Tæknilegur ágreiningur um meðferð gagna einnar umtöluðustu loftslagsrannsóknar síðari ári á milli vísindamanna bandarískrar alríkisstofnunar breyttist í samsæri loftslagsvísindamanna um að blekkja þjóðarleiðtoga til aðgerða með fölsuðum gögnum í meðförum bresks götublaðs um síðustu helgi. Vísindamenn hafa verið fljótir að kveða nýjustu samsæriskenninguna niður.
Um árabil hefur fámennur en hávær hópur fólks haldið því fram að vísindamenn um allan heim hafi falsað gögn um hitastig jarðar til að sýna fram á hnattræna hlýnun af völdum manna. Þessi hópur taldi sig hafa fengið enn frekari staðfestingu á hugmyndum sínum um síðustu helgi þegar fyrirsögn í götublaðinu Mail on Sunday básúnaði: „Afhjúpun: Hvernig þjóðarleiðtogar voru gabbaðir til að fjárfesta milljarða með hagræddum gögnum um hlýnun jarðar“. Þar var því var haldið fram að slóttugir bandarískir alríkisvísindamenn hefðu átt við gögn um hitastig til að láta líta út fyrir að hlýnun jarðar undanfarna áratugi hafi verið meiri en raun ber vitni.
Málið snýst um rannsókn vísindamanna Haf- og loftslagsrannsóknarstofnunar Bandaríkjanna (NOAA) sem birt var sumarið 2015 og vakti mikla athygli á sínum tíma. Í henni voru uppfærðar hitastigstölur notaðar til að sýna að ekki hefði hægt á hnattrænni hlýnun undanfarna tvo áratugi eins og kenningar höfðu verið uppi um heldur hefði hún verið stöðug síðustu öldina.
Fullyrðingar Mail on Sunday byggjast á bloggskrifum John Bates, fyrrverandi starfsmanns NOAA, sem segir að aðstandendur rannsóknarinnar hafi ekki fylgt reglum stofnunarinnar um gögn og flýtt birtingu niðurstaðnanna til að hafa áhrif á útkomu loftslagsfundar Sameinuðu þjóðanna þar sem Parísarsamkomulagið var undirritað.
Hléið sem aldrei var
Til að skilja uppþotið nú þarf að skilja þýðingu þessa meinta „hlés“ á hnattrænni hlýnun og hvernig rannsókn NOAA var tekið á sínum tíma. Andstæðingar loftslagsvísinda stukku á hugmyndir vísindamanna um að svo virtist sem að hægt hefði á hlýnuninni sem mældist eftir 1998 til að skapa efa um að hnattræn hlýnun af völdum manna ætti sér yfir höfuð stað og að menn þyrftu að bregðast við henni. Á sama tíma grunaði marga vísindamenn þó að orsökin fyrir því að þeir greindu hægari hlýnun væri sú að þeir hefðu vanmetið hlýnun hafsins sem hefur drukkið í sig meirihluta hlýnunarinnar sem menn hafa valdið
Þegar niðurstöður NOAA undir forystu Thomas Karl, sem þá var forstöðumaður umhverfisupplýsingamiðstöðvar hennar, voru birtar í tímaritinu Science sumarið 2015 var þessum efasemdamönnum ekki hlátur í huga. Uppfærðar tölur um hitastig yfir sjó leiddu í ljós að ekki hefði hægt á hlýnun. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að hitastigsmælingar séu uppfærðar eftir á, meðal annars vegna mismunandi mæliaðferða. Í rannsókninni voru tölurnar uppfærðar með því að breyta vægi mismunandi mæliaðferða fyrir hitastig yfir sjó til að fá nákvæmari niðurstöður.
Vísindanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings undir forystu repúblikanans og loftslagsvísindaafneitarans Lamars Smith reyndi meðal annars að stefna stofnuninni til að afhenda persónulega tölvupósta vísindamannanna, svo gramur var hann NOAA vegna rannsóknarinnar. NOAA neitaði hins vegar.
„Það var óheppilegt fyrir þessa ríkisstjórn að loftslagsgögn hafi greinilega sýnt enga hlýnun undanfarna tvo áratugi,“ sagði Smith sem sá pólitískt samsæri á bak við rannsókn NOAA.
