Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, telur að þau ummæli um stefnumörkum ríkisstjórnarinnar í stjórnarskrármálum sem Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi hennar, lét falla í nýlegri grein í Þjóðmálum, samræmist ekki stöðu hans. Þetta kemur fram í svari Óttarrs við fyrirspurn Kjarnans. Í greininni í Þjóðmálum, sem ber fyrirsögnina „Bankahrun og byltingastjórnarskrá“, tengir Sigurður Már tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá við hugmyndafræði ítalska kommúnistans Antonio Negri og við þær stjórnarskrárbreytingar sem Hugo Chavez, fyrrverandi forseta Venesúela, innleiddi til að auka völd sín.
Óttarr setur þann fyrirvara að hann hafi ekki lesið sjálfa greinina heldur einungis endursögn Stundarinnar úr greininni. „Það sem hér kemur fram er í mótsögn við stefnu Bjartrar framtíðar, sérstaklega áherslur á sátt og vönduð vinnubrögð. Þá eru þessi ummæli úr takti við stefnu ríkisstjórnarinnar sem birtist í stjórnarsáttmálanum. Með þeim fyrirvara að hafa ekki kynnt mér téða grein finnst mér þessi ummæli um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar illa samræmast stöðu upplýsingafulltrúa hennar.“
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Viðreisnar, segist ekki hafa lesið greinina í Þjóðmálum og vill þess vegna ekki ræða efni hennar.
Nýja stjórnarskráin sem varð aldrei að veruleika
Í greininni fjallar Sigurður Már um stjórnarskrármál og rekur það ferli sem átti sér stað þegar kosið var til Stjórnlagaþings, sem síðar breyttist í Stjórnlagaráð. Það ráð lagði fram frumvarp um miklar breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins árið 2011. Kosið var um tillögur ráðsins haustið 2012 þar sem tveir af hverjum þremur sem tók þátt í kosningunum sagðist vilja að tillögur ráðsins yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Í tillögunum var meðal annars að finna ákvæði um að auðlindir yrðu þjóðareign og að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þar voru einnig tillögur um stórtækar breytingar á íslenska kosningakerfinu þar sem lagt var til að heimila aukið persónukjör og að atkvæði landsmanna myndu öll gilda jafn mikið, en mikið ósamræmi er í því vægi á milli landshluta í dag. Báðar tillögurnar voru samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október 2012. Þrátt fyrir það hafa þessar breytingar á stjórnarskrá ekki orðið að veruleika.
Á síðasta kjörtímabili var skipuð þverpóltísk stjórnarskrárnefnd sem skilaði af sér niðurstöðu í þremur frumvörpum í byrjun árs í fyrra. Fyrsta var um ákvæði um auðlindir náttúru Íslands og að þær séu þjóðareign. Annað frumvarpið um umhverfi og náttúru þar sem mælt er fyrir um ábyrgð á vernd náttúru og að varúðar- og langtímasjónarmið verði höfð að leiðarljósi. Ekki náðist sátt um að ráðast í þessar breytingar á síðasta kjörtímabili.
Ber saman við Venesúela
Sigurður Már ber hina nýju stjórnarskrá sem kosið var um saman við stjórnarskrá Hugo Chavez, forseta Venesúela. Sú stjórnarskrá gerði það að verkum að kjörtímabil forsetans var lengt í sex ár og veitti honum heimild til að leysa upp þing landsins. Síðar var samþykkt stjórnarskrárbreyting sem fól í sér að takmarkanir á fjölda kjörtímabila sem forseti Venesúela mátti sitja var afnumin.
Mikill munur er á þeim hópi sem sat í stjórnarskrárráði Íslands og þeim hópi sem setti saman nýja stjórnarskrá Venesúela á tíunda áratug síðustu aldar. Hér sátu til að mynda þjóðkjörnir fulltrúar í ráðinu en framkvæmda- og löggjafarvaldið kom ekki með neinum beinum hætti að vinnu ráðsins á meðan að hún stóð yfir. Í Venesúela var Stjórnlagaráð að mestu skipað samflokksmönnum þáverandi forseta landsins.
