Í Suður-Kóreu þykir mörgum gott að skella sér á sölubás eða jafnvel fínan veitingastað og kaupa sér hundasúpu eða jafnval soðið hundakjöt með sósu, sérstaklega á heitum sumardögum. Vesturlandabúum þykir þetta illskiljanlegt og sumir kalla þetta hreina villimennsku enda er okkur tamara að líta á hunda sem félaga okkar heldur en nytjadýr. Hundaát Kóreumanna og annarra Asíuþjóða hefur verið mikið til umræðu á undanförnum árum því meira liggur að baki en menningarmunur austurs og vesturs. Málið snýst fyrst og fremst um þá grimmd sem dýrunum er sýnd í skjóli óljósra lagaákvæða.
Þrýstingur í aðdgraganda ólympíuleika
Nú stendur til að loka hinum alræmda Moran markaði í borginni Seongnam. Seongnam er í útjaðri höfuðborgarinnar Seoul og þar búa um ein milljón manns en markaðurinn hefur um áratuga skeið verið einn stærsti hunda –og kattakjötsmarkaður landsins. Markaðinum var komið á fót á sjöunda áratug síðustu aldar og þar eru seldir um 80 þúsund hundar á hverju ári, flestir til veitingastaða. Dýraverndunarsamtök hafa lengi gagnrýnt markaðinn alræmda en hann komst í deigluna nú vegna vetrarólympíuleikanna sem haldnir verða í kóreysku borginni PyeongChang í febrúar á næsta ári. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Asíulönd eru beitt þrýstingi dýraverndunarsamtaka í aðdraganda stórviðburða í íþróttum. Árið 1964 máttu Japanir sæta gagnrýni fyrir hvalveiðar á ólympíuleikunum í Tókýó. Hundaát Kínverja var til umræðu fyrir ólympíuleikana í Beijing árið 2008.
Þá hafa Kóreumenn sjálfir lent tvisvar áður í suðupottinum fyrir það sama, annars vegar á ólympíuleikunum í Seoul árið 1988 og svo í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu árið 2002. Nú hafa ýmis samtök hrundið af stað undirskrifalistum þar sem Kóreumenn eru hvattir til að banna hundaát ellegar verði ólympíuleikarnir í PyeongChang sniðgengnir. Hundruðir þúsunda hafa skrifað undir þessa lista.
Þá hefur fjöldi heimsþekktra persóna haldið málefninu á lofti eins og t.d. leikkonan Judi Dench, grínistinn Ricky Gervais og mannfræðingurinn Jane Goodall.
Borgaryfirvöld í Seongnam hafa heitið hundakjötssölunum á Moran markaðinum fjárhagslegri aðstoð við að færa sig yfir í aðrar atvinnugreinar en þeir eru engu að síður mjög ósáttir. Einn þeirra segir:
„Um 80% af viðskiptavinum okkar koma hingað til þess eins að kaupa ferskt hundakjöt, hvað gera þeir ef við getum ekki selt þeim það lengur?“
Til að skilja afstöðu þeirra er nauðsynlegt að skoða sögu hundaáts á svæðinu og hvaða þýðingu það hefur í þjóðernisvitund íbúanna. Þetta er ekki eins og hver annar iðnaður.
Söguleg og trúarleg sjónarmið
Hundakjöt hefur verið borðað víða í austur-Asíu um árþúsundaskeið. Það hefur verið borðað í norðurhluta Kína síðan á bronsöld og þaðan barst það til Kóreuskaga skömmu eftir Kristsburð. Hundaát er einnig mikið stundað í Víetnam, sérstaklega norðurhlutanum en þar eru einnig borðaðir kettir, rottur og mýs. Hundaát hefur verið stundað annars staðar en í Asíu í gegnum tíðina, t.d. á Hawaii og í Sviss, en það heyrir nú til algerra undantekningartilvika. Hundar eru borðaðir báðum megin landamæranna á Kóreuskaga en, eins og um svo margt annað, er lítið vitað um umfangið norðan megin.
Hundaát er nú á undanhaldi í Suður Kóreu eftir að hafa verið mjög vinsælt um langt skeið, sérstaklega á 19. öld. Um þriðjungur Kóreumanna segist hafa smakkað hundakjöt einhvern tímann á lífsleiðinni en einungis örfá prósent borða það að staðaldri. Hundakjöt er þó fjórða mest selda kjötið á kóreyska markaðinum (á eftir nauti, kjúkling og svíni) sem þýðir að þessi litli hópur neytir kjötsins í miklum mæli. Í dag er talið að um 15-25 milljón hundum sé slátrað árlega til manneldis og þar af um 2 milljónum í Suður Kóreu. Það er aðallega eldra fólk sem borðar hundakjöt en yngri kynslóðin vill ekki sjá það. Margir sem borða ekki hundakjöt sjálfir virða þó afstöðu þeirra sem gera það.
