frá nánast óþekktum liðum á borð við Shanghai SIPG, Hebei Fortune og Jiangsu Suning. En hvaðan koma þessir pengingar og af hverju eru Kínverjar að reyna að kaupa allt sem tönn á festir? Er þetta eitthvað tímabil líkt og árin 2003 og 2004 þegar fjöldi þekktra leikmanna fóru til Qatar? Eða er þetta kannski nýr veruleiki í knattspyrnuheiminum?
Fótboltinn rís úr rústum Maó
Kínverjar hafa skarað fram úr í ýmsum íþróttagreinum s.s. fimleikum, borðtennis, badminton og dýfingum. Þær tvær hópíþróttir sem njóta mestrar hylli í landinu eru körfuknattleikur og knattspyrna. Kínverjar eru langsterkasta körfuknattleiksþjóð Asíu og ein af þeim sterkustu í heiminum. En í knattspyrnunni eiga þeir talsvert verk fyrir höndum. Karlaliðið þeirra hefur aldrei unnið asíska meistaratitilinn og einungis einu sinni komist á heimsmeistaramótið, árið 2002. Skýringuna á þessu má að miklu leyti finna í skorti á skipulagðri atvinnumannadeild um langa hríð.
Tilraunir voru gerðar til að koma á fót áhugamannadeild í landinu á sjötta áratug seinust aldar. Menningarbylting Maó formanns á sjöunda áratugnum eyðilaggði hins vegar nánast allt knattspyrnustarf landsins. Þegar Maó lést árið 1976 tók kínverska landsliðið aftur þátt í stórmótum og áratug seinna var Jia-A deildinni komið á laggirnar. Jia-A var aðeins hálfatvinnumannadeild í upphafi en árið 1994 var hún endurskipulöggð og gerð að atvinnumannadeild. Deildin gekk vel í upphafi en í kringum 2000 einkenndist hún af skandölum og spillingu. Fjölmörgum úrslitum hafði verið hagrætt vegna veðmálastarfsemi og almenningur missti áhugann. Á þessum tíma byrjaði Yan Shiduo, varaforseti kínverska knattspyrnusambandsins, að tala fyrir stofnun nýrrar atvinnumannadeildar á grunni Jia-A líkt og gert hafði verið í Englandi með stofnun Úrvalsdeildarinnar árið 1992.
Auk þess að að ná tökum á spillingunni var takmarkið að efla unglingastarfið, stjórnun liðanna og ná betri tökum á fjármálunum. Það varð úr að Kínverska Ofurdeildin (CSL) var stofnuð árið 2004. Fyrstu árin gengu brösulega. Spillingarmálin frá Jia-A tímanum voru ennþá til staðar og áhugi almennings á deildinni lítill. Kínverskur almenningur hafði mikinn áhuga á evrópskum stórliðum, sem voru nú farin að spila æfingaleiki í Kína á sumrin, en CSL tapaði miklum fjárhæðum og það bitnaði á öllu knattspyrnustarfi heima fyrir. Árið 2010 var viss vendipunktur fyrir kínverska knattspyrnu. Þá var ákveðið að taka hart á spillingunni og nokkrir embættismenn úr knattspyrnuhreyfingunni og virtasti knattspyrnudómari landsins voru handteknir. Alls voru 33 aðilar bannaðir frá allir aðkomu að íþróttinni. Eftir aðgerðirnar hefur almenningur sýnt CSL töluvert meiri áhuga.
Annað elliheimili?
Forsvarsmenn CSL hafa alltaf gert sér grein fyrir því að deildin verður aldrei byggð upp af Kínverjum einum saman. Því er takmark þeirra að flytja inn hæfileikaríka erlenda knattspyrnumenn og þjálfara. En það er hægara sagt en gert. Þetta hefur verið reynt í öðrum deildum , s.s. MLS í Bandaríkjunum, J-League í Japan og nokkrum deildum Miðausturlanda en yfirleitt hefur einungis tekist að laða að knattspyrnumenn sem eru á lokaskeiði ferils síns jafnvel þó að góðar summur séu í boði. Sagt hefur verið í háði að þessar deildir séu elliheimili knattspyrnumanna. Árið 2012 virtist CSL ætla að bætast í hóp öldrunarþjónustunnar þegar leikmenn á borð við Frederic Kanoute, Yakubu, Nicolas Anelka og Didier Drogba skrifuðu undir samninga hjá kínverskum félagsliðum.
Liðin fengu þá ódýrt eða frítt en launin voru svimandi há. Didier Drogba fékk t.a.m. 28 milljónir króna í vikulaun hjá liðinu Shanghai Shenshua. Fyrir eldri knattspyrnumenn er CSL tilvalinn staður til að spila í. Leikjaálag er tiltölulega lítið með einungis 16 lið og eina bikarkeppni. Þó að leikvangarnir séu margir hverjir mjög stórir þá eru þeir yfirleitt ekki nema hálffullir í það mesta og áreiti lítið. Mótherjarnir eru einnig flestir ákaflega slakir miðað við þá evrópsku. En Kínverjar vildu ekki reisa enn eitt elliheimilið, þeir vildu fá leikmenn og helst stjörnur á hápunkti ferils síns. Til þess að gera það urðu þeir að byggja upp deild að evrópskri fyrirmynd og til þess að gera það þurftu þeir að fá bestu þjálfarana.
