Viðskiptalegt samband milli Íslands og Bandaríkjanna hefur aukist með dramatískum hætti á undanförnum tveimur árum og munar þar mestu mikla fjölgun ferðamanna. Hlutfallsleg fjölgun farþega frá Bandaríkjunum hefur verið langt umfram hlutfallslegan vöxt í ferðaþjónustunni og var árið í fyrra algjört met ár hvað þetta varðar.
Af um 1,8 milljóna heildarfjölda erlendra ferðamanna þá komu 415 þúsund frá Bandaríkjunum, eða sem nemur um 24 prósent af heildinni. Sé mið tekið af greiningum sérfræðinga á gjaldeyrisinnstreymi ferðaþjónustunnar í fyrra þá komu um 430 milljarðar inn í landið frá erlendum ferðamönnum. Nákvæmar tölur liggja þó ekki fyrir enn um hvernig útkoman var í fyrra. Því er spáð að aukningin í ferðaþjónustu verði mikil á þessu ári og heildarfjöldi gesta fari yfir 2,2 milljónir.
Sé mið tekið af fyrrnefndu hlutfalli þá komu bandarískir ferðamenn með ríflega 100 milljarða inn í landið í fyrra og eyddu í ýmsa þjónustu fyrir ferðamenn.
Vöxturinn í vöruútflutningi hefur hins vegar ekki verið mikill á undanförnum árum, en í fyrra nam hann um 40 til 42 milljörðum króna. Hagstofan hefur aðeins birt stöðuna fyrir fyrstu ellefu mánuðina, og nemur útflutningurinn þá ríflega 38 milljörðum króna. Miðað við meðaltalið á mánuði á fyrstu ellefu mánuðum þá má gera ráð fyrir að vöruútflutningurinn í desember mánuði hafi numið um 2 til 4 milljörðum króna.
Það eru einkum sjávarafurðir sem fara inn á Bandaríkjamarkað.
Á fyrstu ellefu mánuðum ársins nam vöruúflutningurinn í heild sinni um 495,8 milljörðum króna, samkvæmt tölu Hagstofu Íslands. Hlutur vöruútflutnings til Bandaríkjanna er um 8,4 prósent. Langsamlega mest af vöruútflutningi frá Íslandi fer til EES-svæðisins.