Frændurnir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Viðreisnar, standa nú frammi fyrir stóru pólitísku viðfangsefni ásamt stjórnarmeirihlutanum; uppgjöri við peningastefnu landsins.
Samhliða tilkynningu þeirra í gær, um afnám fjármagnshafta frá og með morgundeginum, greindu þeir frá því að vinna myndi hefjast innan tíðar við endurskoðun á umgjörð peningamála- og gjaldmiðlastefnunnar í landinu.
Verkefnastjórn skipuð
Þriggja manna verkefnisstjórn hefur verið skipuð til þess að leiða þessa vinnu fyrir hönd stjórnvalda. Í henni eru Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur og kennari við Háskóla Íslands, Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins og Illugi Gunnarsson hagfræðingur og fyrrverandi ráðherra.
Tvö af þeim sem eru í hópnu hafa bein tengsl við fjármálafyrirtæki á markaði. Ásgeir hefur sinnt störfum fyrir Virðingu og eiginmaður Ásdísar Kristjánsdóttur, Agnar Tómas Möller, er framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA og einn eigenda fyrirtækisins.
Þegar framkvæmdahópur um afnám hafta var að störfum í tíð fyrri ríkisstjórna, þá var einnig fólk í hópnum sem hafði bein tengsl við fjármálafyrirtæki, þar á meðal Sigurður Hannesson, formaður hópsins, en hann er framkvæmdastjóri hjá Kviku. Vöknuðu þá spurningar um vanhæfi og of mikil tengsl við fjármálafyrirtæki á markaði.
Fólkið undirritaði trúnaðaryfirlýsingu og sögðu stjórnvöld að fólkið nyti trausts í störfum sínum, óháð þessum tengslum við fjármálafyrirtækin.
Reikna má með að svipað verði upp á tengingnum nú, enda líklegt að fyrirhuguð endurskoðun á umgjörð peningamála hafi mikil áhrif á fjármálamarkaði sem og í samfélaginu öllu.
Tinna Finnbogadóttir, hagfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, mun starfa með verkefnisstjórninni, og með verkefnisstjórninni vinna einnig tengiliðir forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Seðlabanka Íslands, að því er segir í tilkynningu frá ríkisstjórninni.
Myntráð Viðreisnar
Markmið með þessari vinnu stjórnvalda er að finna „þann ramma peninga- og gjaldmiðilsstefnu sem til lengri tíma litið er heppilegastur til að styðja við efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika með tilliti til hagvaxtar, verðbólgu, vaxta, gengis og atvinnustigs“ eins og orðrétt segir í tilkynningu stjórnvalda.
Í endurskoðuninni verður rammi núverandi peningastefnu metinn. Í henni er 2,5 prósent verðbólgumarkmið Seðlabankans miðpunktur, ef svo má að orði komast, en með vinnunni er ætlunin að greina hvaða umbætur sé hægt að gera á peningastefnunni „að því gefnu að halda skuli í megineinkenni núverandi peningastefnu sem byggir á verðbólgumarkmiði“ .
Meðal þess sem verkefnastjórnin mun gera er að líta á útfærslur á gengismarkmiði, til dæmis með hefðbundnu fastgengi eða fastgengi í formi myntráðs, en hið síðarnefnda var eitt af helstu áherslumálum Viðreisnar fyrir kosningar 29. október síðastliðinn. Með myntráði er ætlunin að minnka gengissveiflur og halda gengi krónunnar innan ákveðinna marka gagnvart alþjóðlegum myntum.
Í málefnaskrá Viðreisnar er horft til myntráðs sem alþjóðlegrar fyrirmyndar þegar kemur að peningamálastjórn smærri ríkja. „Tekið verði upp myntráð í stað núverandi peningastefnu, hliðstætt því sem tíðkast í fjölmörgum smærri ríkjum. Upptaka myntráðs mun skapa varanlegan gengisstöðugleika, draga verulega úr vaxtamun við útlönd og skapa forsendur langvarandi verðstöðugleika, til hagsbóta fyrir almenning jafnt sem atvinnulíf,“ segir á vef Viðreisnar.
Markmiðið sé í grunninn að styrkja hagstjórnina og skapa traustri stoðir undir atvinnulífinu.
Samkvæmt stjórnarsáttmálanum er síðan stefnt að því að fá niðurstöðu í þessar vinnu á seinni hluta ársins og framkvæma þær breytingar sem taldar eru best til þess fallnar að tryggja meiri stöðugleika í efnahagslífinu.
Árétting: Verkefnastjórn stjórnvalda, sem Ásgeir Jónsson, Ásdís Kristjánsdóttir og Illugi Gunnarsson eiga sæti í, hefur ekki sama hlutverk og framkvæmdahópur um afnám hafta hafði, þegar litið er til hlutverks innan stjórnsýslunnar. Hann er fyrst og fremst ráðgefandi fyrir stjórnvöld og er ekki að vinna með innherjaupplýsingar eins og framkvæmdahópurinn þurfti að gera. Í samanburði milli þessara atriða, er eðlilegt að horfa til þessa munar á milli hópanna tveggja.