Draumurinn um danska rafbílinn

Borgþór Arngrímsson skrifar um Hope Whisper, danska rafmagnsbílinn, og drauminn um hann.

160516_004.jpg
Auglýsing

Fyrir skömmu var frumsýnd ný dönsk kvikmynd, Dan Dream. Tvímenningarnir Casper og Frank sem að henni standa eru kannski best þekktir fyrir sjónvarpsþættina Klovn, Trúð. Dan Dream, sem hefur hlotið misjafna dóma gagnrýnenda, er lauslega byggð á sögu danska rafbílsins Hope Whisper. Sú saga er sérstök, að ekki sé meira sagt.

Árið 1941 fæddist í Kaupmannahöfn drengur sem skírður var Thure Barsøe-Carnfeldt. Hann átti fremur erfiða æsku, ólst upp hjá einstæðri móður sem flutti oft. Strákurinn var mjög athafnasamur og móðirin hafði um tíma miklar áhyggjur af honum. Fékk svo að vita að hann væri það sem nú er kallað „ofvirkur“ og hún þyrfti ekki að hafa sérstakar áhyggjur af því. 

„Snemma beygist krókurinn“ segir máltækið. Það á sannarlega við Thure Barsøe sem ungur fékk mikinn áhuga á rafmagni og bílum. Tólf ára gamall tók hann ásamt félaga sínum þátt í kassabílakeppni á Bellahöj í Kaupmannahöfn. Kassabíll þeirra var öðruvísi en hinir sem tóku þátt í keppninni, hann var rafknúinn. Fyrir þá félaga varð keppnin endaslepp, bíllinn valt þegar hann rann niður brekkuna frá rásmarkinu og þar með lauk þátttöku rafkassabílsins og jafnframt síðustu ferð hans. 

Auglýsing

Lærði og vissi allt um rafmagn

Þeim sem þekktu til Thure Barsøe kom ekki á óvart að hann skyldi leggja stund á rafmagnstæknifræði. Að loknu námi flutti Thure Barsøe til Hadsund á Austur-Jótlandi og stofnaði þar nokkur fyrirtæki, þekktast þeirra vafalítið Hope Computer sem hann stofnaði og rak í samvinnu við bandaríska fjölskyldu, Hope. Það gustaði um Thure Barsøe og fyrirtækið lenti margoft í deilum vegna kjaramála. 

Bæjarráðsmaður, þingmaður og fangi

 Árið 1978 var Thure Barsøe kjörinn bæjarráðsmaður í Hadsund. Þremur árum síðar, 1981, var hann kjörinn á þing, fyrir framfaraflokk Mogens Glistrup. Hann stoppaði stutt við í Framfaraflokknum, gekk úr Framfaraflokknum 1982, var um tíma utanflokka en hætti afskiptum af stjórnmálum árið 1984. Síðar átti Thure Barsøe eftir að komast í kast við lögin og árið 1988 var hann dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir fjársvik. Hann sat inni í tvö ár og sagði síðar að þessi tvö ár hefðu lengt líf sitt um fimm til tíu ár. „Tvö ár án ferðalaga, lúxusfæðis, funda og áfengis er beinlínis sumarfrí fyrir heilsuna“.

Draumurinn um rafbílinn

Þótt Thure Barsøe kæmi víða við og hefði margt í takinu gleymdi hann aldrei draumnum um rafbílinn. Eftir að hafa gengið með hugmyndina í maganum í nokkur ár á áttunda áratugnum keypti hann lítinn Fíat, fjarlægði bensínvélina og setti rafmótor í staðinn. Þetta fyrsta skref (ef frá er talinn kassabíllinn) tókst ekki sérlega vel og Fíatinn endaði úti í skurði, ljóslaus í myrkri. Thure Barsøe er ekki maður sem leggur árar í bát og hélt tilraunum sínum áfram og árið 1982 réð hann fjóra menn í vinnu og tók á leigu gamalt verkstæðishús skammt frá Hadsund, þar höfðu verið framleiddir tommustokkar og þvottaklemmur en húsið stóð nú autt. 

Í kapphlaupi við tímann

Thure Barsøe vissi að árið 1983 átti að halda stóra bílasýningu í Forum í Kaupmannahöfn, þar vildi hann frumsýna nýja rafbílinn. Sjálfur var hann búsettur í Kaupmannahöfn en Henning Bitch, sem var rafvirki að mennt, stjórnaði verkstæðinu. Þar var unnið í kapp við tímann, oft 12 til 14 tíma á sólarhring. Danskir fjölmiðlar fylgdust grannt með og kölluðu Hadsund „Detroit Danmerkur“. Hvorki Thure Barsøe né þeir sem unnu að smíði bílsins þekktu mikið til slíkra hluta og á ýmsu gekk. Fyrst var ætlunin að bíllinn yrði einungis með einu afturhjóli en síðar var ákveðið að hverfa frá því og hafa afturhjólin tvö, eins og framhjólin. „Þetta verður fjögurra manna, tveggja dyra, fjölskyldubíll, sannkallaður framtíðarbíll“. Þótt smíði bílsins gengi þokkalega var eitt vandamál óleyst: rafhlaðan, eða réttara sagt tæknin til að hlaða rafhlöðuna. En Thure Barsøe hafði ekki þungar áhyggjur af þeim málum, það myndi reddast. Bílasýningin í Forum átti að hefjast 14. október 1983 og allt miðaðist við það.

