Fjármálaeftirlitið (FME) hefur komist að þeirri niðurstöðu, eftir athugun sem stóð í um níu mánuði, að framkvæmd, verklag og eftirlit Borgunar í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna færsluhirðingar félagsins erlendis uppfylli ekki með viðunandi hætti þær megin kröfur sem gerðar eru í lögum. Borgun hefur tvo mánuði til að ljúka úrbótum vegna athugasemda eftirlitsins.
Fjármálaeftirlitið tók úrtak 16 viðskiptamanna á alþjóðasviði Borgunar þegar það framkvæmdi athugun á eftirliti með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hjá fyrirtækinu. Í tilviki 13 af 16 viðskiptamanna var ekki framkvæmd könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamennina samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Á meðan að á athugun Fjármálaeftirlitsins stóð, en hún hófst 27. maí 2016 og lauk í febrúar 2017, sleit Borgun viðskiptasambandi við þrjá þessara viðskiptamanna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðu athugunar Fjármálaeftirlitsins.
Þar segir einnig að eftirlitið hafi gert athugasemd við að í tilviki fimm af 16 viðskiptavina Borgunar sem voru kannaðir hafi Borgun ekki greitt fyrstu greiðslu á grundvelli samnings um færsluhirðingu inn á reikning viðskiptamaannsins, eins og lög segja til um. „Í öllum tilvikum var um að ræða viðskiptamenn sem eru eingöngu í starfsemi erlendis og voru ekki á staðnum til að sanna deili á sér við upphaf viðskipta. Þá voru ekki fyrirliggjandi samningar um að Borgun hf. hefði útvistað framkvæmd áreiðanleikakannanna til þriðja aðila sem staddur væri á sama stað og viðskiptamaðurinn og þannig tryggt að viðskiptamaðurinn teldist vera á staðnum til að sanna á sér deili við framkvæmd áreiðanleikakönnunar.“
Til viðbótar gerði Fjármálaeftirlitið fjórar aðrar athugasemdir við framfylgni Borgunar við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þær eru:
- að Borgun hf. sinni almennt ekki með fullnægjandi hætti reglubundnu eftirliti með samningssambandi við viðskiptamenn vegna færsluhirðingar félagsins fyrir þá erlendis.
- að Borgun hf. hafi ekki gripið til ráðstafana til að sinna með fullnægjandi hætti rannsóknarskyldu sinni og mögulegri tilkynningarskyldu vegna viðskipta sem grunur leikur á að rekja megi til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka vegna færsluhirðingar félagsins erlendis.
- að Borgun hf. hafi ekki séð til þess að starfsmenn hafi fengið fullnægjandi þjálfun í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna færsluhirðingar félagsins erlendis.
- að Borgun hf. búi ekki yfir kerfi sem gerir félaginu kleift að bregðast skjótt við fyrirspurnum frá lögreglu og öðru lögbærum yfirvöldum, þ.m.t. Fjármálaeftirlitsins.
Þá gerði Fjármálaeftirlitið athugasemdir við að innri reglur Borgunar væri ekki að fullu í samræmi við lög.
Uppfylla ekki kröfur laga
Samandregið þá er það niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að framkvæmd, verklag og eftirlit Borgunar hf. í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna færsluhirðingar félagsins erlendis uppfyllti ekki með viðunandi hætti þær megin kröfur sem gerðar eru í lögum. Auk úrbótakröfu gerði eftirlitið kröfu um að Borgun fari yfir framkvæmd áreiðanleikakannanna vegna annarra viðskiptamanna á alþjóðasviði, en þeirra sem voru í úrtakinu, og gæti Borgun hf. ekki fullnægt skilyrðum laga skyldi félagið án tafar binda enda á viðskiptasamband við þá viðskiptamenn. „Varðandi aðrar athugasemdir Fjármálaeftirlitsins um framfylgni Borgunar hf. við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka krafðist Fjármálaeftirlitið viðeigandi úrbóta og að félagið skilaði aðgerðaráætlun til Fjármálaeftirlitsins þar sem sýnt væri hvernig það hygðist bregðast við athugasemdum og úrbótakröfum og hvernig tryggt yrði að aðgerðir fyrirtækisins gegn peningaþvætti samræmdust lögum nr. 64/2006, leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 5/2014 og innri reglum félagsins. Fjármálaeftirlitið veitti Borgun hf. tvo mánuði, frá dagsetningu lokaskýrslu, til að ljúka framangreindum úrbótum,“ segir í niðurstöðu eftirlitsins.
Gríðarlegur hagnaður á síðustu árum
Borgun sendi frá sér fréttatilkynningu í morgun, áður en að niðurstaða Fjármálaeftirlitsins var birt, þar sem forstjóri fyrirtækisins, Haukur Oddsson, segist taka athugasemdum þess alvarlega og að það muni „tryggja í samstarfi við FME að starfsemin fullnægi betur en nú er ítrustu skilyrðum laga m.t.t. könnunar á áreiðanleika viðskiptamanna og skyldum þáttum, en lítið hefur reynt á túlkun þessara reglna, sem eru um ýmislegt matskenndar, í íslenskri stjórnsýslu- og réttarframkvæmd. Borgun hefur þess í stað reitt sig á reglur, túlkun og úttektir kortafélaganna Visa og MasterCard sem byggja á sömu evrópulögum og hér um ræðir. Það er brýnt að taka fram að hvorki er um að ræða grun um peningaþvætti né fjármögnun hryðjuverka. Borgun hefur þegar hafist handa við að uppfylla fyrirmæli FME, meðal annars með því að segja upp viðskiptasambandi við nokkra aðila.“
Rekstur Borgunar hefur gengið vel á undanförnum árum. Hagnaður ársins af reglulegri starfsemi var undir einum milljarði króna árið 2013.
Í fyrra var hann rúmlega 1,6 milljarðar króna. Í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér fyrir viku sagði: „Meirihluti þjónustutekna Borgunar hf. kemur frá Alþjóðasviði þar sem vöxtur félagsins hefur verið mestur. Mikil aukning varð á árinu í færsluhirðingu erlendis, svo sem í Bretlandi, Ungverjalandi og Tékklandi og eru erlendir viðskiptavinir Borgunar hf. í þessum löndum nú þegar orðnir fleiri en íslenskir viðskiptavinir“.
En hlutdeild fyrirtækisins í sölunni á Visa Europe skiptir mestu máli þegar virðisaukning fyrirtækisins er metin. Sú sala skilaði Borgun 6,2 milljörðum króna. Samtals verða greiddir 7,7 milljarðar króna í arðgreiðslur til eigenda Borgunar vegna síðustu þriggja ára.