Mary krónprinsessa Danmerkur, eiginkona Friðriks krónprins er í miklu áliti meðal Dana. Vann hug og hjörtu dönsku þjóðarinnar allt frá fyrsta degi. Þykir einkar aðlaðandi og allir sem kynnast henni hrífast af henni. Sama gildir um erlenda gesti sem sækja Danmörk heim og þá sem henni kynnast í heimsóknum dönsku konungsfjölskyldunnar til annarra landa.
Mary er sömuleiðis eftirlæti dönsku „glanstímaritanna“ enda líður ekki sú vika að þar sé ekki myndir af henni að finna og oftast fleiri en eina eða tvær. Danskir fjölmiðlar fjalla yfirleitt á fremur jákvæðan hátt um fjölskyldu Margrétar Þórhildar drottningar, þeir fara ekki dult með þá skoðun sína að Friðrik krónprins hefði ekki getað verið heppnari en þegar hann lagði snörur sínar fyrir Mary Elizabeth Donaldson.
Foreldrarnir skoskir innflytjendur
Foreldrar Mary, John og Henrietta Donaldson, fluttu, nýgift, frá Skotlandi til Tasmaníu haustið 1963, en fyrr á árinu hafði John lokið háskólaprófi í stærð- og eðlisfræði. Foreldrar hans höfðu nokkrum árum áður tekið sig upp og flutt til Ástralíu. John Donaldson varð prófessor við Háskólann í Tasmaníu og gegndi því starfi uns hann fór á eftirlaun árið 2003. Henrietta, móðir Mary starfaði á skrifstofu Háskólans í Tasmaníu en hún lést árið 1997. Þau hjónin eignuðust fjögur börn, Mary er yngst. John giftist aftur árið 2001 sakamálahöfundinum Susan Elizabeth Horwood.
Fæddist í Hobart, borginni þar sem hundadagakóngurinn bjó
Mary Donaldson fæddist 5.febrúar árið 1972 í borginni Hobart í Tasmaníu. Hobart, sem er höfuðborg Tasmaníufylkis, var stofnuð sem fanganýlenda árið 1803 og er næstelsta borg Ástralíu. (Jörundur hundadagakonungur bjó frá árinu 1825 í Hobart þar sem hann lést árið 1841, frjáls maður.)
Mary er með háskólapróf í lögfræði og viðskiptum og lauk síðar námi í markaðs- og auglýsingafræðum. Að loknu námi flutti hún til Melbourne og síðar Sydney og vann hjá markaðs- og kynningarfyrirtækjum.
Afdrifarík ferð á krána
Laugardaginn 16. september árið 2000 bauð vinkona Mary henni með sér á krána „Slip Inn“ í Sydney en Ólympíuleikarnir stóðu þá yfir í borginni. Vinkonan hafði sagt Mary að þarna yrðu nokkrir Spánverjar, keppendur á leikunum. En þarna voru fleiri, meðal annars Nikolaos sonur Önnu Maríu, systur Margrétar Þórhildar Danadrottningar og Konstantíns fyrrverandi Grikkjakonungs. Með Nikolaos voru tveir danskir frændur hans, Friðrik og Jóakim. „Ég vissi fyrst ekkert hvaða strákar þetta voru“ sagði Mary síðar. En þessi ferð á krána leiddi til nánari kynna þeirra Mary og „stráksins“ Friðriks. Þau hittust aftur á kránni kvöldið eftir og nokkrum sinnum eftir það meðan Ólympíuleikarnir stóðu yfir.
Danskir blaðamenn hafa gegnum árin fylgst grannt með konungsfjölskyldunni, ekki síst krónprinsinum en að hann væri kominn í kynni við ástralska stúlku fór lengi vel algjörlega framhjá þeim. Friðrik fór á næstu mánuðum nokkrum sinnum til Ástralíu en Mary kom á þeim tíma aldrei til Danmerkur, Friðrik hefur vitað sem var að þá fengju þau ekki stundlegan frið fyrir blaðamönnum sem þyrsti í fréttir, ekki síst af hugsanlegum kvennamálum krónprinsins. Ríkisarfinn var jú kominn yfir þrítugt og ekkert (svo vitað væri) að gerast í ástamálum hans.
Mary flytur til Danmerkur
Þrátt fyrir að þeim Mary og Friðriki hafi lengi tekist að halda sambandi sínu leyndu kom þó að því að danskir blaðamenn kæmust á snoðir um að krónprinsinn væri í nánu sambandi við ástralska stúlku. Mary flutti til Kaupmannahafnar haustið 2002, eftir nokkurra mánaða dvöl í París, og bjó til að byrja með „úti í bæ“ í íbúð við Löngulínu. 8. október 2003 var tilkynnt opinberlega um trúlofun hennar og Friðriks, þá hafði Margrét Þórhildur drottning samþykkt ráðahaginn. Danskir fjölmiðlar fullyrtu að drottningin hefði frá fyrsta degi verið mjög ánægð með þessa stúlku „sem Friðrik sótti yfir hálfan hnöttinn“ eins og eitt blaðanna komst að orði.
