Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er nú að myndast eftir að þingflokkar og trúnaðarmenn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins samþykktu stjórnarsáttmála flokkana í gærkvöldi. Eftir stjórnarkreppu síðustu mánaða, frá kjördegi 29. október, sér nú loks til lands við myndun nýrrar ríkisstjórnar.
Frændurnir Bjarni og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, verða í lykilhlutverkum í stjórninni. Bjarni verður forsætisráðherra en Benedikt fjármála- og efnahagsráðherra. Reiknað er með því að tilkynnt verði um aðra ráðherraskipan í dag og stjórnarsáttmálann sjálfan sömuleiðis.
Fyrsta tilraun þessara flokka til að mynda ríkisstjórn gekk ekki upp. Það sama átti við um tvær tilraunir flokkanna fimm, Vinstri grænna, Pírata, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Samfylkingarinnar, en þær fóru út um þúfur.
Við erum HAM!
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og söngvari í hinni goðsagnarkenndu þungarokkssveit HAM, leiddi viðræðurnar fyrir hönd Bjartrar framtíðar
Eins og viðræðurnar hafa verið til þessa, þá er gert ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn fái, auk forsætisráðuneytisins, innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Fastlega má búast við því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður um árabil, verði ráðherra í ríkisstjórninni, sem og Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Auk efnahags- og fjármálaráðuneytisins fær Viðreisn ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, og ráðuneyti félags- og húsnæðismála í velferðarráðuneytinu. Björt framtíð mun hins vegar skipa ráðherra heilbrigðismála í velferðarráðuneytinu ásamt umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
Greint var frá þessari skipan í Morgunblaðinu í gær, en undanfarnar vikur hafa flokkarnir rætt það sína á milli hvernig verkaskiptingin skuli vera við ríkisstjórnarborðið.
Meirihluti flokkanna mun í reynd hanga á bláþræði frá fyrsta degi þar sem flokkarnir eru með 32 þingmenn af 63, eða aðeins eins manns meirihluta í þinginu. Mikið mun því reyna á trúnað og samheldni í samstarfinu. Sjálfstæðisflokkur er með 21 þingmann, Viðreisn sjö og Björt framtíð fjóra.
Peningastefnan, jafnlaunavottun og sjávarútvegur
Samkvæmt heimildum Kjarnans kemur fram í stjórnarsáttmála flokkanna að peningastefnan verði endurskoðuð og niðurstaða í þeirri vinnu liggi fyrir innan árs. Þá verða búvörusamningar endurskoðaðir og miðað við að það verði gert á næstu tveimur árum, eða fyrir lok árs 2019.
Þá stefnir ríkisstjórnin að jafnlaunavottun og verður hún lögfest, og miðað þar við fyrirtæki með 25 starfsmenn og fleiri. Í því felst róttækt breyting sem á að miða að því að jafna út óútskýrðan launamun kynjanna á vinnumarkaði.
Samkvæmt heimildum Kjarnans verður unnið að því að koma á námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd. Þá verður horft til þess að breyta sjávarútvegskerfinu. Í stað ótímabundins afnotaréttar auðlindarinnar verður skoðað að taka upp leigu á aflaheimildum til langs tíma, og þá horft til þess að afkomutengja breytinguna eins og frekast er unnt, til að tryggja stöðugra rekstrarumhverfi.
Í stjórnarsáttmálanum er síðan gert ráð fyrir að þingið muni ráða því hvort aðildarviðræður við Evrópusambandið eigi að halda áfram, og verður þingsályktunartillaga þess efnis lögð fram á síðari hluta kjörtímabilsins.
Frekar upplýsingar um stjórnarsáttmálann munu koma fram í dag, eins og áður segir, og munu þær birtast hér á vef Kjarnans jafn óðum.