Fyrir rúmri hálfri öld ferðaðist búktalarinn Baldur Georgs um landið ásamt brúðunni Konna og hélt sýningar fyrir mörg hundruð gesti þar sem töfrabrögð komu einnig við sögu. Börnin höfðu vitaskuld gaman að því að sjá þetta en ekki síður fullorðnir því að húmorinn í sýningunum höfðaði oft til þeirra. Baldur var eini búktalarinn sem náð hefur nokkurri frægð á Íslandi og því einstakur í skemmtanalífi landsins.
Vildi verða töframaður 9 ára
Baldur Georgs Takács fæddist í Reykjavík þann 22. október árið 1927. Faðir hans var ungverskur fiðluleikari að nafni Georg Takács sem starfaði um hríð á Íslandi, m.a. í Hljómsveit Reykjavíkur og sem hljómsveitarstjóri í Gamla Bíó. Hann var íslenskur ríkisborgari og stundaði hér læknanám en flutti síðar út til Kaupmannahafnar þar sem hann eignaðist fjölskyldu. Móðir Baldurs var Ágústa (Þorvarðsdóttir) Thorarensen danskennari og píanóleikari sem m.a. spilaði tónlist við þöglu myndirnar í Gamla Bíói. Hún flutti einnig út til Kaupmannahafnar og því ólst Baldur upp hjá afa sínum og ömmu, þeim Þorvarði Þorvarðssyni prentsmiðjustjóra í Gutenberg og Sigríði Jónsdóttur húsmóður.
Þorvarður var áberandi maður í Reykjavík á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Auk þess að vera prentsmiðjustjóri var hann virkur í verkalýðshreyfingunni og Alþýðuflokknum og sat m.a. sem bæjarfulltrúi fyrir flokkinn. Þá hafði hann sérlegan áhuga á leiklist og æskulýðsmálum. Hann var stofnandi og fyrsti formaður Leikfélags Reykjavíkur í Iðnó og þessum áhuga smitaði hann Baldur af. Baldur fór á margar leiksýningar með afa sínum og hreifst mjög af sviðinu. En árið 1936, skömmu fyrir 9 ára afmælisdaginn, lést Þorvarður sviplega. Skömmu eftir andlát afa síns ákvað hinn ungi Baldur að verða töframaður. Hann var heillaður af sjónhverfingum og töfrabrögðum og varð sér úti um bækur um töfrabrögð sem hann las upp til agna. En einnig heillaðist hann af búktali sem enginn Íslendingur hafði stundað fyrr. Helsti áhrifavaldurinn í þeim efnum var hinn bandaríski Edgar Burgen sem kom fram með brúðunni sinni Charlie McCarthy og var heimsþekktur úr kvikmyndum og útvarpi. Baldur sá fram á að þetta yrði leið hans inn í skemmtanabransann.
Vinsælasti skemmtikraftur landsins
Baldur sýndi í fyrsta sinn töfrabrögð opinberlega á stríðsárunum, þegar hann var einungis 16 ára gamall. Þetta vatt fljótlega upp á sig og brátt skiptu sýningarnar tugum og svo hundruðum. Hann einbeitti sér að einföldum brellum með spil, peninga og hnúta og talaði mikið til að dreifa athygli áhorfenda. Þetta útheimti mikið hugrekki að hans hálfu því að hann var mjög feiminn að eðlisfari og með mikinn sviðsskrekk (sem fór bara versnandi með árunum). En Baldur vildi bæta búktali inn í sýningarnar og því var næsta skref að panta brúðu. En það var flóknara en það hljómar. Hann varð að leita út fyrir landsteinana til þess að fá almennilega búktalarabrúðu með hreyfanlegum munni.
Dúkkan Hákon, eða Konni, var því sérsmíðuð fyrir Baldur í Englandi árið 1945 og skömmu seinna komu Baldur og Konni fyrst fram í Listamannaskálanum við Austurvöll, á árshátíð Iðnskólans. Félagarnir slógu strax í gegn og fengu sæg af boðum um að koma fram við alls kyns tilefni. Þeir komu fram á útiskemmtunum, í leikhúsunum og kvikmyndahúsunum, í Tívolíinu í Vatnsmýrinni, í revíum og skemmtunum á borð við Bláu Stjörnuna og Sjómannakabarett. Þá ferðuðust þeir um allt land og tróðu jafnvel upp í minnstu þorpum. Alls staðar sem þeir komu var troðfullt, bæði af börnum og fullorðnum. Þeir fóru meira að segja út fyrir landsteinana, til Danmerkur þar sem þeir skemmtu í Tivoli og Bakken.