Gefin saman í Frúarkirkju
14. maí 2004 voru þau Mary og Friðrik pússuð saman, með viðhöfn í Frúarkirkju, Dómkirkju Kaupmannahafnar. Danskir miðlar nefndu það sérstaklega að brúðarslörið hefði verið sex metra langt og annað eftir því. Frúarkirkja var blómum skreytt og að athöfninni lokinni óku þau nýgiftu í hestvagni um miðborg Kaupmannahafnar þar sem mannfjöldi fagnaði þeim. Ökuferðinni lauk við Amalienborg þarsem brúðhjónin sýndu sig á svölum hallarinnar ásamt Margréti Þórhildi, Henrik drottningarmanni og föður brúðarinnar og eiginkonu hans. Danska þingið, Folketinget, hafði samþykkt að Mary, sem var ástralskur og breskur ríkisborgari, fengi á brúðkaupsdaginn danskan ríkisborgararétt.
Varð strax ein af dönsku „stórfjölskyldunni“
Mary, sem fékk titilinn krónprinsessa við brúðkaupið, ávann sér strax hylli Dana og eitt glanstímaritanna hitti naglann á höfuðið þegar það sagði að hún hefði strax orðið hluti af dönsku „stórfjölskyldunni“. Krónprinsessan náði mjög fljótt góðum tökum á dönskunni (sem er síður en svo sjálfgefið) og hefur frá upphafi tekið mikinn þátt í þeim skyldum og verkefnum sem tilheyra fjölskyldu Margrétar Þórhildar. Mörg þeirra verkefna eru það sem kalla mætti skylduverk en á allra síðustu árum hefur mátt sjá þess greinileg merki að drottningin er smám saman að færa fjölmörg verkefni yfir á herðar ríkisarfans og krónprinsessunnar. Yfirskrift þessa pistils er „Sannkallaður betri helmingur krónprinsins“.
É
g berst fyrir réttlæti barna og kvenna í veröldinni, réttindum þeirra til jafns við eiginmenn þeirra, bræður og syni.
Það orðatiltæki nota Danir sjaldnast en í tilviki krónprinsessunnar á það vel við, án þess að lítið sé gert úr eiginmanninum. Þau eru að mörgu leyti ólík, hann er það sem stundum er kallað „íþróttatýpa“, mjög áhugasamur um íþróttir og líkamsrækt en hefur síður hinar listrænu taugar foreldranna. Krónprinsessan hefur minni áhuga á íþróttum en þeim mun meiri á mannúðarmálum, einkum málefnum barna og kvenna. Hún hefur látið mjög til sín taka á þeim vettvangi og ver miklu af tíma sínum í allskyns verkefni tengd þessum baráttumálum. Á ráðstefnu í New York fyrir nokkru dró hún saman í einni setningu þessi baráttumál „ég berst fyrir réttlæti barna og kvenna í veröldinni, réttindum þeirra til jafns við eiginmenn þeirra, bræður og syni“. Margrét Þórhildur hefur margoft í viðtölum lýst hrifningu sinni á Mary og þeim fjölmörgu verkefnum sem hún helgar krafta sína. Í viðtali við dagblaðið Berlingske sagði Margrét Þórhildur „það getur verið að ég sé hræðileg tengdamóðir en ég er afar stolt tengdamóðir“!
Góð saman
Danir voru fljótir að átta sig á hvern mann krónprinessan hefur að geyma, dugnað hennar og vinnusemi. Þótt lágt færi heyrðust þær raddir að hún kæmi til með að skyggja á eiginmanninn. Tveir blaðamenn sem þekkja vel til konungsfjölskyldunnar telja slíkan ótta ástæðulausan, Friðrik sé ákaflega stoltur af eiginkonunni, hún hafi líka opnað augu hans fyrir ýmsu sem hann hafði lítinn áhuga sýnt áður en þau kynntust. Þau bæti hvort annað upp ef svo megi segja, séu góð saman.
Fjölskyldan númer eitt
Þrátt fyrir allt annríkið, ferðalögin og þeytingin innan lands og utan vanrækja þau Mary og Friðrik ekki fjölskylduna. Þau eiga fjögur börn, elstur er Christian, sem fullu nafni heitir Christian Valdemar Henri John, fæddur 15. október 2005, næst í röðinni er Isabella Henrietta Ingrid Margrethe fædd 21. apríl 2007 og loks tvíburarnir Vincent Frederik Minik Alexander og Josephine Sophia Ivalo Mathilda. Þau komu í heiminn með tuttugu mínútna millibili 6. ágúst 2010. Krónprinsparið hefur lagt mikla áherslu á að uppeldi barnanna sé sem líkast því sem gengur og gerist, t.d. varðandi skólagöngu.
Þau Mary og Friðrik búa, ásamt börnunum fjórum, í einni af höllum Amalienborgar en hafa einnig til umráða svonefnt Kansellihús við Fredensborg höll á Norður-Sjálandi.