Forsvarsmenn deildarinnar duttu því í lukkupott þegar þeir klófestu Marcelo Lippi, sem gerði Ítala að heimsmeisturum 2006 og Juventus að margföldum Ítalíumeisturum. Lippi gerðist þjálfari liðsins Guangzhou Evergrande árið 2012 og hann byggði upp veldi í kínverskri knattspyrnu (Guangzhou hafa unnið titilinn á hverju ári síðan). Ráðning Lippi laðaði einnig að aðra heimsfræga þjálfara. Má þar nefna Sven Göran Eriksson, Radomir Antic, Luiz Felipe Scolari, Andre Villas-Boas og nú síðast Felix Magath og Manuel Pellegrini. Allt eru þetta knattspyrnustjórar sem gætu hæglega verið að stýra stærstu klúbbum Evrópu og það sýnir hversu mikil alvara er á ferð hjá Kínverjunum.
Forseti með drauma
Árið 2015 fór Xi Jingping, forseti Kína, í heimsókn til enska knattspyrnuliðsins Manchester City. Í kjölfarið keypti ríkisrekna fyrirtækið China Media Capital 13 prósent hlut í félaginu á 37 milljarða króna.
Þetta sama ár lýsti forsetinn yfir þeim vilja sínum að gera Kína að alþjóðlegum íþróttarisa árið 2025 og CSL deildin átti að verða stór þáttur í því takmarki. Ástæðan fyrir þessu er ekki af hégómlegum toga heldur frekar tilraun til þess að efla neytendamarkaðinn heima fyrir í ríki sem hingað til hefur að mestu leyti verið framleiðsluland. Efling CSL á einnig að styrkja kínverska knattspyrnu og kínverska landsliðið. Í deildinni eru strangar reglur um erlenda leikmenn. Hvert lið má einungis hafa 6 erlenda leikmenn á skrá og einungis 4 inn á vellinum í einu. Þar af verður einn leikmaðurinn að koma frá öðru Asíulandi (flestir frá Suður Kóreu). Þá verða allir markverðir deildarinnar að vera Kínverjar. Með þessu fá innlendir leikmenn bæði að spila með og gegn sterkum erlendum mótherjum. Einnig er stefnt á að efla innviði liðanna og deildarinnar til muna, t.d. æfingaaðstöðu, knattspyrnuskóla, dómgæslu, tæknimál og fleira. En hver borgar þetta allt saman? Heróp Xi forseta bergmálar um deildina og eigendurnir liðanna hlýða því. Í upphafi voru eigendur liðanna úr ýmsum geirum, t.a.m. nokkrir tóbaksframleiðendur. En síðan þá hafa fasteignarisar tekið við að mestu. Þessir fasteignahringir eiga mikið undir góðum samskiptum við ríkið og kommúnistaflokkinn og að splæsa í nokkra knattspyrnumenn er lítil fórn í því samhengi. Forsetinn og eigendurnir hafa því gengið algerlega samstíga í þessu verkefni.
Leiftursókn
Kínverjar létu til sín taka á árinu 2016. Þann 29. janúar keypti liðið Jiangsu Suning brasilíska miðjumanninn Ramires frá Chelsea á 3,5 milljarð króna sem var asískt met. Fimm dögum seinna keypti Guangzhou Evergrande kólumbíska framherjann Jackson Martinez á tæpa 5 milljarða frá Atletico Madrid. Tveim dögum seinna keyptu Jiangsu Suning svo brasilíska miðjumanninn Alex Teixeira frá Shakhtar Donetsk á tæpa 6 milljarða, næstum tvöfallt það sem enska liðið Liverpool bauð í leikmanninn.
Metið hafði því verið slegið þrisvar sinnum á einungis viku og allir leikmennirnir voru innan við þrítugt og meðal eftirsóttustu leikmanna á evrópska markaðinum. Þetta voru ekki bara hefðbundin fótboltaviðskipti heldur stefnuyfirlýsing um það sem koma skyldi. Hér eftir yrðu Kínverjar stórt afl á markaðinum og myndu keppa við evrópsk lið um leikmenn á hátindi ferils síns. Árið var hins vegar aðeins rétt byrjað og Kínverjar héldu áfram að láta til sín taka á markaðinum. Þann 30. júní var metið slegið í fjórða sinn þegar Shanghai SIPG keyptu brasilíska framherjann Hulk frá Zenit í Pétursborg á rúmlega 6,5 milljarða. Loks var það slegið í fimmta sinn á þorláksmessu þegar tilkynnt var að sama lið hefði keypt brasilíska miðjumanninn Oscar frá Chelsea á 8,5 milljarða.
