Stjórnendur Bankasýslu ríkisins, sem fer með eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, munu funda með forsvarsmönnum Íslandsbanka um málefni Borgunar í náinni framtíð. Sá fundur mun fara fram þegar færsluhirðingarfyrirtækið, sem er í 63,5 prósent eigu Íslandsbanka, hefur útskýrt athugun Fjármálaeftirlitsins og rannsókn héraðssaksóknara á starfsemi þess fyrir stjórnendum Íslandsbanka. Fjármála- og efnahagsráðuneytið beindi hins vegar fyrirspurn Kjarnans um álit þess á málefnum Borgunar til Bankasýslunnar.
Kjarninn greindi frá því fyrir viku að Fjármálaeftirlitið hefði komist að þeirri niðurstöðu, eftir athugun sem stóð í um níu mánuði, að framkvæmd, verklag og eftirlit Borgunar í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna færsluhirðingar félagsins erlendis uppfylli ekki með viðunandi hætti þær megin kröfur sem gerðar eru í lögum. Borgun voru gefnir tveir mánuðir til að ljúka úrbótum vegna athugasemda eftirlitsins. Auk þess var málinu vísað til embættis héraðssaksóknara síðastliðinn mánudag, þar sem grunur leikur á um saknæmt athæfi sem við liggur refsing samkvæmt lögum.
Viðskipti sem geta leitt af sér orðsporsáhættu
Borgun hefur verið að færa skarpt út kvíarnar á öðrum mörkuðum en þeim íslenska á síðustu árum. Á meðal þeirra landa sem fyrirtækið hefur aukið mjög hlutdeild sína í færsluhirðingu eru Bretland, Ungverjaland og Tékkland. Kjarninn hefur fengið það staðfest að á meðal þeirra viðskiptavina sem Borgun hefur tekið að sér að þjónusta séu aðilar sem selji aðgang að klámi, fjárhættuspilum eða selji lyf á netinu. Allt eru þetta athæfi sem er ólöglegt að stunda á Íslandi en Borgun er hins vegar frjálst að veita stoðþjónustu gagnvart í öðrum löndum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Slíkum viðskiptum fylgir þó mikil orðsporsáhætta.
Borgun sendi frá sér yfirlýsingu á miðvikudag þar sem fyrirtækið segir að það telji sig hafa farið að lögum og framkvæmt áreiðanleikakannanir á viðskiptavinum samkvæmt verklagshefð á Evrópska efnahagssvæðinu. Þar hafnaði Borgun því einnig að stóraukin umsvif Borgunar í öðrum löndum tengdust vafasömum viðskiptum sem önnur kortafyrirtæki vildu ekki sinna. Í yfirlýsingunni var því hins vegar ekki hafnað að Borgun hafi tekið að sér slík viðskipti, heldur einungis sagt að hin stórauknu umsvif væru ekki vegna þeirra.
Ríkið á bankann sem á Borgun
Borgun er í 63,5 prósent eigu Íslandsbanka sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Kjarninn beindi fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem fer með eignir ríkisins, um málefni Borgunar. Þar var m.a. spurt um hvort ráðuneytið hafi látið kanna starfsemi Borgunar í kjölfar athugunar Fjármálaeftirlitsins, hvort ráðuneytið hafi skoðun á því að fyrirtæki í óbeinni eigu ríkisins stundi færsluhirðingu fyrir fyrirtæki sem selji aðgang að klámsíðum, veðmálastarfsemi og lyfsölu á netinu og hvort ráðuneytið ætli að bregðast við þeirri stöðu sem upp sé komin með einhverjum hætti.
Ráðuneytið svaraði fyrirspurninni ekki efnislega heldur vísaði henni til Bankasýslu ríkisins, sem fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, segir í svari til Kjarnans að stofnunin hafi fengið það staðfest hjá Íslandsbanka að bankinn hafi spurst fyrir um málið. „Um leið og Íslandsbanki hefur fengið svör við fyrirspurn sinni munum við funda með honum um málið.“