Það þarf því ekki að koma á óvart að vísindanefndin dreifði grein Mail on Sunday um meint misferli NOAA-manna á Twitter-reikningi hennar í síðustu viku. Smith sagði meðal annars að hún sýndi að vísindamennirnir hefðu „farið frjálslega með gögn til að ná fram fyrirframskilgreindri pólitískri niðurstöðu“. Nýtti hann málið óspart á fundi nefndarinnar um framtíð bandarísku umhverfisstofnunarinnar í síðustu viku.
Kollegar segja vísindin traust
Voru niðurstöður Karl og félaga falsaðar eftir allt saman eins og Mail on Sunday fullyrðir að Bates hafi ljóstrað upp um? Gagnrýnin sem Bates setur fram er að mestu leyti hátæknilegs eðlis. Samkvæmt Washington Post snýst hún í grunninn um innanhússreglur NOAA varðandi skráningu og varðveislu gagna sem hann telur að rannsakendurnir hafi ekki fylgt í þaula. Það komi, að hans mati, í veg fyrir að hægt sé að endurtaka og staðfesta niðurstöður þeirra. Hann hefur einnig áhyggjur af áreiðanleika hugbúnaðar sem var notaður við rannsóknina og fullyrðir ennfremur að rannsakendurnir hafi átt við gögnin til að sýna meiri hlýnun og flýtt birtingu fyrir Parísarfundinn í desember 2015.
Halldór Björnsson, hópstjóri loftslagsrannsókn Veðurstofu Íslands sem vann meðal annars á rannsóknastofu NOAA fyrir tæpum tuttugu árum, segir að sér virðist sem að Bates hafi einlægan áhuga á að gæði gagna NOAA séu tryggð og farið sé eftir réttum verkferlum. Bates fullyrði hins vegar ekki í bloggfærslu sinni að gögnin séu gölluð, aðeins að réttum verkferlum hafi ekki verið fylgt og því sé ekki hægt að gulltryggja gögnin. Honum virðist sem að um innanbúðardeilur innan stofnunarinnar sé að ræða.
Óháð því hvort að Karl og meðhöfundar hans hafi farið í einu og öllu eftir innanhússreglum NOAA hafa aðrir vísindamenn stigið fram og tekið af vafa um að gögnin sem rannsóknin byggði á og niðurstöður hennar standi á traustum grunni. Niðurstöður Karl og félaga voru meðal annars staðfestar í sjálfstæðri rannsókn sem birt var í janúar. Þess var hins vegar ekki getið í grein Mail on Sunday.
Zeke Hausfather, loftslagsvísindamaður við Kaliforníuháskóla og aðalhöfundur rannsóknarinnar sem staðfesti niðurstöður Karl og félaga, skrifaði á vefsíðuna Carbon Brief að uppfærslan á gögnum NOAA hafi ekki leitt til þess að stofnunin mældi meiri hlýnun en aðrir heldur sýndi hún nú ekki lengur minni hlýnun en aðrar stofnanir eins og NASA. Eftir uppfærslu Karl samræmist gögn NOAA betur sjálfstæðum athugunum.
Þá bjuggu rannsakendurnir ekki til frumhitastigsgögnin og því erfitt að sjá hvernig þeir hefðu getað hagrætt þeim. Sjálfur segir Karl, sem nú er farinn á eftirlaun hjá NOAA, að öll nauðsynleg gögn hafi verið aðgengileg öðrum vísindamönnum sem vildu endurgera rannsóknina og staðfesta niðurstöðurnar.
Segja birtinguna þvert á móti hafa tafist
Halldór segir raunar að niðurstaða Karl og félaga hafi ekki komið sérstaklega á óvart enda hafi aðrir rannsakendur áður komist að henni. Ólíklegt sé því að meintur skortur á að reglum hafi verið fylgt hafi komið að sök. Aðrir aðilar hafi sömuleiðis staðfest niðurstöðurnar síðan.
„Það finnst mér benda til þess að ásakanir um að Karl og félagar hafi verið að hnoða gögnin séu ekki réttar,“ segir Halldór sem líkir þessu við textahöfund sem skrifar hnökralausan texta en er síðan gagnrýndur fyrir að hafa ekki notað villupúka.
Um hvort að birtingu niðurstaðnanna hafi verið flýtt óeðlilega eru Bates og rannsakendurnir algerlega á öndverðum meiði. Þeir síðarnefndu telja að tregða til að taka tillit til nýrrar þekkingar hafi þvert á móti leitt til þess að NOAA hafi um árabil gefið út ófullkomnar tölur.