En það eru ekki bara kaupsamningarnir sem vekja athygli heldur einnig launagreiðslurnar. Það sást best þegar argentínski framherjinn Carlos Tevez var keyptur til Shanghai Greenland Shenshua frá Boca Juniors (þar sem hann ætlaði að enda ferilinn) 29. desember. Tevez verður langlaunahæsti leikmaður heims með rúmlega 85 milljónir í vikulaun.
Af 20 launahæstu leikmönnum heims í dag spila 6 í CSL deildinni og þeim mun bara fjölga. Þeir eru nú (í evrum mælt, árstekjur):
16. Ezequiel Lavezzi Hebei Fortune 31 milljón
15. Asamoah Gyan Shanghai SIPG 31,5 milljón
8. Graziano Pelle Shandong Luneng 40,5 milljón
6. Hulk Shanghai SIPG 44,5 milljón
2. Oscar Shanghai SIPG 55,5 milljón
1. Carlos Tevez Shanghai Shensua 85,5 milljón
Evrópu brugðið
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að England og Evrópa ætti að hafa áhyggjur af Kína. Ekki einungis vegna þess að hæfileikamiklir knattspyrnumenn hverfi úr deildinni heldur einnig vegna þess að þetta muni valda gríðarlegri verðbólgu á evrópska markaðinum.
Sjálfur er hann að glíma við tvær af sínum eigin stjörnum, Alexis Sanchez og Mesut Özil, sem báðir hafa fengið tilboð um laun frá kínverskum liðum sem Arsenal geta engan veginn keppt við. Vandamálið sé að hækkandi kaupverð og launagreiðslur muni einungis valda ójöfnuði í knattspyrnuheiminum. Önnur ensk lið hafa líka áhyggjur af sínum stjörnum. Kínversk lið hafa t.a.m. borið víurnar í framherjana Diego Costa hjá Chelsea og Zlatan Ibrahimovic hjá Manchester United.
Sagt er að kínverskt lið hafi boðið hinum 35 ára gamla Ibrahimovic um 16,5 milljarð til að flytja sig um set og að kínverska ríkið væri viljugt að fjármagna það að hluta. Auðvitað hafa tvær stærstu knattspyrnustjörnur samtímans einnig verið nefndar, Lionel Messi og Cristiano Ronaldo. Umboðsmaður Ronaldo fullyrti að ónefnt kínverskt lið hefði boðið Real Madrid 35,5 milljarð króna og leikmanninum um 12 milljarða í árslaun. Það eru heldur ekki einungis leikmenn og þjálfarar sem Evrópa þarf að hafa áhyggjur af að missa því að þekktasti dómari ensku Úrvalsdeildarinnar, Mark Clattenburg, hefur einnig fengið tilboð frá risanum í austri.
Hvort sem Wenger eða öðrum líkar betur eða verr þá eru Kínverjar komnir til að vera. CSL vex hratt og mun halda áfram að vaxa á næstu árum. Árið 2010 borguðu aðalstyrktaraðilar deildarinnar um 4 milljarða á ári en nú er upphæðin orðin 21,5 milljarður. Nýr sjónvarpssamningur sem undirritaður var árið 2016 hækkaði árlegar greiðslur til deildarinnar úr 1 milljarði í 27 milljarða!
Þá er talið að Kínverjar stefni á að halda heimsmeistaramót árið 2030 og Xi Jingping vill ekki bara halda mótið, hann vill vinna það. Þetta er einfaldlega sá veruleiki blasir við og evrópsk lið verða að takast á við hann. Þann 2. janúar 2017 hafnaði belgíski miðjumaðurinn Axel Witsel ítalska risanum Juventus fyrir Kína. Hann sagði:
Þetta var mjög erfið ákvörðun af því að annars vegar var það risaklúbburinn Juventus og hins vegar ómótstæðilegt boð fyrir framtíð fjölskyldu minnar.
Þá er talið að einn eftirsóttasti framherji heims, Gabon-maðurinn Pierre-Emerick Aubameyang hjá Borussia Dortmund muni halda til Kína fyrir tæplega 18 milljarða króna. Það er rúmum 5 milljörðum meira en Manchester United greiddu fyrir Paul Pogba. Uli Höness, forseti Bayern Munchen, hafði þetta um það að segja:
Þetta er sjúkt. Þetta er ekkert nema sjúkt. Ég vona bara að þetta sé tímabundið eins og í Ameríku fyrir nokkru síðan.
Það er ljóst að ráðamönnum evrópskrar knattspyrnu er brugðið. En þetta er hinn nýji veruleiki og kannski verður Xi Jinping að ósk sinni. Kannski munu íslensk ungmenni þurfa að vaka langt fram á nætur til að sjá uppáhalds knattspyrnustjörnur sínar spila. Kannski verður CSL orðin sterkasta deild heims árið 2025.