Óhætt er að segja að Donald J. Trump Bandaríkjaforseti ætli sér að standa við stóru orðin um að byggja innviði Bandaríkjanna upp að nýju en hann hyggst óska eftir fjárheimild frá þinginu upp á eitt þúsund milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 106 þúsund milljörðum króna, til að styrkja innviði landsins, svo sem vegi og lestarsamgöngur.
Upphæðin er risavaxin, jafnvel á mælikvarða Bandaríkjanna. Þetta er upphæð sem nemur um ríflega 331 þúsund krónum á hvern Bandaríkjamanna. Hlutfallslega, fært niður á íslenskan veruleika, væri um að ræða áætlun upp á 109 milljarða framkvæmdir.
Líklega verður þetta ekki auðsótt hjá Trump ef marka má reynslu forvera hans, Baracks Obama, því líkt og Trump ætlar sér nú, þá reyndi Obama ítrekað að fá samþykktar auknar fjárheimildir til innviðaframkvæmda, meðal annars í vegi og lestarsamgöngur, líkt og Trump hefur hug á því að gera nú.
Repúblikanar stöðvuðu þessar beiðnir ítrekað, og var þó um að ræða aðeins brot af þessari upphæð sem Trump hyggst fá fram nú. Nú er hins vegar öldin önnur og meiri líkur en minni á að Repúblikanar muni standa með forsetanum þegar kemur að þessu stefnumáli.
Samhliða þessu verður 10 prósent útgjaldaaukning til hermála, eða um sem nemur 54 milljörðum Bandaríkjadala. Á móti þessari gríðarlegu útgjaldaaukningu hyggst Trump skera niður í öllum öðrum málaflokkum, einkum og sér í lagi allri opinberu félags- og heilbrigðisþjónustu.
Í stefnuræðu sinni í lok febrúar sagði hann ríkissjóð Bandaríkjanna hafa eytt sex þúsund milljörðum Bandaríkjanna í stríðsrekstur í miðausturlöndum, og það væri óásættanlegt. „Fyrir þá upphæð hefðum við getað endurnýjað alla innviði tvisvar, jafnvel þrisvar,“ sagði Trump.
Nýjustu hagtölur í Bandaríkjunum sýna áframhaldandi efnahagsbata en í síðasta mánuði voru sköpuð 298 þúsund ný störf í landinu, en flestar spár höfðu gert ráð fyrir um 200 þúsund nýjum störfum.