Það má segja að í um 20 ár hafi þeir verið vinsælustu skemmtikraftar landsins. Stjórnmálaflokkarnir nýttu sér þessar vinsældir og fengu þá með sér til að skemmta á kosningafundum víða um land en einnig voru þeir notaðir í auglýsingum. Á sjötta áratugnum hófu þeir innreið sína inn á heimilin með 5 barnaplötum. Þar söng Konni með Alfreði Clausen og Skafta Ólafssyni sem voru landsþekktir söngvarar. Seinna komu út tvær barnabækur þar sem Konni kenndi töfrabrögð og sagði brandara. Félagarnir sáust einnig á sjónvarpsskjánum hjá Ríkisútvarpinu á upphafsárum þess um miðjan sjöunda áratuginn en þá voru þeir að mestu hættir að koma fram á skemmtunum.
Annar kurteis, hinn klúr
En hver var galdurinn á bak við velgengni Baldurs og Konna? Fyrir það fyrsta þá var Baldur algerlega einstakur skemmtikraftur á Íslandi. Hann var fyrsti búktalari landsins og sá eini sem hefur náð einhverri frægð. Búktalarar komu fyrst fram á sjónarsviðið sem skemmtikraftar á 18. öld og náðu miklum vinsældum í hinum enskumælandi heimi.
Íslendingar í Vesturheimi þekktu þetta form vel en Íslendingum hér heima var þetta mjög framandi. Baldur náði líka einstakri færni í búktali og þó að töfrabrögð hefðu ávallt verið hluti af sýningum hans þá kom fólk fyrst og fremst til þess að sjá hann tala í gegnum Konna. Baldur æfði sig á hverjum einasta degi og útlendingar sem voru vanir búktölurum sögðu hann vera á heimsmælikvarða. En sjarminn við sýningar hans fólust sennilega einna helst í samspili þessa tveggja ólíku persóna. Baldur sagði:
Aðalatriðið við búktal er að vera tvær persónur í einu. Það virkar ekki nema manni takist að skapa persónuleika fyrir brúðuna og vera tveir menn í einu en ekki til skiptis.
Baldur og Konni hefðu varla getað verið ólíkari persónur. Baldur var ávallt kurteis og varkár og virkaði nokkuð feiminn en Konni óframfærinn og djarfur, jafnvel frekur. Hann hikaði ekki við að svara erfiðum áhorfendum fullum hálsi ef þeir gerðu hróp og köll að sviðinu. Hann gat líka verið orðljótur og jafnvel klúr og einstaka sinnum mætti halda að hann hefði fengið sér örlítið í aðra tánna. Baldur sagði að hegðun hans mætti skýra með því að hann hefði fengið nokkuð frjálslegt uppeldi. Konni gerði þó sjaldnast grín að nokkrum nema sjálfum sér. Konni hafði líka bætandi áhrif á Baldur sem skemmtikraft, þ.e. hann hjálpaði honum með feimnina og sviðsskrekkinn því í gegnum Konna gat hann leyft sér að segja og gera hluti sem hann hefði annars ekki þorað. Það verður nefnilega enginn reiður við brúðu.
Lífið með Konna
Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá Baldri og Konna því ýmis óvænt atvik áttu sér stað á ferðum þeirra. Í eitt skipti náðist naumlega að bjarga Konna úr eldsvoða þegar samkomuhús á Fáskrúðsfirði brann til kaldra kola. Í annað sinn var honum stolið af dönskum búktalara sem notaði hann til sýninga. Einnig munaði minnstu að Baldur seldi Konna og réttinn á honum. Sýningarnar voru nefnilega aldrei aðalstarf Baldurs.
Hann fékk ágætlega greitt fyrir að troða upp en ekki svo vel að hann gæti lifað á því. Baldur kynntist eiginkonu sinni, Sigubjörgu Sveinsdóttur hárgreiðslumeistara, við sýningar í Kaupmannahöfn árið 1948. Þau eignuðust 3 börn og Baldur vann við skrifstofustörf til að framfleyta fjölskyldunni. Börnin þeirra voru ekki jafn heilluð og jafnaldrar þeirra af töfrabrögðunum og búktalinu en Baldur og Konni tróðu vitaskuld upp í barnaafmælunum. Rannveig, dóttir hans segir að fyrstu kynni hennar af Konna hafi ekki verið jákvæð.
Ég var bara ungabarn þegar Konni kom inn á heimilið og ég var mjög hrædd við hann. Það var ekki fyrr en ég var orðin eldri sem ég gat farið að líta hann réttum augum.
Baldri fannst jafnframt erfiðara að skemmta börnum en fullorðnum, því þau væru kröfuhörðustu áhorfendurnir.
Samfara sýningunum, vinnunni og fjölskyldulífinu lauk Baldur stúdentsprófi utanskóla við Menntaskólann í Reykjavík árið 1961. Eftir það hóf hann að kenna tungumál í grunnskólum, fyrst á Akranesi og síðar Eskifirði. Konni var aldrei langt undan og fylgdi Baldri stundum í tíma og meira að segja í prófspurningar. En sýningunum fækkaði á sjöunda áratugnum samfara því sem áhugi fólks á búktali fór minnkandi. Í kringum 1970 hættu þeir nánast að koma fram. Baldur átti á um tíma við áfengisvandamál að stríða og árið 1972 skildu þau Sigurbjörg.