Sigurður Már fjallar einnig um ítalska kommúnistann Antonio Negri, sem var ráðgjafi við gerð stjórnarskráar Venesúela. Hann rifjar upp að Negri hafi verið boðið til Íslands af félagsskapnum Nýhil. Í grein sinni segir Sigurður Már: „Þess má geta að heimspekingurinn Viðar Þorsteinsson, sem var einn þeirra sem stóð fyrir komu Negri hingað í nafni félagsskaparins Nýhils, er bróðir Vilhjálms Þorsteinssonar. Vilhjálmur sat í Stjórnlagaráði sem síðar samþykkti frumvarp til stjórnskipunarlaga eða þá stjórnarskrá sem ætlunin er að þrýsta í gegn á næsta þingi eins og til dæmis Píratar hafa lagt mikla áherslu á.“
Vilhjálmur Þorsteinsson er hluthafi í Kjarnanum. Sigurður Már segir að hann teljist óneitanlega til auðmanna hér á Íslandi. „Fyrirtæki í hans eigu reyndust vera í skattaskjólum og hann er næst stærsti hluthafinn vefmiðilsins Kjarnans sem nýtur velþóknunar vinstri sinnaðra menntamanna.“ Sigurður Már rökstyður ekki þessa fullyrðingu sína nánar.
Vill ákveðnar breytingar
Í niðurlagi greinarinnar kemst Sigurður Már að þeirri niðurstöðu að það séu flestir sammála um að breytingar megi gera á gildandi stjórnarskrá. Hann er þó andsnúinn því að hin nýja stjórnarskrá, sem var afrakstur vinnu Stjórnlagaráðs, taki gildi. Andstaða þingmanna sem séu annarrar skoðunar en hann í málinu hafi hins vegar komið í veg fyrir að sátt næðist um minni breytingar á síðasta kjörtímabili. „Það er hins vegar afar mikilvægt að nýtt þing ljúki þeirri vinnu á sömu forsendum og lagt var upp með.[...]Hugsanlega má endurræsa ferlið með slíkum aðgerðum ef víðtæk samstaða næst um það. Óvíst er að það sé gerlegt á meðan t.d. Píratar hafa þann þingstyrk sem þeir hafa núna.“
Bæði Björt framtíð og Viðreisn, sem í janúar mynduðu ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki, fjalla með skýrum hætti um stjórnarskrármál í stefnuskrám sínum. Og báðir flokkarnir leggja tillögur Stjórnlagaráðs til grundvallar þeirri stefnu.
Á heimasíðu Viðreisnar,undir liðnum „Málefnin“, segir um stjórnarskrármál:„Ná þarf samkomulagi um heildstætt, skýrt og tímasett ferli sem hefur að markmiði að til verði ný stjórnarskrá. Það ferli á að taka mið af tillögum Stjórnlagaráðs og annarri vinnu að breytingum á síðari stigum.“ Í pólitískum áherslum Bjartrar framtíðar, eins og þær eru fram settar á heimasíðu flokksins, segir: „Setjum þjóðinni nýja stjórnarskrá á grunni tillagna Stjórnlagaráðs, í sem mestri sátt. Vöndum okkur.“
Stjórnarskrármál rötuðu líka inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar. Þar segir að unnið verði að endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands á grundvelli þess viðamikla starfs sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Ríkisstjórnin muni bjóða öllum þingflokkum á Alþingi að skipa fulltrúa í þingmannanefnd sem muni starfa með færustu sérfræðingum á sviði stjórnskipunar að sem bestri sátt um tillögur að breytingum sem verði lagðar fram eigi síðar en árið 2019.
Sigurður Már var endurráðinn upplýsingafulltrúi nýrrar ríkisstjórnar, en hann var upphaflega ráðinn í starfið af af ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.