Í byrjun árs 2015 tóku Danir upp gæslu og vegabréfaskoðun á landamærum Þýskalands og Danmerkur. Sú ákvörðun var tekin í kjölfar kröfu Svía um skilríkjaskoðun á landamærum Danmerkur og Svíþjóðar. Svíar beittu fyrir sig sérstöku ákvæði Schengen samkomulagsins (svonefndri flytjandaábyrgð) sem skyldar fyrirtæki sem annast farþegaflutninga milli landa að skoða skilríki farþega við brottför úr einu landi til annars. Svíar voru mjög ósáttir við að Danir hleyptu öllu flóttafólki sem streymdi til Danmerkur, frá Þýskalandi, áfram til Svíþjóðar. Dönsk stjórnvöld sáu sér ekki annað fært en verða við kröfu Svía en tóku jafnframt upp eftirlit á landamærunum við Þýskaland. Að öðrum kosti hefðu þeir „setið uppi“ með þúsundir, jafnvel tugþúsundir flóttafólks sem óskað hefðu landvistar. Slíkt hefði orðið Dönum ofviða, að mati stjórnvalda.
Tíu daga tilraun sem stendur enn
Þegar Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra tilkynnti um landamæragæsluna 4. janúar í fyrra (frumvarpið var lagt fram í nóvember 2015) sagði hann að hér væri um að ræða tíu daga tilraun sem hægt yrði að framlengja um tuttugu daga til viðbótar. Síðan forsætisráðherrann tilkynnti þetta verða brátt liðnir fjögur hundruð dagar og landamæragæslan er enn við lýði. Aðgerðin var strax framlengd um áðurnefnda tuttugu daga en hefur síðan verið framlengd um þrjá mánuði í hvert sinn, núverandi framlenging gildir til 4. febrúar næstkomandi.
Misjöfn viðbrögð
Landamæragæslan var frá upphafi umdeild, jafnt utan þings sem innan. Mesta athygli vakti að lögreglu og tollgæslu væri heimilað, og gert skylt, að leggja hald á verðmæti svo sem skartgripi ýmiskonar, gull og reiðufé. Fólk mætti hafa með sér verðmæti, reiðufé meðtalið, sem næmi þrjú þúsund krónum dönskum (ca. 50 þúsund krónur) við komuna til Danmerkur. Allt umfram það skyldi gert upptækt. Stjórnin dró síðar nokkuð í land og upphæðin (peningar og skart) sem fólk mátti hafa með sér hækkuð í tíu þúsund krónur (rúmlega 150 þúsund íslenskar). Fólki skyldi einnig heimilt að halda hlutum sem hefðu sérstakt tilfinningalegt gildi (t.d. fermingarúrið og hringurinn sem amma átti). Í Danmörku eru þessi lög kölluð „smykkeloven“, skartgripalögin.
Líkt við þýsku nasistana
Fréttirnar um skartgripalögin fóru sem eldur í sinu og voru til umfjöllunar í fjölmiðlum víða um heim. Talað var um mannvonsku og útlendingahatur. „Stendur til að rífa gullfyllingar úr tönnum flóttafólks sem leitar til Danmerkur?“ var fyrirsögn í enskum netmiðli sem skírskotaði þannig til framferðis nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Þótt danska stjórnin, með Inger Støjberg, ráðherra innflytjendamála, í fararbroddi reyndi að útskýra reglurnar tókst það misjafnlega og varð ekki til að lægja öldurnar. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gagnrýndi ákvarðanir dönsku stjórnarinnar og framkvæmdastjóri SÞ skrifaði Lars Løkke forsætisráðherra bréf þar sem hann lýsti áhyggjum sínum. Allt kom fyrir ekki, skargripafrumvarpið varð að lögum og þau eru enn í gildi. Þeim hefur hins vegar einungis fjórum sinnum verið beitt á þessu rúma ári sem liðið er frá gildistökunni.
Erfitt verkefni
Eins og áður sagði var það upphaflega krafa Svía um eftirlit og vegabréfaskoðun á landamærum Danmerkur og Svíþjóðar sem varð til þess að eftirlitinu var komið á. Samgönguleiðir milli þessara tveggja landa liggja fyrst og fremst um Eyrarsundsbrúna, milli Malmö og Kaupmannahafnar (með lestum og bílum) og með ferjum á milli Helsingjaeyrar á Norður-Sjálandi og Helsingjaborgar á Skáni. Landamæri Danmerkur og Þýskalands eru flóknari, þau eru 70 kílómetra löng og þar eru þrettán landamærastöðvar. Flestar þeirra hafa um langt árabil verið ómannaðar enda arfur frá gamalli tíð. Auk þess eru ótal vegir og stígar sem liggja milli landanna tveggja sem enginn fylgist með. Járnbrautin sem tengir löndin tvö liggur um Padborg og þar er, ásamt í bænum Flensborg, miðstöð tollafgreiðslu, en hundruð flutningabíla fara um landamærin á degi hverjum. Við þetta bætast ferjurnar sem sigla til Rödby og Gedser. Af framangreindu má sjá að landamæraeftirlitið yrði ekki auðleyst verkefni sem auk þess krefðist mikils mannafla.