„Raunverulega vandamálið er að þessi grein tafðist vegna áhyggna af gagnameðferð sem [Bates] hélt á lofti. Ég rökræddi við þá sem lögðu áherslu á meðferðina umfram vísindin í bókstaflega áraraðir um að við værum að birta rangar upplýsingar vegna þess að við máttum ekki uppfæra þær með nýjum gögnum og reikniritum. [...] Þannig að það angrar mig virkilega að heyra hann segja að henni hafi verið flýtt um of þegar hið andstæða er sannleikurinn,“ segir Thomas Peterson, einn höfunda rannsóknarinnar og fyrrverandi veðurfræðingur hjá NOAA um gagnrýni Bates við Washington Post.
Tæknileg þræta og skrifstofupólitík
„Falsanirnar“ sem Mail on Sunday sagði frá á svo dramatískan hátt virðast því í grunninn vera þræta ólíkra vísindamanna um tæknileg atriði og innanhússreglur ríkisstofnunar. Tæknivefsíðan Ars Technica greindi jafnframt frá því að það væri ekkert leyndarmál innan NOAA að Karl hafi lækkað Bates í tign innan stofnunarinnar og það hafi ekki farið vel í þann síðarnefnda.
Bates tjáði sig reyndar sjálfur um málið við AP-fréttastofuna á mánudag í síðustu viku og tók af öll tvímæli um að átt hefði verið við gögn, þeim breytt eða að nokkuð hafi verið gert af illum hug. Hann hafi hins vegar haft áhyggjur af því hvernig farið var með gögnin, þau skráð og geymd.
„Þetta snýst um að greina ekki frá því sem þú gerðir. Þetta eru ekki gögn sem er búið að búa til á nokkurn hátt,“ segir maðurinn sem Mail on Sunday byggir fullyrðingar sínar um að brögð séu í tafli á. Hann segist jafnframt hafa óttast að afneitarar loftslagsvísinda kæmu til með að notfæra sér gagnrýni sína. Honum hafi engu að síður þótt hún of mikilvæg til að láta hjá líða að benda á hana.
New York Times bendir ennfremur á að blaðamaður Mail on Sunday sem skrifaði greinina, David Rose, sé þekktur fyrir að setja fram misvísandi og hreinlega rangar fullyrðingar um loftslagsmál. Í desember skrifaði hann meðal annars grein þar sem hann hélt því ranglega fram að met lækkun hafi orðið á meðalhita jarðar eftir að veðurfyrirbrigðinu El nino slotaði á síðasta ári. Markmið hans virtist vera að færa rök fyrir því að El nino hafi valdið nær sleitulausri röð hitameta frá 2015 til 2016 en ekki hnattræn hlýnun.
Hvað sem líður mögulegum misbresti við skráningu gagna hjá NOAA er sú fullyrðing Rose að ákvörðun á annað hundrað ríkja heims um að grípa til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með Parísarsamkomulaginu hafi á einhvern hátt staðið og fallið með einni rannsókn sem birtist hálfu ári fyrir fund SÞ einfaldlega fjarstæðukennd.
Þrátt fyrir að aðalheimild hans hafi sjálf sagt að engin brögð hafi verið í tafli og fjöldi greina hafi verið skrifaður þar sem skrif hans voru hrakin í vikunni var Rose við sama heygarðshornið í Mail on Sunday um helgina. Þar spurði hann, að því er virðist án snefils af kaldhæðni: „Hvernig getum við treyst vísindamönnum hnattrænnar hlýnunar ef þeir halda áfram að snúa út úr sannleikanum“. Þar komu fram sömu rangfærslurnar og hálfsannleikurinn og í upphaflegu grein blaðamannsins.
Allt þetta er sömuleiðis ólíklegt til að fá leiðtoga vísindanefndar Bandaríkjaþings, sem hefur eftirlit með störfum NOAA, ofan af þeirri ranghugmynd að vísindamenn standi í leynimakki til að þjóna pólítískum málstað þegar kemur að loftslagsmálum. Ólíkt hitafarsgögnum NOAA virðist ekki hægt að uppfæra suma stjórnmálamenn þegar nýjar og betri upplýsingar koma fram.