En Baldur hafði þó ekki gefist upp á skemmtanabransanum. Hann nam í tvo vetur við Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar þar sem hann lagði áherslu á sviðstækni, taltækni og einleik. Hann kom einstaka sinnum fram, t.d. í kvikmyndinni Brekkukotsánnál frá árinu 1973, en hafði þó mun meiri áhuga á að skrifa leikrit. Hann skrifaði leikritið Galdraland sem var sett upp á áttunda og níunda áratugunum og var einnig sýnt í sjónvarpi.
Það var hins vegar eina verkið sem hann kom á svið. Konni var einstaka sinnum sóttur úr brúnu ferðatöskunni sinni til sýninga, allt fram undir lok níunda áratugarins en þær sýningar heyrðu til undantekninga. Börn höfðu ennþá gaman að talandi brúðum á þeim tíma, sbr. miklar vinsældir Brúðubíls Helgu Steffensen, en áhugi á búktali var að deyja út. Þó má sjá Konna bregða fyrir í stuðmannakvikmyndinni Með allt á hreinu frá árinu 1982. Stuðmenn voru af þeirri kynslóð sem ólst upp við sýningar Baldurs og Konna og vildu veita þeim virðingarvott. Á efri árum fékkst Baldur við hitt og þetta, t.d. þýðingar. Einnig kenndi hann yngri kynslóð töframanna, bæði töfrabrögð og búktal. Baldur Georgs lést þann 26. ágúst árið 1994 á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, 66 ára að aldri. Tæpum tveimur árum seinna var Konni færður Þjóðminjasafninu að gjöf að ósk Baldurs. Hann er nú þar til sýnis.
Kynslóðabilið
Baldur og Konni eru orðnir að nokkurs konar hugtaki í sjálfu sér, sér í lagi hjá eldri kynslóðinni. Er það þá sjaldnast notað á jákvæðan hátt. Eitt þekktasta dæmið var þegar Atli Gíslason, fyrrverandi þingmaður Vinstri Grænna og einn af “villiköttunum”, líkti Steingrími J. Sigfússyni og Birni Vali Gíslasyni við þá árið 2013. Atli segir:
Baldur var kurteis og yfirvegaður maður en Konni kjaftfor, ókurteis, á köflum klámfenginn og bölvaði. Konni hneykslaði Baldur margsinnis með orðfari sínu og hlaut ítrekað skammir og siðavöndun Baldurs. Til þeirra félaga, Baldurs og Konna, hefur mér oft verið hugsað þegar BVG á í hlut, nánasti samstarfsmaður formanns VG. Ekki hef ég heyrt formanninn álasa “Konna” sínum fyrir orðbragðið. Hann virðist ef eitthvað er ánægður með kjafthátt og óskammfeilni “Konna”.
Annað dæmi er þegar Ólafi Ragnari Grímssyni, þáverandi forseta, og Sigurði G. Guðjónssyni, fyrrverandi kosningastjóra hans, var líkt við Baldur og Konna í staksteinum Morgunblaðsins árið 2009. Þar segir:[ http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=335888&pageId=5293234&lang=is&q=Baldur%20og%20Konni]
Það flæktist fyrir mönnum forðum þegar hljóð heyrðist frá Baldri og Konna að greina hvor var að tjá sig... Þeir Ólafur og Sigurður verða áfram óaðskiljanlegir eins og reyndar Baldur og Konni voru til síðustu stundar.
Sigurður brást illa við og svaraði þessu í pistlinum „Baldur og Konni á öndverðum meiði!”. Það er því ljóst að Baldur og Konni eru greiptir í minni eldri kynslóðarinnar og mönnum sárnar að vera líkt við þá félaga. Flestir af yngri kynslóðinni þurfa hins vegar að fletta því upp á netinu hverjir Baldur og Konni voru því að enginn hefur tekið við keflinu af Baldri og búktal er nú samasem dautt. Í eina skiptið sem við sjáum því bregða fyrir er í erlendum hæfileikakeppnum á borð við “America´s Got Talent” þar sem tveir búktalarar hafa staðið uppi sem sigurvegarar.
Nú er einstaklega góður tími fyrir ýmis konar skemmtanir á götum úti, í tjaldi eða á útisviðum. Sirkus Íslands var stofnaður árið 2007 og hefur vaxið með hverju árinu. Árið 2014 safnaðist fé fyrir stóru sýningatjaldi. Í hinu íslenska töframannagildi eru yfir 20 starfandi töframenn og nokkrir af þeim lærðu brellur hjá Baldri Georgs. Vegna ferðamannastraumsins eru tónlistarmenn og aðrir skemmtikraftar farnir að sjást á Laugaveginum og víðar líkt og í erlendum stórborgum. Gróskan í leiklist, þar á meðal einleik, hefur sjaldan eða aldrei verið meiri á Íslandi en einmitt nú. Það hlýtur því að vera tímaspursmál hvenær við fáum að sjá annan íslenskan búktalara gera það gott.