Tvö hundruð á vaktinni hverju sinni
Þótt frá byrjun hafi verið ákveðið að eftirlitið yrði einungis á þeim stöðum sem bílar og almenningsfarartæki fara um var talið að um það bil tvö hundruð lögreglumenn þyrfti til að sinna eftirlitinu hverju sinni, miðað við þrískiptar vaktir þýddi það samtals sex hundruð manns. Þann fjölda var ekki hægt að „grípa upp af götunni“ og lögregluþjónar víðs vegar úr Danmörku voru þess vegna sendir til starfa við landamærin. Sú ákvörðun sætti mikilli gagnrýni því á stórum svæðum í landinu var nánast engin löggæsla mánuðum saman. Lögreglan hefur á undanförnum árum mátt þola mikinn niðurskurð og lögregluliðið mun fámennara en t.d fyrir áratug. Óvissan og stöðugar fréttir af niðurskurði hefur leitt til þess að færri en áður sækjast eftir störfum í lögreglunni. Fyrir nokkru ákvað ríkisstjórnin að stytta lögreglunámið úr þremur árum í tvö, það hafði engin áhrif á aðsóknina, hún jókst ekki. Skömmu fyrir síðustu áramót var svo kynnt nýtt nám, kallað kadettnám. Sex mánaða nám sem veitir réttindi til að sinna ýmsum verkum sem lögreglan hefur annars haft á sinni könnu, t.d. flutning á föngum vegna réttarhalda, vegaeftirlit o.s.frv.
Kostnaðurinn við landamæragæsluna er mikill, Danir fóru fram á það við Þjóðverja að þeir tækju á sig hluta hans en Þjóðverjar sögðu þvert nei við þeirri beiðni. Á allra síðustu mánuðum hefur dregið mjög úr flóttamannastraumnum og mun færra fólk sinnir nú landamæragæslunni. Kostnaðurinn er eigi að síður umtalsverður og vex mörgum í augum.
Þrjár milljónir skilríkja skoðaðar
Á því rúma ári sem liðið er síðan landamæraeftirlitið hófst hafa danskir landamæraverðir samtals rýnt í skilríki þriggja milljóna fólks. Nokkur hluti þessa hóps er fólk sem ferðast milli landanna vegna vinnu sinnar og það er ekki sátt við eftirlitið. Þótt tafirnar vegna vegabréfaskoðunar séu styttri en í upphafi tekur ferðalagið til og frá vinnu talsvert lengri tíma en áður var. Á þessu rúma ári hefur þrjú þúsund manns verið synjað um að koma til landsins, frá Þýskalandi og tvö hundruð og tuttugu ákærur vegna gruns um smygl á fólki.
Hverju hafa eftirlitið og skartgripalögin skilað?
Við þessari spurningu er ekki til einfalt svar. Tölur sýna að flóttafólki og hælisleitendum hefur fækkað mjög að undanförnu. Fyrir því eru margar ástæður, danskir ráðherrar segja að landamæraeftirlitið eigi sinn þátt í því að færri reyni að komast til Danmerkur en aðstæður í Evrópu hafa líka breyst mikið og flóttamannastraumurinn ekki jafn stríður og fyrir ári síðan. Áhrif skartgripalaganna er mjög erfitt að meta. Eins og fram kom framar í þessum pistli hefur lagaákvæðinu um upptöku eigna einungis verið beitt fjórum sinnum á þessu rúma ári. Ekkert liggur fyrir um að fólk hafi snúið við á landamærunum þegar því varð ljóst að eigur þess yrðu hugsanlega gerðar upptækar. Líklegri skýring á því hvers vegna lagaákvæðinu hefur svo sjaldan verið beitt er sú að lögregla og tollverðir hafa átt í vandræðum með að framfylgja því. Þá er kannski auðveldast að snúa blinda auganu að. Inger Stojberg, ráðherra innflytjendamála, lýsti því yfir í blaðaviðtali fyrir nokkrum dögum að skartgripalögin hefðu náð tilgangi sínum. Mikilvægt væri að þeim sem sækjast eftir landvist í Danmörku sé ljóst að þeir geti ekki komið með fulla vasa fjár til landsins og ætli síðan að framfleyta sér á kostnað samfélagsins. „Þessar reglur eru þær sömu og gilda um Dani,“ sagði ráðherrann.