914 einstaklingar voru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavíkurborg í byrjun þessa mánaðar. Þetta má lesa út úr gagnasafni velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sem hefur verið birt á netinu. Biðlisti eftir félagslegu húsnæði hefur lengst um tæplega 200 manns frá upphafi síðasta árs.
Langstærsti hópurinn sem er á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík eru einhleypir karlmenn. Meira en helmingur þeirra sem eru á biðlista eftir slíku húsnæði tilheyra þessum hópi, eða 483 talsins af 914.
Næststærsti hópurinn sem bíður eftir félagslegu leiguhúsnæði eru einhleypar konur, 221 talsins. Þriðji stærsti hópurinn sem bíður eftir íbúð eru einstæðar mæður, en þær eru 157. 25 hjón eða sambýlisfólk með börn bíða félagslegs leiguhúsnæðis og 16 barnlaus hjón eða sambýlisfólk. Tólf einstæðir feður eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði.
Biðlistar eftir félagslegu húsnæði hafa lengst í borginni frá árinu 2013, en gagnasafn borgarinnar nær aftur til byrjunar ársins 2013 hvað þetta varðar. Nú eru sem fyrr segir 914 á biðlista eftir félagslegu húsnæði í borginni, en fjöldinn fór fyrst yfir 900 í febrúar síðastliðnum, líkt og sjá má á myndinni hér að neðan.
Mest er eftirspurnin eftir eins til tveggja herbergja íbúðum, en 696 eru á biðlista eftir slíkum íbúðum. 141 er að bíða eftir þriggja herbergja íbúð og 77 bíða eftir fjögurra herbergja íbúð eða stærri.
Biðlistinn eftir íbúðum er langlengstur í Vesturbæ, miðborg og Hlíðum, þar sem 305 mans eru á biðlista eftir íbúðum í þeim hverfum. 201 er á biðlista eftir íbúð í Laugardal og Háaleiti og 158 í Breiðholti. 135 eru á biðlista eftir íbúð í Árbæ og Grafarholti og 115 í Grafarvogi og á Kjalarnesi.
Biðlistarnir eru flokkaðir niður eftir þjónustumiðstöðvum borgarinnar. Lengdin á biðlistunum hefur breyst nokkuð frá því árið 2013, en þá voru fleiri á biðlista eftir íbúðum í Breiðholti en í Vesturbæ, miðborg og Hlíðum.
Árið 2014 fækkaði á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Breiðholti úr 230 í upphafi árs í 160 í lok árs, á meðan biðlistinn í Vesturbæ, miðborg og Hlíðum lengdist.