100 kílómetra á hleðslunni

Kostnaðurinn var nú farinn að valda Thure Barsøe áhyggjum. Hann lagði því ofuráherslu á að auglýsa þennan „byltingarkennda bíl“ eins og það var orðað. Og þar skorti ekki loforðin: það yrði hægt að aka 100 kílómetra á hleðslunni og bíllinn gæti náð 80 kílómetra hraða.      „Ég svitnaði þegar ég sá loforðin“ sagði verkstæðisformaðurinn Henning Bitch. Í litskrúðugum auglýsingabæklingum var líka tilgreint hvað bíllinn, Hope Whisper, myndi kosta. 

Nótt við dag

14. október nálgaðist og ennþá mörg mál óleyst. Thure Barsøe tilkynnti sínum mönnum að hvað sem tautaði og raulaði yrði bíllinn að vera tilbúinn til kynningar þegar bílasýningin í Forum hæfist. Vinnudagurinn á verkstæðinu varð sífellt lengri og ekki lengur talað um 12 til 14 tíma á sólarhring. Verkstæðisformaðurinn Henning Bitch  hætti, sagði áætlanir forstjórans algjörlega óraunhæfar. Claus Fjeldgaard sem tók við verkstæðisformennskunni svaf ekki dúr þrjá síðustu sólarhringana áður en sýningin hófst. Afleiðingar þess komu síðar í ljós. Daginn áður en sýningin átti að hefjast varð óhapp á verkstæðinu, hluti mótorfestingar brotnaði. Annað boddí var til á verkstæðinu og mótorinn, hurðir og allt annað var flutt þangað. Aðfaranótt 14. október var bíllinn fluttur á kerru frá Hadsund til Kaupmannahafnar. Eiginkona Claus Fjeldgaard ók bílnum sem dró kerruna, treysti ekki bóndanum, sem ekki hafði sofið sólarhringum saman, fyrir akstrinum. Þau komu til Kaupmannahafnar klukkustund áður en sýningin skyldi hefjast. Takmarkinu var náð.

Sýningin sem aldrei gleymist

Nýi rafbíllinn, Hope Whisper, var auglýstur sem aðalnúmer sýningarinnar. Fyrsti rafbíll sem framleiddur hafði verið, danskur! Á annað þúsund gesta og rúmlega eitt hundrað fréttamenn voru mættir til að fylgjast með. Sýningin var opnuð kl. 10.30, Thure Barsøe flutti ávarp og það gerði líka Poul Schluter forsætisráðherra Danmerkur og ýmsir fleiri. Hope Whisper stóð efst í einskonar rennibraut, hulinn dökkri ábreiðu, með sérstaka stoppklossa við framhjólin. Undir stýri sat verkstæðisformaðurinn Claus Fjeldgaard en þegar bíllinn hefði runnið niður af pallinum átti hann að aka nokkra hringi. Loks var ræðuhöldunum lokið, stoppklossunum kippt burtu og ábreiðunni svipt af. 

Áhorfendur fylgdust spenntir með þegar Hope Whisper rann af stað en ökuferðin var stutt. Þegar bíllinn var að verða kominn niður rennuna skall hann á stólpa og stöðvaðist þar. Claus Fjeldgaard sem, eins og áður sagði, hafði ekki komið dúr á auga sólarhringum saman hafði að líkindum sofnað undir ræðuhöldunum og hrökk ekki upp fyrr en um seinan. Sjálfur sagðist hann hafa blindast af flassljósum fréttamanna. Við áreksturinn brotnaði stuðari Hope Whisper og önnur hurðin losnaði. Starfsmenn verkstæðisins hlupu til og eftir nokkra töf gat Claus Fjeldgaard ekið nokkra hringi í sýningarhöllinni. allt í einu fór bíllinn að hökta og Claus ók rakleiðis inn i hliðarsal hallarinnar. Í ljós kom að hjól í drifinu hafði brotnað. Myndir af Hope Whisper voru á forsíðum fjölmiðla og í fréttum víða um heim (var uppnefndur No Hope Whisper) og þótt bíllinn vekti vissulega athygli var hún ekki með þeim hætti sem vonir stóðu til. 

Ekki af baki dottinn

Óhappið í Forum var mikið áfall fyrir Thure Barsøe. Alls voru framleiddir 14 Hope Whisper bílar og einungis fjórir þeirra voru nokkru sinni skráðir og fengu númeraplötur. Thure Barsøe vildi ekki gefast upp og gerði samning um framleiðslu rafbíls við fyrirtæki í Þýskalandi. Sá skyldi heita Whisper II. Ekki tókst hinsvegar að útvega nauðsynlegt fjármagn til framleiðslunnar og Thure Barsøe seldi Whisper fyrirtækið til Svíþjóðar. Síðar var fyrirtækið selt til Kaliforníu og þar var bíllinn framleiddur, talsvert breyttur, um árabil.

Af Thure Barsøe er það að segja að hann er enn, 76 ára gamall, með háleitar hugmyndir. Í samvinnu við franskan tæknifræðing hefur hann lengi unnið að þróun bíls sem gengur fyrir þrýstilofti, sem framleitt er með rafmagni. Tilraunabíll sem þeir félagar hafa smíðað getur að sögn keyrt 150 kílómetra á hleðslunni og einungis tekur tvær mínútur að hlaða þrýstiloftskútinn. „Við erum ekki komnir í mark en vel áleiðis“ sagði Thure Barsøe í viðtali fyrir nokkrum dögum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ríkisstjórnin héldi ekki þingmeirihluta sínum ef niðurstöður kosninga yrðu í takt við nýja könnun Maskínu.
Ríkisstjórnarflokkarnir fengju einungis 30 þingmenn samkvæmt nýrri könnun Maskínu
Í nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis dalar fylgi Sjálfstæðisflokksins um tæp þrjú prósentustig. Ríkisstjórnin myndi ekki halda þingmeirihluta sínum, samkvæmt könnuninni.
Kjarninn 28. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None