Í fornöld hafði hundaát trúarlega tengingu í austur-Asíu. Heimildir eru til fyrir því að hundum hafi verið fórnað sem mat handa guðunum. Það þýðir að hundakjöt hefur verið talin nokkuð fín fæða. Eftir ris búddhisma á svæðinu á ármiðöldum breyttist afstaðan að einhverju leyti. Afstaða búddhista til kjötáts er blendin og margir þeirra eru grænmetisætur. Búddhamunkum er beinlínis bannað að borða kjöt af vissum dýrategundum, þar á meðal hundum. Þá telja margir búddhistar það boða slæmt karma að borða dýr sem er svo tryggt húsbónda sínum. Í islam er hundaát beinlínis bannað þar sem hundar þykja óhrein dýr líkt og svín. Kristnir hafa aftur á móti meira frelsi til að borða hundakjöt en um 20% af Suður Kóreumönnum eru kristnir.
Er rangt að borða hund?
Flestum Vesturlandabúum býður við þeirri tilhugsun að leggja sér hund til munns. Ekki vegna þess að þeim býður við tilhugsuninni um kjötið sjálft heldur vegna þess að hundar eru taldir félagar mannsins og gæludýr. Í mörgum tilvikum eru þeir vinnufélagar okkar. Af sömu ástæðu veigra margir sér við því að borða hrossakjöt, þó að það sé mun útbreiddara. Í austur Asíu er ekki sama hefð fyrir því að halda hunda sem gæludýr en þeir hafa verið notaðir um aldaraðir sem t.d. varðhundar. Í Kína var beinlínis bannað að eiga hunda sem gæludýr um tíma. Þetta þýðir ekki að Asíumenn geti ekki litið á hunda sem félaga sína, þeir gera það.
En samband þeirra leyfir það að hundar séu álitnir nytjadýr. Hundakjöt hefur einnig djúpar rætur í þjóðtrú Austurlanda. Að borða hundakjöt er talið auka kynhvöt karlmanna, gera þá sterkari og hamla ýmsum sjúkdómum. Í Kóreu eru hundar aðallega borðaðir á sumrin þegar virkni kjötsins er talin mest en í Kína og Víetnam eru hundar aðallega borðaðir yfir vetrartímann. Þar er sagt að kjötið veiti manni sérstaka hlýju. Í Suður Kóreu er einnig framleitt heilsuseyði úr hundakjöti, gaesoju, sem á að veita sömu virkni og kjötið. Það eru þó ekki til neinar læknisfræðilegar eða lífeðlisfræðilegar rannsóknir sem styðja þetta. Hundaát hefur einnig sterka þjóðernislega tengingu, sérstaklega í Suður Kóreu. Margir segja að dýraverndunarsinnar séu vestrænir hræsnarar sem reyni að troða sínum gildum upp á Asíubúa sem hafi borðað hunda óáreittir í þúsundir ára. Af hverju er það eitthvað verra að borða hund en að borða lamb eða nautgrip?
Dýraverndunarsinnar segja þó að gagnrýni þeirra snúist ekki um að gera upp á milli tegunda heldur þeirri meðferð sem hundarnir eru beittir. Hundakjötsmarkaðurinn í Suður Kóreu starfar á gráu svæði lagalega. Á einum stað í lögunum stendur að hundar séu húsdýr en þeir falla hins vegar ekki undir lög um meðferð og hreinlæti húsdýra. Dýraverndunarlögin segja að ekki megi slátra dýrum á grimmilegan hátt og ekki undir berum himni en þeim er hins vegar ekki fylgt í tilfellum hunda.
Moran markaðurinn er prýðisgott dæmi um það. Þar eru 22 aðilar sem selja hunda og geyma þá marga saman í alltof litlu búrum. Oft kremjast þeir eða kafna í þessum búrum. Hægt er að kaupa bæði lifandi og dauða hunda en flestir velja sér lifandi hund sem er slátrað á staðnum. Hundunum er slátrað á mjög ómanneskjulegan hátt t.d. með barsmíðum, rafmagni eða hengingu. Sagt er að adrenalínflæði hundsins rétt áður en hann deyr bæti bragð kjötsins. Til að ná feldinum af hundinum er hann annað hvort soðinn í potti eða notað logsuðutæki, en í sumum tilfellum eru hundarnir ennþá á lífi þegar það er gert. Í Suður Kóreu eru um 100 búgarðar sem rækta hunda til átu og á þeim um milljón hundar samanlagt. Aðstaðan á búgörðunum er svipuð og á mörkuðunum, búrin lítil og meðferðin slæm.
