Íslendingar eru nú orðnir 338.349 miðað við stöðuna eins og hún var 1. janúar á þessu ári. Fjölgunin milli ára er 1,8 prósent. Fjölgun Íslendinga á undanförnum tveimur áratugum hefur verið jöfn og þétt. Frá árinu 1997 hefur Íslendingum fjölgað um 68.475, og frá því herrans ári 2007 nemur fjölgunin rúmlega 30 þúsund manns.
En hvernig er íslenska þjóðin nú samsett og hvar er fólk helst að koma sér fyrir? Fimm atriði úr nýlegri samantekt Hagstofu Íslands um Ísland og Íslendinga sýnir þjóð sem vex og dafnar.
1. Íslendingum fjölgaði um 5.820 frá sama tíma árið áður. Þetta er fjöldi sem nemur íbúafjölda í þriggja kaupstaða á Austfjörðum, svo dæmi sé tekið. Konum og körlum fjölgaði nokkuð jafnt en karlar eru eigi að síður 3.717 fleiri en konur á landinu.
2. Mikil fólksfjölgun var á höfuðborgarsvæðinu en íbúum þar fjölgaði um 3.259 í fyrra eða 1,5%. Hlutfallslega varð þó mest fólksfjölgun á Suðurnesjum, 6,6%, þar af hlutfallslega mest í Reykjanesbæ. Einnig fjölgaði íbúum á Suðurlandi (2,1%), Norðurlandi eystra (1,1%) og Vesturlandi (1%), en minna á Norðurlandi vestra (0,4%) og Austurlandi (0,4%). Fólksfækkun var á Vestfjörðum, en þaðan fluttust 13 manns (0,2%) í fyrra.
3. Kjarnafjölskyldur voru 80.638 hinn 1. janúar síðastliðinn en 79.870 ári áður. Stærsti hluti kjarnafjölskyldna eru barnlaus hjón, eða 39 prósent af heildinni. Hjón með börn koma þar á eftir, ríflega 27 prósent, og einstæðar mæður með börn næst þar á eftir, með 13,8 prósent.
4. Og fólki fjölgar stöðugt í þéttbýli. Hinn 1. janúar síðastliðinn voru 60 þéttbýlisstaðir á landinu með 200 íbúa eða fleiri og fækkaði um einn milli ára. Auk þeirra voru 36 smærri staðir með 50–199 íbúa sem er fjölgun um einn frá fyrra ári. Í þéttbýli bjuggu 316.904 og fjölgaði um 5.054 milli ára. Í dreifbýli og smærri byggðakjörnum bjuggu 21.455 manns.
5. Kópavogur er næs stærsta sveitarfélagið á eftir Reykjavík og þar hefur íbúum fjölgað einna hraðast á landinu. Í byrjun ársins voru íbúa komnir yfir 35.200 talsins og fjölgaði um ríflega 1.100 milli ára. Höfuðborgarsvæðið vex því töluvert innan Kópavogs áfram, eins og reyndin hefur verið undanfarin ár.