Deyjandi siður
Með auknum tækniframförum, velmegun og alþjóðlegum straumum hefur gæludýrahald Kóreumanna og annarra Asíuþjóða aukist til muna, sérstaklega hjá yngri kynslóðinni. Hundaát fer því minnkandi með hverju árinu og er nú ólöglegt bæði í Kína og Víetnam. Í kínversku borginni Yulin hefur verið haldin sérstök hundakjötshátíð árlega en yfirvöld neita nú ábyrgð og segja að þetta sé einkaframtak borgaranna líkt og hver önnur garðveisla.
Í Víetnam hafa menn brugðið á það ráð að smygla hundum frá Tælandi til að anna eftirspurninni. Í löndunum tveimur er einnig töluvert um það að gæludýrahundum sé stolið til átu. Á ólöglegum mörkuðum er hægt að sjá marga hundsskrokka með hálsólar. Í Suður Kóreu hafa slík tilvik einnig komið upp en flestir hundarnir þar koma af búgörðunum. Algengasti nytjahundurinn kallast nureongi (sá guli) en hann er einnig kallaður dong-gae (skíta hundur). Margar aðrar tegundir eru nýttar eins og t.a.m. labrador, husky, beagle, golden retriever og jafnvel hinn agnarsmái Chihuahua.
Í landinu eru þúsundir veitingastaða sem selja hundakjöt en þeim fer þó fækkandi, bæði vegna minnkandi sölu og utanaðkomandi þrýstings. Á ólympíuleikunum 1988 og heimsmeistaramótinu 2002 var veitingastöðunum gert skylt að loka tímabundið og kjötsalar máttu ekki hafa hundakjöt til sýnis á almannafæri. Ákvörðun borgaryfirvalda í Seongnam um lokun Moran markaðarins er hluti af þessari þróun. Jang In-young hjá dýraverndunarsamtökum Suður Kóreu sagði að lokunin væri stórt skref til að breyta iðnaðinum. Borgarfulltrúinn Kang Won-gu sagði að hundaát yrði að hætta og ennfremur:
„Seongnam hefur frumkvæði að því að breyta ímynd Suður Kóreu því að hver þjóð er metin af því hvernig hún kemur fram við dýrin sín.“
Vestræn dýraverndunarsamtök hafa einnig beitt sér með beinum hætti í landinu og gert ræktendum kleift að hætta starfsemi. Þau taka við dýrunum og flytja þau til Ameríku og Evrópu til þess að verða gæludýr.
Hundaréttir
Gaegogi er kóreyska orðið yfir hundaát. Hundar eru borðaðir á marga vegu í Kóreu en vinsælasti rétturinn er súpa sem kölluð er Gaejang-guk (hunda-og sojabaunasúpa) eða Bosintang (endurnærandi súpa). Í súpunni er soðið hundakjöt ásamt grænmeti og kryddjurtum. Það eru til margar útfærslur af súpunni en flestar innihalda soyabaunir og annað hvort blaðlauk eða púrrulauk. Stundum eru aðrar jurtir á borð við fífla og taro (sem er asísk blaðjurt).
Mintulauf eru svo notuð til að fela lyktina af kjötinu sem er frekar sterk og fúl. Bragðið af kjötinu er þó sagt minna á lamba eða geitakjöt. Súpan er svo krydduð vel með t.d. salti, pipar og chili kryddi. Með súpunni er vinsælt að borða rétt kallast á kóreysku kimchi. Það er súrsuð grænmetisstappa sem inniheldur m.a. engifer, hvítlauk, hreðkur og kál. Þá er ferskt grænmeti eins og agúrkur og paprikur einnig vinsælt meðlæti sem og soju (kóreyskt hrísgrjónavín).
Gaegogi jeongol er vinsæl hundakássa sem er soðin í potti. Hægt er að nota annars konar kjöt í jeongol en af hundi, t.d. nautakjöt eða fisk, en einnig er hægt að sleppa kjöti alveg. Sveppir eru veigamiklir í kássunni en einnig er notaðar grænar baunir, tófú, kál, laukar, hreðkur og fleira. Í kássuna er svo sett hunang eða ávextir (t.d. perur) til að gera hana sæta en einnig bragðsterkar kryddjurtir á borð við chili. Sumir bæta núðlum út í kássuna.
Sumir vilja fá hundakjötið beint á diskinn og það heitir þá gae sujuk. Kjötið er forsoðið og svo steikt á pönnu. Það er borið fram með sósu sem gerð er úr soyabaunum, mintuolíu, salti og hvítlauk og fersku grænmeti s.s. blaðlauk og radísum.
Bon apetit!